Thursday, December 31, 2009

Gleðilegt nýtt ár

Volga kom í heimsókn um dagin með vinkonu sína, hana Sally. Þær voru hérna í 3 daga og mikið var gaman að hafa þær. Ég fór með þeim til Stellenboch, Somerset West og Franshouek. Volga var að koma málverkum í gallerí á þessa staði. Rosalega flott málverk sem öll gengu út. Gott fyrir hana. Við höfum verið ansi duglegir að sósalísera undanfarið. Það er búið að vera ansi mikið að gera hérna yfir hátíðarnar. Vorum fullbókað í jólamat og erum fullbókaðir í gamlárskvöld. Það er ekki auðvelt vegna þess að við erum orðnir svo fáliðaðir. Það bætist bara meiri vinna á okkur. Ég er meira að segja farinn að þjóna sem ég harðneitaði fyrst. Fannst það ansi erfitt til að byrja með en er orðinn nokkuð afslappaður með það núorðið.

Við erum búnir að fá nýjan fjölskyldumeðlim. Picasso, sem er kallaður Kassie. Hann er stór páfagaukur (African Grey), 8 ára og kjaftar mjög mikið. Er fljótur að læra ný orð og setningar. Hann er búinn að læra að gelta eins og Patsý, segja Welcome to the lodge, Bói sætur, Bói krútt. Hann er agalegur á morgnanna. Þá byrjar hann með sírenu, bíla alarm, blístrar, syngur og ég veit ekki hvað. Get ekki sett hann út fyrr en eftir morgunmat vegna þess að annars myndi hann vekja alla hótelgesti og nágranna. Annars er hann mjög skemmtilegur. Þau sem gáfu okkur hann eru vinir Jennýar og fuglinn var að gera þau vitlaus með hávaða. Þau voru með teppi yfir honum og sinntu honum ekki mikið. Það hafði gert hann frekar agressívan þannig að hann bítur ef einhver vogar sér að setja fingur inn í búrið. Hann var taminn og það var hægt að ganga með hann á öxlinni, en sökum þess hvað hann hefur verið afskiptur, þá er hann það ekki lengur. Bói er að vonast til þess að hann geti tamið hann aftur. Gæti verið vegna þess að hann er farinn að geta klórað honum á hnakkan og klappað honum án þess að hann bíti. Svona páfagaukar eru bara eins eigenda fuglar og verða oft mjög nánir honum. Held að Bóa komi til með að takast þetta með tímanum. Kassie hefur mjög gott hérna og er ánægður með alla athyglina sem hann fær frá okkur, staffinu og öllum gestunum. Jæja essgunar, verð að hlaupa, mikið að gera. Megi nýja árið færi ykkur meiri hamingju en 2009.

Thursday, December 10, 2009

Jólagjöfin okkar í ár

Við Bói gefum hvor öðrum ekki jólagjafir. Jólagjöfin okkar er að bjóða yngstu bekkjunum úr grunnskólanum í sund hjá okkur, pylsur, gos og ís. Það komu um það bil 130 börn í ár með börnum starfsfólksins okkar í tveimur hollum. Þetta er svakalega mikil upplifun fyrir krakkana. Mörg af þeim koma frá afar fátækum fjölskyldum og eiga varla í sig né á. Jólin eru erfiður tími fyrir þau vegna þess að það er lítið um peninga og oft matur af skornum skammti. Þess vegna er þetta eitthvað sem þau hlakka mikið til að koma til okkar. Bói klæddi sig upp í jólasveinabúning og sagði þeim sögur af íslensku jólasveinunum. Eigum eina bók á ensku sem heitir yulelads og þetta er vinsælasta bókin okkar. Krakkarnir eru heillaðir af myndunum og sögunum af Grýlu, Leppalúða, jólakettinum og jólasveinunum. Þetta var mjög gaman og falleg jólagjöf.

Við vorum svo með „þrif“ dag um daginn þar sem allt starfsfólkið fór í garða og málningar vinnu. Það var afkastað alveg ótrúlega miklu þennan dag og við enduðum svo á „braai“ (grilli). Allt starfsfólkið elskar þennan dag vegna þess að við erum að gera eitthvað allt annað en við gerum vanalega og svo endum við á að fá okkur bjór og skemmtum okkur vel.

Starfsmannamálin...... Ja, við erum búnir að vera án þvottakonu núna í nokkrar vikur, enda bara hvarf hún án þess að láta heyra í sér. Hún kom nú um daginn og lét okkur vita að hún væri alvarlega þunglynd og væri komin á lyf. Hún sagðist ekki vera hætt, en vildi bara ekki að allt starfsfólkið sæi hvað henni liði illa. Jæja, við erum komnir loksins með aðra þvottakonu þangað til Petro D kemur aftur. Vonum svo sannarlega að hún komi aftur vegna þess að hún er alger gullmoli. Viðgerðarmaðurinn var frá í rúmar tvær vikur. Hafði dottið í það og dottið og brotið rifbein. Blessaður kallinn, áfengi fer soldið illa með hann. Hann er yfirleitt orðinn blindfullur eftir bara einn bjór og það tekur hann langan tíma að ná því úr kerfinu. Það hefur nú komið þó nokkuð oft fyrir að hann mæti ekki vegna þess að hann sé fullur. Við höfum nú bara sætt okkur við það vegna þess að hann er svo hörkuduglegur þegar hann mætir. Það er að segja ef hann er ekki fullur þegar hann mætir. Þá sendum við hann heim. Hilca-Ann fékk að gista hér í einu hótelherberginu fyrir nokkru síðan. Tilgangurinn var að hún ætlaði að láta afmeyja sig. Merkilegt hvað hún getur verið opinská, sérstaklega við Bóa. Jæja það tókst nú heldur betur, enda er hún núna orðin ólétt. Hún er með góðan kærasta og mamma hennar (Louna) er í skýjunum, þannig að þetta er hið besta mál

Sunday, November 22, 2009

Langir dagar og góðir gestir

Hér hefur verið ansi mikið álag á okkur. Þvottakonan hefur ekki mætt í vinnu í nokkra daga og skapað auka álag á okkur, eins og það sé nú ekki óg fyrir. Hér þarf maður að ganga í öll störf, við erum eldabuskur, herbergisþernur, barþjónn, þvottakonur, uppvaskarar, garðyrkumenn, viðgerðarmenn o.s.frv. til viðbótar við okkur venjulegu störf. Erum eiginlega orðnir svolítið langþreyttir. Vonandi fer þetta nú að ganga betur þannig að við getum verið fullmannaðir af starfsfólki. Lokum líklega bara alveg á þriðjudaginn, til þess að ná að hlaða batteríin aftur.




Annars höfum við verið nokkuð duglegir að sósilera þrátt fyrir annríkið. Fórum í vikunni út að borða í hádegismat með Jenny og Brian. Mjög gaman eins og alltaf með þeim. Við fórum að veitingastað sem er tiltölulega nýr hérna og sem við höfum aldrei farið á og mikið assgoti var maturinn vondur. Eiginlega bara óætur. Vorum í mesta basli með að éta eitthvað af honum. Við höfum það fyrir reglu að kvarta aldrei á öðrum veitingarstöðum í bænum. Hælum matinn alltaf í hástert, sem var ansi erfitt. Afsökuðum okkur með að við hefður fengið stóran morgunverð og hefðum þess vegna ekki mikla matarlyst og báðum svo um „doggie bag“.

Hingað komu góðir gestir seinasta laugardag. Það voru landsmennir, þau Geir Gunnlaugson og Jónina kona hans. Það hafði verið mælt með okkur af fólki í Cape Town sem kemur hingað nokkuð reglulega. Geir og Jónina eru í fríi hér og enda svo bæði á einhverjum ráðstefnum hérna. Eru bæði prófessorar í háskólanum. Mjög skemmtilegt fólk. Við fórum til Doru (í fátæktarhverfinu hérna) í hádegismat í gær. Alltaf gaman að koma til Doru og það er mikil upplifum að koma til hennar. Hún sest alltaf með okkur og fær sér í glas með okkur og svo segir hún frá lífinu í hverfinu og sögur af fólkinu sínu.

Thursday, November 12, 2009

Hér er allt við það sama.

Við erum rétt að ná okkur eftir áfallið vegna innbrotsins sem kom mjög illa við peninga punginn okkar í miðri kreppu. Vorum með fund um daginn með starfsfólkinu þar sem við tilkynntum frekari niðurskurð. Nú eru þau nánast einungis að vinna um helgar. Við lögðum jafnframt til að þau skyldu fara að svipast um eftir annari vinnu. Við myndum skilja það ef þau fengu meiri vinnu annars staðar. Þau virtust taka þessu vel og mið skilning, en þetta er mikið áfall fyrir þau og fjölskyldu þeirra. Nú eru það einungis ég og Guðmundur sem höldum veitingstaðnum opnum með okkar eigin matseðli, sem er bara það sem okkur dettur í hug þá og þegar með það samt í huga að nýta allar birgðir okkar af mat. Er þreyttur núna, Vorum báðir bundinn í eldhúsinu meginhlutan í gær við undirbúning. Fékk smá pásu og svo var ég fastur við eldavélina frá 6 til 11 um kvöldið. Mikið að gera og það var á mörkunum að við hefðum það. Vinsælasti rétturinn á þessum kvöldum hefur verið íslenskar kjötbollur. Er búinn að ná að gera mjög gott kjötfars og það leggst mjög vel í fólkið hér. Það kláraðist eiginlega allt nema kjötbollurnar. Þurfti að sjóða meiri kartöflur fyrir seinasta borðið, lambið kláraðist, steikurnar kláruðust, Grænmetið kláraðist, þetta var semsagt allt mjög tæpt en gekk samt mjög vel. Allir í skýjunum yfir matnum, en djísus hvað maður er búinn eftir svona kvöld. Þetta bætist nefnilega ofan á allt annað sem maður þarf að gera hérna. Er samt ekki að kvarta, veitir ekki af hverri krónu sem kemur í kassann. Ætla að leggja til við Guðmund að við lokum í kvöld og förum út að borða. Veit ekki hvað það er langt síðan við höfum farið út að borða. Sjáum til. Nú þetta bréf er nú eiginlega orðið einskonar blogg. Kannski ég byrji aftur með bloggið

Sunday, April 19, 2009

Jæja, ætli það sé ekki kominn tími á að blogga

Vorum með tónleika í gær, Daniéle Pascal sem syngur a´la “Edit Piaff” lög. Hún er mjög þekkt í Suður Afríku og víðar. Voru hreint frábærir tónleikar. Izak viðgerðarmaðurinn mætti ekki enn eina ferðina, þannig að ég þurfti að bera stóla, borð og sólhlífar út í garð. Var algerlega úrvinda eftir allan þennan burð. Garðyrkju maðurinn labbaði út í seinustu viku og þvottakonan sagði upp líka. Við erum semsagt komnir niður í 10 starfsmenn sem við ætlum bara að láta duga. Bói kemur til með að sjá um þvottahúsið með aðstoð frá eldhússtaffinu og hann við komum báðir til með að sjá um garðinn með aðstoð frá Izak, það er að segja þegar hann er ekki fullur heima. Hann mætti reyndar fullur um daginn. Var sendur heim með viðvörun. Vil helst ekki missa hann vegna þess að þegar hann er edrú og mætir er hann frábær starfsmaður.

Anna (verkstjórinn) og Maríus (Bílstjórinn) voru bæði handtekin um daginn fyrir að rækta hass í garðinum hjá sér. Þurftu að dúsa í fangelsi tvær nætur um helgi þegar mikið var að gera hjá okkur. Bói gerði allt sem hægt var til að leysa hana út. Fékk meira að segja lækninn hérna til að skrifa vottorð, en allt kom fyrir ekki. Þegar hann fór svo að ná í hana, hittir hann Tracy (nágranni sem kemur oft hingað), en þá var verið að leysa hana úr haldi. Hún hafðir verið handtekin fyrir óeirðir. Hún býr við hliðina á “ríkinu” og á laugradögum er mikið af fólki að drekka fyrir utan ríkið með hávaða, drykkjulæti og mýgur svo í garðin hjá henni. Hún fór greinilega yfir strikið þar og var handtekin. Virðuleg kona með stórt byggingarfyrirtæki hér í bæ. Ja hérna, hefur löggan ekkert betra að gera hérna en að handtaka virðulegt fólk?

Hér labbaði inn enn einn íslendingurinn um daginn. Sigurlín, jógakennari í Hafnafirði. Hún er hér í löngu fríi með vinum sínum sem búa í Cape Town. Alltaf gaman að hitta landa. Við erum búnir að vera ansi duglegir að hitta SOS (Spontainious Organizing Socializing) klúbbinn sem er líka hluti af CRAFT (Can’t remember a fucking thing), sem eru Jenny, Brian, Marise og Neil ásamt nokkrum öðrum sem mæta þegar þau muna. Við sendum nú bara yfirleitt SMS og boðum til SOS fundar með stuttum fyrirvara, enda vitum við aldrei hvenær við getum tekið okkur smá frí til að sinna félagslífinu. Svo bara hittumst sem komumst einhverstaðar í mat eða drykki. Seinast bauð Bói öllum í mat hjá Jenny. Hún var með alltof mikinn mat í ískápnum sem hún þurfti að losna við. Svo var bara grillað og haft gaman.

Flottar myndir sem þú sendir Maggi. Sérstaklega bumbu myndirnar. Erum allir orðnir vel miðaldra og til hamingju strákar með hálfa áratuginn. Ég ætla ekki að halda upp á það. Förum í staðinn í burtu í smá frí. Ætlum upp til DeRust að heimsækja hana Volgu okkar. Hún hefur nú ekki haft það sérlega gott. Það réðst hundur á hana og beit hana ansi illa í handlegginn og hún var á spítala í nokkra daga. Svo datt hún og kjálkabraut sig og þurfti aftur að leggjast inn á spítala. Nokkrum dögum eftir að hún kom út datt hún aftur og tábrotnaði. Allt er það þegar þrennt er. Vonandi verður nú friður hjá henni fyrir fleiri áföllum.

Wednesday, February 11, 2009

Draumur og góð heimsókn

Mig dreymdi að Jón Ásgeir kæmi hér og vantaði smá stuðning og skjól. Sem er jú alltaf sjálfsagt hjá okkur ef við getum. Ég sagði honum að hann þyrfti að gera svo vel að klippa sig. Gæti ekki verið hérna með þennan lubba og svo þyrfti hann að leggja sitt af mörkum, þ.e. þjóna, vera á barnum, en fyrst og fremst að koma vel fyrir og vera þægilegur við gestina. Enga stæla sem var svosem ekkert mál fyrir hann. Við höfum jú svo oft í gegnum tíðina hýst vini sem hafa verið á tímamótum í lífinu og þurft smá stuðning.

Um daginn komu hér tveir drengir (á besta aldri) sem höfðu séð íslenska fánan blakta við hún hér fyrir frman hótelið. Það voru þeir bræður Gulli og Daníel Thorarensenir, frá Selfossi. Daníel var að heimsækja Gulla bróir sinn sem býr í Hout Bay (Cape Town). Þeir voru að skoða hér gistiheimili sem er til sölu og höfðu áhuga á að kaupa það. Þeir voru hér í tvo daga og við skemmtum okkur konunglega saman. Jenny kom í heimsókn daginn sem þeir fóru. Hún var bara að koma til að staðfesta bókun sem hún hafði gert á veitingastaðnum okkar seinna um kvöldið. Þetta var afmælisdagur hennar og hún hafði boðið nokkrum vinum hingað í kvöldverð. Við fengum okkur að sjálfsögðu “Jenny poo” (G & T). Einn eftir annan. Um hálf sex leitið sló Bói í borðið og sagði Jenny sem var orðin vel tipsý að nú þyrfti hún að fara að koma sér heim og reyna að fríska sig upp fyrir kvöldið svo hún yrði nú ekki alveg á perunni þegar gestirnir hennar myndu mæta klukkustundu seinna. Systir hennar, Pamela var ekki par hrifin, enda hafði Jenný bara ætlað að skjótast í apótekið og staðfesta bókunina. Hún lætur stundum eins og hún sé mamma hennar og að Jenný sé óþekkur unglingur (sem hún reyndar er þrátt fyrir að vera 64 ára). Jennýy mætti svo klukkustundu seinna og tók á móti gestum sínum og það sá varla á henni að hún hafði setið að sumbli með okkur og Selfyssingunum í rúma 5 klst. Þeir lögðu ekki af stað fyrr en rétt fyrir sjö. Alltaf hressandi að fá landa í heimsókn, sérstaklega eins skemmtilega og þessa bræður.

Sunday, January 18, 2009

Bóa Blogg

Jæja kæru vinir og vandamenn ;

Gleðilega árið og allt það. Ætla að reyna að pota e-m fréttum af okkur halanegrum en gæti verið að endurtaka e-ð sem Villi eru orðin í órafjarlægð sem og allt sem þeim fylgir. Hér datt allt í dúnalogn föstudag fyrir viku, í raun eins slökkt væri á takka...ekkert borð á ressanum og við vorum komnir heim fyrir níu. Alveg ótrúlegt hvað við manneskjurnar erum mikil hópdýr. Áramót hafa alltaf borið með sér mannabreytingar hér og voru þessi engin undantekning. Þvottahúskonan er hætt eftir að hafa unnið hér síðan áður en við tókum við ( sagði henni upp...alltof löt og kjaftstór). Konustrákurinn sem vann hér sem þjónn var líka látinn fara. Höldum að hann hafi verið á “tikki”, sem er sniff eiturlyf en mjög skaðlegt fyrir heilann. Að lokum hætti svo einn kokkanna ( Ruwayda ) sem er mikil synd bæði fyrir okkur og hana. Hún er glæsileg stúlka og hefði átt bjarta framtíð fyrir sér... en hún gerðist Rastafarían ( Bob Marley Jamaica) og gat ekki lengur smakkað á matnum og virtist að öðruleiti vera heilaþveginn af vitleysunni – já, það eru öfgar hjá fleirum en Gunnari í Krossinum og vini okkar honum Ósama !

Sumarið hefur verið frekar óvenjulegt veðurfarslega ( gott fyrir minn smekk ) því það hefur ringt meir en venja er á þessum árstíma og ekki verið mjög margir 40 stiga dagar, það getur þó breytst, því febrúar er að venju heitasti mánuður ársins. Fórum í Jennípú í dag , en það er alltaf yndislegt. Tókum með okkur nýbakaðar kleinur ( Ég bakaði ) og þar eð ég er eins og stendur á “línunni” eins og Sossa vinkona kallar það sötraði ég heilsute en Villi og Jenný náðu að standa undir “ Pú “ nafninu með því að sötra á sínu venjubundna hvítvíni.

Nú er Laugardagskvöld og bara 3 borð á ressanum. Er búinn að marinera í sterku sinnepi 2 steikur fyrir okkur og reikna með að geta borðað heima upp úr 9 sem bara gerist ALDREI á laugardagskvöldi. Það er ekkert að gerst í sölumálum, ekki einu sinni spurst fyrir, þannig að maður innstillir sig bara á að vera hér næstu áramót líka, enda er svo sem ekkert langt í þau.... Jæja , finnst þetta bara vera orðið dágott af tölvuhöltum bloggara að vera. Vona að allir heima haldi (geð) heilsu í erfiðleikunum og munið að kúkahúmor reddar mörgu. Verið bjartsýn, Landinn hefur alltaf risið upp aftur og bara munið að bojkotta ALLT sem á stendur “ meid in Íngland “. Niður með helvítið hann Brán , Jón Ásgeir og þotuliðið. Lifið í Lukku en ekki í sultukrukku.

Monday, January 05, 2009

Cape Cobra drama

Hér er búið að vera ansi mikið að gera. Mörg sein kvöld og orkan frkar lág hjá okkur báðum. Ákváðum að fá okkur smá frí og fara í hádegismat til Jenny. Við sátum þar í tvo tíma og þegar Jenny vara að fara að bera matinn loksins fram eftir ég veit ekki hversu marga drykki, ákvað ég að hringja og tékka á stöðunni á hótelinu. Carmen svaraði og var í uppnámi og sagði að löggan væri þar og það væri risa stór slanga í garðinum. Ég náttúrulega dreif mig á hótelið og það var allt í uppnámi. Fullt af bílum fyrir utan, löggan og tvær kellingar að hlaupa í burtu. Héldu að einhverjir hefði verið teknir í gíslingu, enda löggan með riffla. Allir að leita að slöngunni. Lucky hafði fundið hana fyrst þar sem hún var uppi á einu borðinu í garðinum með höfuðið uppi og hvæsandi á hundinn sem gellti á móti. Ungur drengur sem gisti hérna tók eftir þessu og lét Carmen vita sem hringdi strax á lögguna. Slangan sem var Cape Cobra og ein af hættulegri slöngum hérna, fór á miklum hraða úr einu tré í annað og endaði uppi á þakinu á herbergi 6. Jacky (ómögulegur þjónn sem ég rak svo örlítið seinna, meira um það hér á eftir) sá slönguna uppi á þakinu stóð og starði á hana án þess að láta neinn vita fyrr en ég spurði hann hvað hann væri eiginlega að gera. Þá benti hann mér á slönguna. Ég náði í stiga og upp klifruðu löggunar með rifflana. Þeir voru með rifflana í viðbragðstöðu eins og bestu glæpamynd. Náðu loksins færi og skutu, en hittu ekki í fyrstu umferð en náðu skoti í höfuðið á henni í öðru skoti. Hentu dauðu slöngunni niður á bílastæði sem var fullt af fólki og bílum (eins og á hallærisplani þegar ég var unglingur) Slangan sem var rúmur meter á lengd var ennþá að hreyfa sig. Eftir að ég var búin að hjálpa löggunum að koma niður af þakinu mundi ég allt í einu eftir því að það voru gestir í herbergi 6 og rauk til Carmen og spurði hana um gestina. Datt í hug að byssukúlan hefði farið í gegnum þakið og e.t.v drepið þau. Sem betur fer höfðu gestirnir farið í göngutúr. Konurnar tvær sem hlupu í burtu komu seinna að spyrja hvað hefði eiginlega verið í gangi og ég veit ekki hvað mikið af fólki kom að spyrja. Einn af gestunum spurði hvort það yrði einhver “special dinner” um kvöldið...... Þvílíkt drama.

Þegar allt róaðist, tók ég Jacky á tal. Hann er stelpustrákur og er búinn að vera að vinna hjá okkur sem þjónn í u.þ.b 5 vikur. Verið gersamlega ómögulegur allan tíman. Gefur ekki augnsamband, hvorki við gesti né okkur og brosir aldrei. Hann mætti einn dagin með varalit og naglalakkaður. Við báðum hann um að gjöra svo vel að þrífa varalitinn af sér. Persónulega var okkur sama, en það gæti truflað gesti. Honum var svo gefið aceton til að þrífa af sér naglalakkið og fyrirskipað að geyma það hérna. Ég alla vega þakkið honum fyrir tíman sem hann hefði unnið hérna, starfsfólkið okkar líkaði mjög vel við hann og okkur líka, en hann yrði seint góður þjónn, því miður, þetta væri orðið gott og óskaði honum alls hins besta. Fór svo aftur til Jennýar......

Wednesday, December 24, 2008

Gleðileg jól

Hér er búið að vera ansi mikið að gera og verður mjög annríkt núna yfir hátíðarnar. Hér er þetta nefnilega ekki eins og heima. Hér fer fólk mikið út að borða og skemmta sér um jólin. 25 Desember er aðaldagurinn, Mjög margir fara út að borða í hádeginu með fjölskyldu og vinum. Við erum alltaf fullbókaðir þá. Louna er búin að vera í rúma viku að undirbúa matinn. Sérstaklega eftirréttina, mjög áríðandi að það séu hefðbundnir eftirréttir svos sem Mince pies, Christmas pudding, Truffle, brandy pudding svo eitthvað sé nefnt. Svo er náttúrlega fylltur kalkúnn og hamborgarahryggur í aðalrétti.

Jólagjöfin okkar til hvor annars í ár var að bjóða yngstu bekkjunum í skólanum að koma og leika sér í sundlauginn og fá svo pylsur, kók og ís. Bói fór í jólasveina búninginn og talaði við krakkan um tilgang jólanna og las sögur af íslensku jólasveinunum. Þarna voru margir krakkar sem voru með Gabríel í leikskóla þegar hann var hérna og einn af kennaranum mundi eftir honum og bað fyrir kveðju til hans. Kennarinn sagði að þetta skipti ótrúlega miklu máli fyrir börnin vegna þess að hátíðarna væru oft erfiður tími fyrir þau. Engir peningar til á heimilunum og lítill matur. Þess vegna hefðu verið miklar eftirvæntingar hjá þeim og ótrúlega gaman. Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. 2009 will be fine...

jólagjöfin okkar til hvor annars





Sunday, November 16, 2008

Flóð, enn eina ferðina

Við tæmdum sundlaugina eina ferðina enn á mánudaginn og ætluðum að fara að mála hana. Byrjaði að rigna á þriðjudaginn eins og helt væri úr fötu. Það hélt áfram á miðvikudaginn og þá fórum við að grafa skurði fyrir vatnið til að komast í burtu. Bjuggum til varnargarða líka til að fyrirbyggja að vatnið kæmist inn. Við vorum upp alla nóttina með Maríus og Riaan að reyna að koma í veg fyrir skemmdir. Var ekki gaman. Allt á floti og lekar útum allt. Við neyddumst til að loka veitingarstaðnum, nei flytja hann í Galleríið og það var fullur ressi og mikið að gera þótt að fólk kæmist varla inn vegna þess að það var Á fyrir framan hótelið. Hér voru meira en 40 manns í þorpinu sem þurftu að yfirgefa heimilin sín. Við fórum með mat og drykki til þeirra vegna þess að þau höfðu ekkert. Fjögurra manna fjölskyldu var bjargað með þyrlu. Maðurinn kom í dag að biðja um ölmusu og fékk mat hjá okkur sem ætti að duga þeim í 3-4 daga.

Við áttum að vera með stóran hóp hérna á föstudeginum í gistingu og mat, en þau aflýstu. Sem betur fer eiginlega vegna þess að það var allt á floti hérna og sum herbergin ekki í lagi eftir leka og rafmagnsvandamál. Er búið að koma öllu í lag svona að mestu leiti, en við erum uppgefnir. Sundlaugin er orðin full aftur, svo mikið rigndi.

Búið að vera alvarlegt ástand víða hérna um svæðið. Mikil flóð og miklar skemmdir. Vegir og brýr farnar og mörgum hefur verið bjargað með bátum og þyrlum. Hús hafa skolast í burtu og almennt svakalegt ástand.

Sólin kom fram á föstudaginn og það við fórum strax í að pumpa vatni útúr garðinum og að koma öllu í eðliegt horf. Búið að vera talsvert að gera alla helgina og ég held að ég fari núna bara heim að hvíla mig. Blessi ykkur öll.

Tuesday, October 07, 2008

Búið að vera ömurlegir tímar hérna.

Allt gengið á afturfótunum. Byrjaði með því að Louna varð lasin, fékk bronkítis og þurfti að vera frá vinnu í næstum því viku. Endilega þurfti þetta að gerast meðan Ruwayda (hinn kokkurinn) var í sumarfríi. Ég þurfti náttúrlega að fara í eldhúsið og aðstoða. Gekk reyndar ágætlega með stelpunum í eldhúsinu og við rúlluðum þessu upp. Land roverinn gaf upp öndina og viðgerðarmaðurinn hérna í Greyton eyddi næstum því mánuði íí að reyna að finna út hvað væri að honum. Gafst upp á endanum og við þurftum að láta draga hann til Somerset West þar sem hann er búinn sð vera í rúmar þrjár vikur. Þurfti að taka upp vélina og endurbyggja hana (hvað sem það nú þýðir) fyrir utan hvað þetta er dýrt og máttum ekki við auka útgjöldum enda hefur þessi vetur verið okkur mjög erfiður. Já það er kreppa hérna líka og það þýðir að fólk er að spara og sparar fyrst á því að fara út að borða og að gista á hótelum.

Vorum að fá eftirfarandi bréf rétt í þessu. Hef ekki hugmynd um hver þetta er, enda höfum við staðið í skilum við alla okkar birgja:
Hi guys,
Having heard of the economy in Iceland , I take it that you have been asked to repatriate SA investments ( serves you right for selecting the UK HIGH Street for your investments)
How can our best customer owe us some money, (no big deal but at the moment our office desperately need all payments on time) we are hanging on by the skin of our teeth.
Your urgent help is requested.
In anticipation of your understanding and kind response.
Thanks Cecil.
Já íslenska bankakreppan er að teygja arma sína hinga til Afríku......


BMW’inn bilaði á sama tíma. Rafmagnið í sætunum gaf sig og það var ekki hægt að fá bakið upp nema öðru megin. Ég þurfti að keyra þannig til Somerset West til að láta laga þetta. Hefði kostað hvítuna úr augunum að gera við þetta, en þeir gátu komið bakinu upp í eðlilega stöðu og tekið svo allar þessar rafmagnstillingar úr sambandi, þannig að BMW’nn er nú búinn að vera til friðs síðan.

Svo var það nýji þjóninn, hann Lucin. Ungur maður sem hafði enga reynslu en kom mjög vel fyrir og var fljótur að læra. Svo kom hann einn daginn of seint í vinnu í annarlegu ástandi. Var á einhverjum andskk dópi. Hann fékk alvarlega viðvörun. Fullyrti reyndar að þetta hefðu bara verið restar úr partýinu sem hann hafði verið í kvöldið áður. Veit ekki meir. Hann alla vegna tók sig á og stóð sig ágætlega, fyrir utan að koma full oft seint til vinnu. Endaði svo með því að hann bara hvarf alveg. Fór til Cape Town og hefur ekki sést síðan. Við erum búnir að vera að keyra þetta með einungis þrem þjónum þangað til í kvöld. Búið að vera skólafrí seinustu tvær vikur og brjálað að gera. Fatta eiginlega ekki hvernig við gátum þetta með einungis þrem þjónum og okkur, en það gekk allt saman vel. Núna eru skólarnir byrjaðir aftur og eins og alltaf dettur allt niður og sama eg ekkert að gera, Vorum með hótelið tómt seinustu helgi. Þetta gerist reyndar alltaf þegar skólarnir byrja aftur eftir frí og verður mjög rólegt í svona tvær vikur og svo byrjar það að pikka upp.

Svo var það hún Ruwayda sem er orðin svo mikill “rastafari” og grænmetisæta að hún getur ekki lengur smakkað á sósunum sem eru með einhverjum kjötkrafti í. Hún sagði upp, sagðist ekki geta unnið svona. Eftir nokkur samtöl við Bóa dró hún uppsögnina tilbaka. Bói sagði henni að hún væri að henda mjög góðum starfsframa, enda væri hún mjög góður kokkur og ætti eftir að verða frábær kokkur ef hún héldi áfram á þessari braut. Ég segi nú bara hjúkkit.

Veðrið er búið að vera ömurlegt líka seinustu tvo mánuði. Við byrjuðum að gera við sundlaugina fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum, en höfum ekkert komist áfram með það sökum veðurs, of miklar rigningar og steypan nær aldrei að þorna. Lítur nú reyndar betur út með veðrið framundan. Svo hafa tæki verið að gefa sig í eldhúsin vegna þess hve rafmagnið er óstöðugt og endarlausar skammtanir. Það er þó ekki það versta, það versta er þegar spennan dettur niður og þá fara tækin okkar í klessu.

Svo er einn skolptankurinn búinn að vera stíflaður og það flæðir upp úr honum tvisvar í viku ef hann er ekki tæmdur þeim mun oftar. Já, við búum í sveitinni og það er ekkert skolpkerfi hérna. Hér þurfa allir að hafa tanka og láta tæma þá reglulega. Var verið að grafa upp við tankinn í dag og þá kom í ljós annar tankur sem við höfðum ekki hugmynd um að væri þarna. Vonandi er þetta bara einhver stífla og ekki of mikil útgjöld, búinn að fá nóg af þeim.

Nágranni frá helvíti hefur verið handtekinn og er í gæsluvarðhaldi þangað til dómurinn verði tekinn fyrir. Bíðum eftir að verða kvaddir fyrir dóm aftur í sjötta skipti. Ekki gaman. Kellingin hans er flutt inn hérna við hliðina með nýjan kærasta sem er nú ekki mikið skárri. Hann kom hérna í gær og sagðist vera að sækja skápa sem hún hafði gefið okkur. Kjaftæði, þau létu okkur fá tvo skápa upp í greiðlu fyrir gistingu og mat og aðallega bús. Ég svaraði honum, vísaði honum bara á dyr og sagði honum að hann væri ekki velkomin hér aftur. Hann fór með þvílíkum fúkkayrðum og hótunum að okkur stóð nú ekki á sama. Vona bara að þetta sé ekki upphafið að nýju drama. Já svona er þetta nú búið að vera leiðinlegt og alveg tekið mig úr stuði að blogga.

Jæja, best að snúa sér nú að einhverju jákvæðu. Við höfum verið með fullt af góðum uppákomum. Erum búnir að hafa nokkra tónleika í leikhúsinu okkar. Tónlistamenn úr bænum hafa troðið upp með hippakvöld tvisvar þar sem allir mættu í hippafötum. Voru mjög vel sóttir og mikið fjör. Svo vorum aðrir tónlistamenn með klassiska gítar sem voru með tónleika fyrir fullu húsi. Blues tónleikar næstu helgi og svo er “Rose Fair” að koma upp í lok mánaðarins þar sem við verðum með tvo tónleika. Opnum hátíðina með raggie tónleikum og svo endum við hátíðina á sunnudeginum með tónleikum Steve Newman og Jane Gaisford (vel þekkt í Suður Afríku).

Opnuðum nýja málverkasýningu seinustu helgi með Ken Law sem eftirlaunaþegi hérna og málar í frístundum. Var vel sótt og hann seldi alla vega þrjár myndir sem er ágætt. Svo verðum við með opnum á nýrri ljósmyndasýningu eftir Tertius Meintjes sem er mjög frægur leikari og rithöfundur sem hefur nú skapað sér nýja frama með ljósmyndum. Meiri upplýsiongar á www.tertius-gallery.com Já það er allt að gerast.

Ríkissjónvarpið (SABC2) var hérna á fimmtudaginn og tók upp tónleika í leikhúsinu okkar. Fáum væntanlega góða umfjöllun þar. Svo var útvarpið að taka viðtal við Louna á laugardaginn sem verður úrvarpað viku fyrir rósa hátíðina. Ríkisjónvarpið kemur svo til með að fjalla um Greyton næstu þrjár vikur fyrir hátíðina. Gott mál, veitir ekki af meiri umfjöllun um Greyton.

Tuesday, August 19, 2008

Viðtal við Louna

Eftirfarandi viðtal birtist í bæjarblaðinu hérna:

Helena (Louna) Kroukamp, the head chef at Greyton Lodge has been working there for 25 years odd years serving locals and guests alike. To celebrate this occasion and her 50th birthday, the Lodge decided to take her on a memorable two-week trip to Iceland.

Louna began working at the Lodge 1984 when the owner, Leonard Glass, transformed what was then the old police station into a hotel. Having worked in Cape Town for four years, this was quite a departure for Louna, as she learned new skills and different country’s cuisines. She quickly became competent at vegetarian, Halaal and Mediterranean cooking.

The trip was Louna’s first abroad and her first plane trip. They stopped off in London for a fleeting visit but managed to squeeze in a sight-seeing trip to Buckingham Palace, the horse guards, and a bit of shopping in Oxford Street.

There was lots to see and old friends to visit in Iceland, as many of Boi and Villi’s friends and family had stayed at the Lodge over the years.

Louna says the highlight of her visit was a trip to the famous “Geysir” (all geysers in the world are named after this one) the geyser where hot water erupts out of the ground at regular intervals. She also met Iceland’s former president, Vigdis Finnbogadottir, who was the first female president elected in the world, (seen with Louna and Villi above) and had a memorable meal at “Humarhusid”, a well-known lobster restaurant.

Louna was interviewed by the Icelandic Broadcasting TV while cooking in the borrowed kitchen of one of Reykjavik’s finest restaurants. She was also interviewed by Gestgjafinn, the Icelandic ‘Eat Out’ magazine.

Asked what food she enjoyed, Louna mentioned in particular the many varieties of fish, cooked in different styles. On her last evening in Iceland the family and friends threw a party for her and Louna did most of the cooking in thanks to Villi and friends for their kind hospitality.

Monday, August 18, 2008

Myndir úr kveðjuveislunni

Ása systir er búin að setja myndir úr kveðjuveislunni okkar á netið. Endilega skoðið þær:
http://picasaweb.google.com/asahildur/27JL2008

Monday, August 11, 2008

Nágrannar frá helvíti

Fórum í vikunni til Caledon í dómstólinn, í fjórða skipti útaf nágrönnum frá helvíti. Já, það er ekki enn búið að dæma hann. Núna mætti hann loksins. Við biðum í drullukulda úti í porti tvo og hálfan tíma áður en við vorum kallaðir inn bara til að heyra að þessu sé frestað eina ferðina enn. Það virðist sem það sé búið að safna nokkrum málum saman á hann, vegna þess að það var fjöldinn allur af fólki þarna í vitnaleiðslu yfir honum. Biðin úti ekki þægileg vegna þess að þetta er lítið port og það var ekki þægilegt að sitja nálægt honum. Han var með eitthvað steratröll með sér sem var með tattóveraðan skalla. Steratröllið starði á okkur og elti okkur þegar við fórum út fyrir í smók. Bóa leist ekki á blikuna og var búinn að ímynda sér allt mögulegt eins og að væri búið að skera á dekkin á bílnum okkar, þeir myndu elta okkur þegar við keyrðum heim og þvinga okkur útaf veginum, kveikja í hótelinu og ég veit ekki hvað. Mér leist nú ekkert heldur á blikuna en reyndi bara að vera rólegur og láta þetta steratröll ekki hafa nein áhrif á mig. Svo náttúrulega gerðist ekki neitt. Þetta er samt áhyggjuefni vegna hótananna sem hann hafði við mig fyrir tveim árum síðan, sagðist hafa sambönd í undirheimunum og hann myndi sjá til þess að það yrði gengið frá okkur o.s.frv.

Hér er farið að hlýna og vorið er að skella á. Bói réð nýja garðyrkjumann sem byrjaði á föstudaginn. Hann kemur bara til með að vinna 2 daga, þannig að eitthvað komum við til með að þurfa að vinna í garðinum sem er bara fínt. Fyrsta skrefið til að rjúfa félagslega einangrun okkar var stigið í vikunni. Buðum Jenný og Lindu í mat. Vorum með baunasúpu og vöfflur. Bara einfaldan heimalagaðan mat. Þetta var mjög notalegt. Höfum ekki hitt Lindu í langan tíma, enda sagðist hún vera í svipuðum málum og við. Búin að vera mjög antisósjal allt seinasta ár eins og við, en væri núna að rjúfa þessa félagslegu einangrun sína. Þatta var mjög notarlegt kvöld hjá okkur og við ætlum að gera þetta alla vegna einu sinni í viku. Það er fullt af fólki hérna sem við höfum bara gott af að umgangast aðeins meira.

Thursday, July 31, 2008

Erum lent

Mikið var þetta nú æðisleg ferð heim. Louna er í skýjunum ennþá og ég er ekki viss hvort hún sé lent alveg. Hún bauð okkur í heimkomu partý til sín í gærkvöldi. Þar fengu allir gjafir og ég er viss um að allt þorpið hennar er komið með smink og varaliti til næsta áratugar. Hún gekk um með bala þar sem allir gátu fengið sér eitthvað smink. Takk elsku Anna fyrir að hafa reddað henni þessu og skilaðu þakklæti til heildsölunnar. Verð nú eiginlega að þakka Ásu systir sérstaklega fyrir hvað þú varst dugleg að fara með hana útum allt, Önnu Þ fyrir að hafa reddað öllu sminkinu og bjóða henni heim að elda sem birtist vonandi í Gestgjafanum, Önnu K fyrir að koma henni í sjónvarpið (tölum ekki meia um það), Dóru fyrir að redda hárinu á henni, Eddu Gardine fyrir að bjóða henni heim að snæða og í partý, Kalla kokk fyrir að bjóða okkur heim og fara með hana í göngutúr og síst en ekki minnst Kristalettunni fyrir gestrisni og höfingjaskap í öllu svo ég tali nú ekki um alla aðra sem buðu okkur heim og hittu okkur hér og þar. Og kærar þakkir allir sem gáfu henni gjafir og peninga. Nei nú verð ég að hætta, annars fer ég að gráta.

Nú er daglega lífið tekið við aftur. Veðrið er fínt, en náttúrlega ekki eins hlýtt og heima. Eyddi deginum í gær að taka til á barnum. Það var komið soldið rugl á hann en ekkert alvarlegt. Þau hafa staðið sig mjög vel hérna meðan ég var í burtu og sama sem ekkert uppsafnað sem beið mín.

Sunday, July 13, 2008

Símanúmerið mitt heima

Ég kem heim á þriðjudaginn rétt fyrir miðnætti. Verð með sama númer og seinast 894 2836. Sjáumst öll.......

Thursday, July 10, 2008

Ég er á leiðinni..........

Nú er heldur betur farið að styttast í að við Louna komum heim. Við leggjum af stað á mánudaginn og lendum seint á þriðjudagskvöldinu heima. Komum til með að eiga heilan dag í Londun sem við notum í útsýnisferð. Verðum eins og alvöru túristar og skoðum allt. Ekki að mig langi, en það verður mikil upplifun fyrir lounu sem hefur aldrei ferðast erlendis og ekki einu sinni á ævinni komið í flugvél. Hún er að springa af tilhlökkun og kvíða. Segist varla geta sofið. Bói er búinn að gera lista fyrir hana yfir hvað hún á að taka með sér svo hún sé nú ekki með 14 “outfit” með sér. Það eru til þvottavélar á klakanum!

Hér hefur gengið ágætlega að hafa lokað þrjú kvöld í viku. Höfum nú samt verið sveiganlegir og ef við höfum haft gesti hjá okkur, eða bara haft á tilfinningunni að það yrði eitthvað að gera þá höfum við opnað. Við fórum með allt staffið í smá ferðalag. Fórum til Oewerzicht sem er bara nokkra km fyrir utan Greyton. Áttum góða kvöldstund með grilli og svo gistum við nóttina. Mjög gaman, myndin hér að neðan var tekin þar. Þetta var óvænt uppákoma sem Bói og Petro D höfðu ákveðið. Það var bundið fyrir augun á henni og hún var klædd upp í íslenskan fatnað.

Við vorum með starfsmannasjóð sem við höfum borgað í og staffið kaus sér nefnd sem átti að skipuleggja eitthvað ferðalag. Gekk ágætlega þangað til núna. Sumir vildu bara fá greitt út og höfðu engan áhuga eða komust ekki einhverra hluta vegna. Nefndi endaði á að skipuleggja ferð í verslunarmiðstöð þar sem þau ætluðu að eyða deginum. Sumir ætluðu að fara að heimsækja fjölskyldu eða vini og þetta stefndi allt í að þetta væri ekkert sem þau myndu gera saman, heldur öll í sitt hvoru lagi. Það var aldrei tilgangurinn með þessum sjóði. Eftir miklar pælingar ákváðum við að leggja niður lýðræðið og koma á einræði. Þ.e.a.s við ákveðum héðan í frá hvað á að gera og hvert á að fara og borgum fyrir 2-3 ferðir á ári úr eigin vasa og sjóðurinn lagður niður. Það datt allt í dúnalogn og allir voru sáttir. Merkilegt! Það var svo mikið nöldur og vesen út af þessum sjóð og þau gátu aldrei verið sammála um hvað ætti að gera. Núna er þeim bara tilkynnt og ef eihverjir vilja ekki koma með eða komast ekki, þá er það bara þeirra mál.

Jæja essgunar, sé ykkur í næstu viku. Við komum til með að gista hjá Kristjáni (Humarhúsinu) þannig að þið getið ná í mig í gegnum hann. Ég set inn símanúmerið mitt seinna ef ég finn íslenska sim kortið okkar.

Louna er á leiðinni

Louna komin í íslenska lopapeysu og til í að koma heim með mér.

Sunday, June 01, 2008

nýjustu fréttir

Nýjustu fréttir í dag af okkur eru í Fréttablaðinu, bls 44. Hamingju óskir allir sjómenn. Gummi rauði og Anna Lilja eru núna í heimsókn hjá okkur. Sótti þau til Höfðaborgar í gær og þau verða hérna fram á fimmtudag. Fer með þau í hvalaskoðunarferð til Hermanus á morgun og svo í safarí á þriðjudaginn. Ekki að ég hafi svosem gaman af þessu safari dóti. Búinn að fara svo oft. Þetta er svona eins og íslendingar fara alltaf með útlendinga gullna hringinn, gvöð hvað ég var alla vegna búinn að fá nóg af honum.

Var búinn að bóka flug fyrir okkur Louna 11 júní, en þá kom í ljós að hún þarf visa og það tekur rúman hálfan mánuð að fá það þegar hún er búin að útvega öll gögn sem þarf, s.s. ættartré..... Djísus kræst hvað er eiginlega að þeim. Ekki þurftum við neitt þegar við komum hingað. Hefur eitthvað með þetta Schengen dæmi að gera. Reikna með að koma um miðjan Júlí í staðinn ef mér tekst að breyta flugmiðanum. Svakalegt að heyra um þessa jarðskjálfta. Eruð þið búin að jafna ykkur?