Saturday, February 11, 2006

Útvarp Greyton. Gott kvöld. Pollíanna les fréttirnar

Í frettum er þetta helst:

Ég er búin að vera hérna með Villa og við höfum það bara fínt. Sofum með rúllurnar og er svo bara sæt og fín þegar við vöknum með slöngulokka og det hele og svo bara brosum við og tökum verkefnum dagsins eins og þau koma. Mér finnst eiginlega bara ótrúlegt hvað þetta gengur vel þó svo að Villi sé á hlaupum meira og minna allan daginn. Það hafa eiginlega engin átök verið með staffið og það er greinilegt að þau eru mikið að passa upp á strákinn. Villi er búinn að vera að vinna í bókhaldinu á fullu og er núna búinn að klára bæði Desember og Januar ásamt VSK. Það var launadagur í gær þannig að hann sendi Wany til Caledon til að ná í peninga, Þetta er orðin ný rútína, Villi fer ekki neitt, en er duglegur að senda aðra. Hann er bara hérna á skrifstofunni, í garðinum eða í gestamóttöku bæði á hótelinu og ressanum. Svo þurfti að reikna út launin og passa upp á að allt væri rétt, svo eru taldir peningar ofan í umslögin eins og gert var á landinu góða fyrir áratugum síðan. Hér eru fáir með bankareikninga og eyða trúlega öllu jafnóðum, enda eru launin nú svo sem ekki há.

David Alder (Söngvari) er búinn að vera hérna eins og grár köttur. Hann þarf sinn tíma svo hann geti sagt frægðarsögur af sér og hvað hann sé nú klár. Við bara brosum og hlustum með þolinmæði og leggjum svo eitthvað lítið til málanna. Hann var eitthvað að tala um viðhald og einhver baðherbergi sem hann hafði gert þegar Villi missti útúr sér að það væru nú 15 baðherbergi hérna sem þyrfti að gera upp. Villi hafði nefnilega verið að skoða eitt herbergið og var ekki hrifinn af baðherberginu vegna þess að það bara ekki nógu gott, dúkurinn slitinn, flísar brotnar, vaskurinn sprunginn, ljótt silikonfix á klósettinu og fleira og fleira. Jæja, hann alla vegna réð David í vinnu til að taka þetta eina baðherbergi í gegn og svo sjáum við bara til. Marise er komin á fullt að finna nýjan vask, málningu og gólfefni svo hægt sé nú að gera þetta á hagkvæman en fallegan hátt.

Hér var ráðstefna sem gekk bara mjög vel. Allir voru í skýjunum. Voru reyndar ekki öll mjög ánægð eftir fyrstu nóttina vegna þess að það var ekkert heitt vatn og ekki hægt að fara í sturtu. Við Villi brostum bara og opnuðum önnur herbergi fyrir þau til þess að fara í sturtu. Því miður tókst ekki að laga þetta daginn eftir þannig að við þurftu að flytja nokkur herbergi á milli sem gekk bara vel, enda vorum við sæt og brostum útí eitt. Það voru mjög ánægðir ráðstefnu gestir sem kvöddu okkur í gær, og sögðust öll ætla að koma aftur við fyrsta tækifæri með maka sínum. Það væri svo fallegt hérna og andrúmsloftið og fegurðin hjá okkur ásamt matnum sem væri svo GÓÐUR! Þarf að skipta út tveimur vatnshiturum í húsinu sem verður ekki ódýrt, en það verður víst að hafa það. Getum ekki verið heita vatns laus.

Hér voru tónleikar að venju í gær og voru þeir vel sóttir. Lögreglan áætlaði að það hefðu verið u.þ.b. 70 gestir og var setið á öllum stólum. Við höfðum ákveðið að breyta svolítið uppröðun á borðunum og færa þau öll nær sviðinu og svo bæta við borðum á sviðið og við ákváðum svo sjálf að sitja á sviðinu við dyrnar og brosa sæt og fín og bjóða alla gesti velkomna. Okkur fannst frábært að vera þarna þó svo að maður væri ansi mikið í sviðsljósinu, en maður er það hvort eð er og þá hvers vegna ekki bara að sitja á sviðinu? Volga kom og sat með okkur. Hún hefur það ekki gott þessa dagana. Gæti stefnt í að salan á húsinu hennar gangi ekki eftir þrátt fyrir að það sé búið að greiða fyrstu greiðsluna. Eitthvað vesen útaf því hvort það séu business réttur á húsinu eða ekki.

Yvonne Nel kom hérna fyrr um daginn og afhenti Villa kort þar sem á stóð: Láttu þér batna sem allra fyrst og komdu heim til Greyton. Hún bað um að þetta kort yrði látið ganga á milli borða svo að sem flestir gætu skrifað á það. Kortið gekk á milli og er þétt skrifað á það góðar óskir um bata. Þetta er mikill stuðningur og við finnum mikið fyrir stuðning bæjarbúa sem spyrja um Bóa reglulega eða koma að bjóða stuðning sinn vegna Henríettu málsins.

Staffið hefur verið mjög duglegt að passa upp á Villa. Þau koma inn á skrifstofu á milli 12 og 1 og segja að það sé kominn matartími og hvað megi nú bjóða honum að snæða. Svo er hann minntur á milljón hluti sem þarf að gera og svo er passaðu upp á kvöld matinn líka og að hann fái sinn frið á milli 3-6 um eftirmiðdaginn þegar hann fer heim í bjútí svefninn sinn. Honum virðist líða mjög vel og vera í góðu jafnvægi. Hugsa að honum líði vel að vita af því að Bói sé heima og að það sé verið að vinna aktíft í því að stilla lyfjagjöfina hans þannig að hann þarf ekki að vera með miklar áhyggjur af honum.

Veðrið í Greyton er þægilegt í dag, en stefnir í heitan dag, líklega eitthvað yfir 30 stiga hita og það er heiðskírt og örlítil andvari sem nær varla að hreyfa fánana hér fyrir utan. Jagúar liðið er að koma á eftir. Eitthvað um 30 Japanskir blaðamenn. Þessar Jagúar uppákomur eru farnar að ganga svakalega vel. Við erum bara öll hérna eins og smurð vél og höfum eiginlega bara ekkert að gera meðan þau eru hérna, vegna þess hvað allt er vel skipulagt hérna og hvað það hefur verið mikill undirbúningur. Ég ætla að reyna að draga Villa með mér til Jennýar eða eitthvað um eftirmiðdaginn. Held hann hafi gott af því að hitta annað fólk, þó svo að hann staðhæfir brosandi með slöngulokkana sína að hann hafi það bara fínt og sé bara eiginlega ekkert einmana.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

halló gott að vita að þér líður vel villi minn en hver er þarna hjá þér sem skrifaði þetta var þetta Lovísa?? því sá eða sú sem skrifar þetta gleymdi að segja hver þetta var er bara forvitinn ;)
love and leave you ;) xxx kv jóhanna maggy

3:49 pm  

Post a Comment

<< Home