Wednesday, June 15, 2005

Undirbúningur, undirbúningur og enn meiri undibúningur

Erum búnir að vera á fullu að undirbúa ráðstefnunar báðar. Ráðstefnusalurinn er tilbúinn. Ami og Oliver eru búnir að vera að snyrta þar fyrir framan, mála og þrifa og gera snyrtilegt. Svo er búið að vera að þétta hurðir og glugga. Þetta er allt svo gamalt hérna að það er allt óþétt og næðir inn þegar það blæs og trúið mér hér getur blásið hressilega rétt eins og klakanum. Búið að breyta arninum í galleríinu. Hann hafði alltaf verið til vandræða og mjög erfitt að kveikja upp í honum og halda við eldnum. Kom í ljós að það var feik “antik” hlíf framan á og þegar hún var tekin í burtu, kom í ljós stórt eldstæði og nú er ekkert mál að hafa stóra brennu þar. Við erum með þrjá arina i aðalbyggingunni og það er nú eina kyndingin sem við höfum, þannig að það er kveikt upp í þeim öllum stórir eldar sem gerir þetta mjög huggulegt og rómanstísk á kvöldin.

Fórum til Sommerset West í dag til þess að leiga borðbúnað og kaupa glös. Þetta er svo stór hópur sem verður hjá okkur um helgina og ef eitthvað utanaðkomandi koma í dinner þá vantar ýmislegt. Þess vegna þurftum við að leiga þetta dót. Kaupum að sjálfsögðu meiri borðbúnað þegar við höfum betri tíma. Held að við séum bara nokkuð vel undirbúnir líka. Óvanalega snemma. En það eru alltaf einhverjar sérþarfir hjá gestum sem kalla á hlaup á seinustu stundu.

Vorum í dinner hjá David og Margaret í gær. Var bara nokkuð huggulegt þó að kellingin sé nú ekki sú skemmtilegasta. Bói þurfti að fara útaf gestum sem létu ófriðlega og voru með dónaskap við eina þjóninn (Hilca-Ann) sem var á vakt. Ótrúlegt hvað sumt af þessu hvíta hyski getur verið dónalegt við litað fólk. Þau lifa hreinlega enn í gamla aðskilnaðartímanum þegar þau gátu komið fram við litaða eins og þræla. Sorglegt að sjá þetta. Erum farnir að þekkja týpuna langar leiðir. Yfirleitt heilsa þau ekki, þó að maður heilsi þeim og ef maður segir eitthvað þá næstum því hunsa þau mann. Ótrúlega dónalegar og leiðinlegar týpur. Tekur líklega margar kynslóðir að hreinsa afleiðingar aðskilnaðarstefnunnar hérna. Vorum til tæplega miðnætur hjá þeim. Góður matur og góð vín. Þau eru bæði bresk og fluttu hingað fyrir 5 árum til að vera nær dóttir sinni og barnabörnum, en hún giftist SA manni og flutti hingað. David og Margaret eru samt ótrúlega einangruð hérna þá að þetta sé besta fólk. Það er bara soldið erfitt að aðlagast kúlturnum hérna. David sagði að það hefði breytt lífi sínu þegar við fluttum hingað. Þau eru nefnilega bæði hætt að vinna og hann nýtur þess í botn að koma hingað á hótelið og hjálpa okkur að skipuleggja tónleikana og svo að syngja. Hann er mjög góður söngvari og eiginlega er maður bara hissa að hann skuli ekki hafa lagt þetta fyrir sig. Margir gestir hjá okkur spyrja mikið um það hver þessi frábæri söngvari sé. Halda sjálfsagt að hann se einhver svo frægur að maður ætti að vita hver hann er.

Verðum með óvænt tónlistaratriði 17 júni. Ferdi, Paul, Val og David ætla að sjá um þetta og það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer. Erum að hugsa um að hafa tónleikana í garðinum þrátt fyrir að það sé farið að kólna. Fólk getur bara klætt sig vel og komið með teppi. Enda er ekkert pláss fyrir mikið meira en 35 gesti í galleríinu og við verðum með 30 ráðstefnugesti á tónleikunum, þannig að garðurinn er eini möguleikinn okkar.

Búið að vera mjög þægilegt veður í dag. Heiðskírt og þægilegt hitastig. Aðeins að verða skarpt núna um sjöleitið. Það eru nokkur herbergi bókuð og eins nokkur borð í dinner, en reiknum nú samt ekki með því að verða mjög busy eða seint kvöld, en maður veit aldrei

Annars er ég búinn að vera á fullu í pappírsvinnu. Erum að fara í hart við fólkið sem seldi okkur. Það er enn ekki búið að gefa út rafmagns vottorð og það hafa verið gerðar þvílíkar skítareddingar hérna í rafmagni að maður er eiginlega bara hissa að þetta hefur ekki brunnið yfir fyrir löngu síðan. Erum búin að vera í samskiptum í gegnum lögfræðinga síðan í desember og ekkert er að gerast. Erum komnir með nýjan lögfræðing er er harður nagli og vanur að eiga við svona mál og loka þeim. Hann ætlar að verða mjög harður við þau. Vonandi getum við bara lokað þessu máli sem allra fyrst vegna þess að við höfum ekki getað ráðist í endurbætur í neinum rafmagns málum vegna þess að vottorðið vantar. Þangað til það hefur verið gefið út getum við nefnilega lítið gert. Höfum nú samt gert meira en má, en það var af illir nauðsyn og hreinlega þoldi enga bið. Vonum alla vegna að það verði hægt að klára þetta sem allra fyrst vegna þess að við höfum miklar áhyggjur af þessum málum.

Sigurjón Guðmundsson í Íslandsbankanum í Lækjagötu, góður vinur okkur á afmæli í dag og við sendum honum okkar bestu kveðjur frá vetrinum í Suður Afríku.

Ps. Jói minn, skil það vel að maður á þínum aldri geti ekki alveg fótað sig í þessum flóknum tölvu málum. Bói neitar að koma nálægt e-mail meira að segja. E-mail addressan okkar er greytonlodge@kingsley.co.za

Anna Kristen. skv. Jóa þá býr maðurinn á hvíta hestinum með honum. e.t.v. ættir þú að setja þig í samband við hann. Nei það verðru bið á að við komum heim. Hvernig ættum við að geta það þegar við erum í krísustjórnun frá því snemma á morgnanna þangað til seint á kvöldin og höfum varla komist út af hótelinu í smastund. Njóttu frísins í Þýskalandi.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home