Friday, May 06, 2005

Annríki

Hérna er búið að vera brjálað að gera fram á þriðjudag og síðan höfum við bara verið svo þreyttir að við höfum ekki átt orku í neitt. Það er nú ástæðan fyrir því að við höfum ekki skrifað neitt síðan á laugadag. Lauren Flanigan kom á sunnudaginn og það var yndislegt að hitta hana. Við smöluðum nokkrum vinum í dinner til að hitta hana og svo tók hún lagið fyrir okkur við undirleik Ferdi. (Ferdi kemur hérna alltaf á mánudögum og spilar og yfirleitt kemur hann nokkur önnur kvöld að eigin frumkvæði) Lauren er með alveg svakalega flotta rödd og það var dásamlegt að hlusta á hana. Hún gat því miður ekki stoppað neitt, vegna þess að hún þurfti að kenna daginn eftir. Ég keyrði hana því til Cape Town morguninn eftir.

Verslaði svo eins og vanalega þegar maður kemst í almennilegar búðir, þ.e.a.s. grænmeti og þess háttar. Ekki eins og maður sé nú að versla eitthvað fyrir sig persónulega.

Það róaðist svo hérna á þriðjudaginn, eftir að allt hafði verið stútfullt á hótelinu og ný met slegin í fjölda gesta á veitingastaðnum. Allt gekk vel upp, og eiginlega getur maður verið mjög stoltur af því hversu langt við erum komnir með starfsfólkið okkar sem er farið að gera hlutina sjálfvirkt án þess að maður sé hreinlega yfir þeim allan tíman að tékka á öllu mögulegu og passa uppá að allt sé nú gert tímalega og rétt.

Jóhanna og Gunni eru farin í ferðalag, og líklega flutt frá okkur. Gússý er enn hérna hjá okkur og sér um allan akstur ásamt því að hjálpa til í eldhúsinu. Það hefur verið mikil hjálp í henni.

Hér er farið að hausta og maður finnur fyrir því að það er farið að kólna á kvöldin. Mörg tré eru farin að fella lauf, annars er allt ótrúlega grænt hérna ennþá. Appelsínutrén eru hlaðin af appelsínum sem eru mjög ljúffengar. Sítrónutrén eru líka hlaðin af annarri uppskeru af sítrónum. Svo eru guava trén líka að koma með uppskeru. Það er alltaf eitthvað að gerast í garðinum hjá okkur

Erum í smá vandræðum núna vegna þess að við erum að missa geymslurnar okkar þar sem við geymum áfengi og mat. Geymslurnar eru í húsi sem við eigum ekki, og húsið var nýlega selt og það er byrjað að gera það upp. Við þurfum því að fara að byggja mjög fljótt húsnæði fyrir geymslur, þvottahús og viðhald. Vonum að við náum að gera það tímalega vegna þess að þetta er tikkandi tímasprengja sbr. innbrotið sem varð þar um daginn. Þetta var víst einn af mönnunum sem hafa verið að vinna þar við húsið.

Í kvöld eru tónleikar eins og vanalega. Vonum bara að það verði nógu hlítt til að við getum haft þá úti. Nú verð ég víst að fara að fylla á barinn, prenta matseðla og sjá til þess að nóg sé til af öllu. Bói og Gússý ætla að skella sér til Sommerset West til að ná í áfengi fyrir okkur. Það eru endalaus vandræði að fá birgjana til þess að senda þetta hingað upp í sveitina til okkar og því afhenda þeir þetta í einhverjum af þessum stóru bæjum sem eru nálægt.

Súsanna mágkona á afmæli í dag. Til hamingju með daginn!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home