Monday, January 10, 2005

Góður dagur

Gærdagurinn var góður. Bói vaknaði snemma að venju og fór niður á hótel til að vera viss um að allt væri í lagi með morgunmatinn. Ég kom aðeins seinna, jæja slatta seinna. vel úthvíldur og leið bara vel. Betur en mér hefur liðið í langan tíma. Bói var búin að undirbúa hlaðborð með eldhúsinu fyrir hádegið þannig að við fengum mat svona til tilbreytingar einu sinni. Það var rólegt í hádeginu, aðeins eitt borð. Fannst það æði! Bói stakk svo upp á að við færum bara upp að sundlauginni okkar sem við höfum aldrei notað síðan við tókum yfir hérna. Þar lágum við og lásum, í sólbaði og í lauginni til að kæla okkur. Ég sofnaði og brann frekar illa. Þetta var samt alveg æðislegt. Fannst manni næstum eiga líf og geta slappað aðeins af. Ég tók svo smá kast og fór að saga niður tré. Jakarandatréð fyrir framan hótelið hefur vaxið svo að það var farið að skyggja á hótelið. Ég sagaði vel af því og var kominn í ham. Ákvað því að fara með sögina og stigann í garðinn og ráðast á gömul hálfdauð tré sem ég og gerði. Það var svo þungt að þegar það datt, þá braut það tvær greinar af öðru tré. það var svo þrautinni þyngra að koma þessu dauða tré í burtu sökum þyngdar og hvernig önnur tré voru flækt inn í það. Bói kom og aðstoðaði mig. Sagði að ég væri brjálaður að vera að klifra svona upp í trén og saga. Það væri fólk í vinnu hjá okkur sem ætti að gera þetta. Stundum þarf maður bara að taka á einhverju líkamlegu og sleppa villimanninum í sér út. Það var ákkurat það sem ég gerði. Var allur hruflaður eftir þessi átök og svei mér þá ef ég hafði ekki ofreynt mig. Maður er jú að vinna á lánaðri orku hérna og vill stundum gleyma því. Ég alla vegna varð að koma mér heim og hvíla mig. Var skjálfandi og titrandi af ofreynslu. Var samt frekar fljótur að jafna mig þegar ég kom heim. Kom svo aftur hingað um hálf sjö leitið. Aðeins tvö 6 manna borð bókuð og það var nú allt of sumt. Bói tók á móti þeim sem yfirþjónn og bað gestina um að láta þjóninn kalla á sig ef við gætum gert eitthvað betra fyrir þau. Þetta svínvirkaði vegna þess að hann fékk algeran frið fyrir gestunum, sem voru í skýjunum yfir þjónustunni og matnum. Við vorum sem sagt búnir um tíu leitið og gátum lokað og farið heim. Þvílíkur lúxus að komast svona snemma heim. Horfðum á Toy Story 2, eða réttara sagt +ég horfði og Bói dottaði. Yndislegur dagur og kvöld.

Í dag er búið að vera rólegt líka og verður það væntanlega í kvöld líka. Samt veit maður aldrei, mánudagar hafa verið mjög busy hérna. Við erum alla vegna til í slaginn og líður betur (fyrir utan brunann) en manni hefur liðið lengi.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home