Saturday, April 15, 2006

Starfsmanna fréttir

Hér er búið að vera mjög mikið að gera. Erum fullbókaðirf og ressinn líka. Allt gengið mjög vel 7-9-13. Ég var í eldhúsinu í gærkvöldi til að tryggja að allt gengi vel, sem það og gerði. Enginn réttur tók meira en 20 mínútur sem er frábært og allt mjög gott. Ég yfirgaf elshúsið þegar það voru tvær pantanir eftir og seinasta pöntunin fór í steik. Diskarnir kaldir og maturinn ekki rétt eldaður. Týpískt, má ekki líta af þeim.

Erum fullbókaðir í dag líka bæði á hótelinu og ressanum. Gott fyrir budduna, en ekki eins gott fyrir heilsuna. Hér erum við búnir að vera að gera ýmislegt. Bói er búinn að vera á bakinu á öllu staffinu með pásur og aðhald. Þau voru farin að slaka all verulega á mörg þeirra og farin að taka langar pásur. Ami var farinn að hverfa og fannst bara alls ekki. Ami og Jacko eru búnir að vera að mála og mála og mála, skipta um gler og snikka pleisið upp. Þetta er farið að líta mun betur út, en það er langt í land ennþá, enda eru þetta 9 hús og það þarf að mála þau öll. Róm var ekki byggð á einum degi og þetta kemur til með að taka tíma.

Starfsmanna fréttir:
Hilka-Ann, sem var þjónn hjá okkur kom og hjálpaði okkur með brúðkaupið. Hún er í námi en kom heim í páskafrí. Svo er hún núna að passa börn hérna fyrir hótelgesti. Alltaf gott að hitta hana aftur, enda er hún traust eins og klettur, eins og mamma hennar, hún Loana. Loana er komin með kærasta og brosið er fast á henni og hún er nú ekki sú brosmildasta. Farin að fá það reglulega og allt stefnir í brúkaup held ég bara. Þetta er víst fyrsti kærastinn hennar sem hún átti eitthvað af börnunum sínum með. Þau eru tekin saman aftur og það er frábært.

Wany er alltaf við sama heygarðshornið, sleipur eins og áll. Það kom stefna á okkur um að draga af honum meðlag. Hann er búinn að vera að reyna að fela það fyrir öllum hérna að hann skuldi meðlag, en hann er svo vitlaus að það vita allir þetta. Hann fór með stelpunum til Caledon um daginn eftir vinnu á diskó. Hann laug að konunni sinni að hann væri að keyra okkur Bóa og Lovísu og þetta væri þess vegna vinnutengt. Hún tók eftir því þegar hann fékk launin sín að hann hafði ekki fengið greitt fyrir þessa ferð og var ekki ánægð. Tengdamamma hans, Roselin vinnur hérna annað slagið þegar mikið er að gera í eldhúsinu og hún hafði orð á þessu við staffið. Spurði þau hversvegna í ósköpunum hann hefði ekki fengið greitt fyrir þessa vinnu. Það var fátt um svör í eldhúsinu og enginn sagði henni neitt. Wany var kominn í algera flækju útaf þessu og átti erfitt með að svara neinu. Ég tók hann fyrir í eldhúsinu og sagði honum að tengdamamma hans hefði átt alvarlegt samtal við mig um þetta og vildi að hann fengi greitt fyrir þetta. Hann fór alveg í hnút og vildi ekki viðurkenna að hann hefði verið að ljúga. Ég sagði honum bara að svona lygar koma alltaf í bakið á manni. Hann er nú ekki einu sinni góður lygari.

Anna er hetjan okkar þessa dagana og eiginlega sú eina sem við treystum algerlega. Hún er nú mistæk samt og getur verið soldið skapstygg við hina þjónana, en hún sinnir alltaf sínu og krefst þess af hinum þjónunum líka og svo er hún 100% heiðarlega. Roslyn, sem var í uppvaskinu er byrjuð sem þjónn og virðist bara vera að standa sig mjög vel. Hún hefur enga reynslu, en virðist vera góð að læra og svo er hún bara svo falleg líka. Myrtle er skilinn við Harald (fyrrverandi garðyrkjumaður) og flutt inn í “Candel light city” (Rafmagnið kom svo seint þangað að allir notuðu kerti) með rastafari manni. Virðist bara ganga vel hjá henni. Margrét sem er herbergisþerna er enn hérna. Er soldið fyrir sopann og mætir stundum ekki eftir launadaga. Hún býr við heimilisofbeldi greyjið og seinast fór kallinn svo illa með hana að hún var frá í 3 mánuði. Hún hefur nú litið vel út upp á síðkastið þannig að þetta virðist nú ganga eitthvað betur. Lovísa og Gabríel fóru heim til hennar um daginn og Gabríel hafði orð á þvi að það væri nú ekkert sérlega fínt heima hjá henni. Það er mikil fátækt og þetta eru oft hrörleg hús sem starfsfólkið okkar býr í. Engin teppi, bara steypt bert gólf og engar myndir á veggjum og húsgögnin fá. Svona er þetta hjá flestum þeirra.

Karen kokkur er að standa sig ágætlega. Er mun betri skaplega eftir að hún kom aftur tilbaka eftir barnseignar fríið. Hún var skelfileg með sínar hormónasveiflur þegar hún var ólétt. Penny kokkur er kannski sú sem er helst að pirra okkar. Hún er góður kokkur en ansi mistæk og svo er hún kjaftfor. Mér finnst hún reyndar fín, en maturinn sem hún bíður okkur stundum fer óhreifður inn í eldhús aftur. Vantar alveg vilja hjá henni að gera eitthvað sérstakt fyrir okkur nema maður sleikji hana og því nenni ég bara ekki lengur.

Margrét í eldhúsinu er alltaf við það sama. Alltaf jafn hávær og hlæjandi. Ég þurfti að loka inn í eldhús í morgun, vegna þess að hlátrasköllinn í henni yfirgnæfðu tónlistina á ressanum. Svo er það hún Charlene, sem er ný í eldhúsinu sem aðstoðarkokkur. Virðist vera klettur og mjög vakandi yfir öllu og passar að allt gangi vel. Gabríel er þessa dagana hjá dóttur hennar í pössun og hefur það fínt þar, enda er hún með börn líka sem hann getur leikið við.

Svo er það Carmen, Megan og Mirchel sem eru þjónar. Mirchel er að standa sig ágætlega, en hinar eru frekar hægar og ekki mikið með heilann í sambandi í vinnunni. Þurfum oft að reka þær útúr eldhúsinu. Bönnuðum Megan að taka símann vegna þess að hún bara bullar og getur ekki svarað neinu. Hún er nú samt ágætur þjónn. Mirchel hefur verið dugleg að taka meiri ábyrgð og tékkar inn gesti og getur svarað síma. Hún er nú samt soldil gelgja og getur átt það til að vera fljótfær og að klára ekki alveg það sem hú er að gera. Þetta þýðir náttúrulega að við þurfum að vaka yfir þessu öllu og passa upp á að allt gangi vel. Eiginlega er þetta svolítið eins og að vera verkstjóri, þar sem maður þarf að biðja um að meira og minna allt sé gert og ef maður biður ekki um það þá er það bara ekki gert. Þetta er nú kannski svolítið ýkt, en maður fær stundum þessa tilfinningu.

Takk fyrir kommentin og borðið nú ekki fyrir ykkur af páskaeggjum
Til hamingu með afmælið í gær Maggi.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir að muna alltaf eftir mér, þú ert alveg ótrúlegur, ég man líka hver á afmæli þann 24. Við Birna lesum alltaf bloggið þitt og höfum gaman af og það fara oft fjörlegar umræður af stað t.d um misrétti og kjör svartra og þess háttar, en ég er ekki að kommentera það.( Vorkenni fátæku svertingjunum )Vona að þið frýkið ekki alveg út þarna og náið að slaka á. Byggingin gengur vel hjá okkur i norge og við erum að vona að Halla og Skúli komi til okkar i sumar, já og allir velkomnir, fullt af lausum herbergjum. HAPPY SKVETT M+B i norge

10:11 am  
Anonymous Anonymous said...

Áður en ég missi vitið af hreystimennsku ætla ég að óska ykkur gleðilegra páska elskurnar. Er nefnilega að passa hund og hef skyndilega tekið upp á því að fara út að ganga, en slíkt hefur ekki gerst fyrr á minni ævi. Þetta hófst á hálftíma gönguferð meðfram sjónum á Nesinu, jókst svo upp í klukkutíma og nú var ég að koma úr eins og hálfs tíma göngu. Fröken Skotta sefur eins og steinn úti á tröppum, úrvinda eftir þessa hreystigöngu í sólinni, enda orðin 13 ára. Er orðin svo háð henni að ég afþakkaði pent matarboð annað kvöld, elda bara mitt læri fyrir tíkina, mig,móður´mína og Lízellu og þessum hundi verður ekkert skilað fyrr en á annan í páskum. Enda verð ég orðin svo slank þá að enginn mun þekkja mig!!! Alltaf gaman að lesa svona langt blogg frá ykkur, þetta er svona eins og að lesa skáldsögu, vantar bara eitt morð inn í dæmið til að þetta verði Agötu Christie keppinautur. Þið eruð frabærir. Hvað verða Lovísa og Gabríel lengi hjá ykkur?
Knús og margir kossar, Anna Kristine.

1:48 pm  
Anonymous Anonymous said...

GLEÐILEGA PÁSKA ELSKURNAR bið að heilsa öllum, knúsið hvorn annan frá mer...gaman að lesa bloggið ykkar:)
love gussý

11:48 pm  

Post a Comment

<< Home