Saturday, September 24, 2005

Breytingar

Búið að vera mikið að gera hjá okkur og lítill tími í blogg. Fórum með Stefán til Cape Town og gistum nóttina. Skoðuðum Waterfront og áttum notarlegan dag áður en Stefán flaug heim um miðnætti. Það var gott að hafa hann hérna og hans er saknað. Erum smá vonsviknir að draumurinn hans Kristjáns rættist ekki, en...... Stefán kemur aftur og hver veit þá hvað gerist.......

Notuðum ferðina og skoðuðum heildsalana. Kominn tími á að fara að endurnýja borðbúnað, glös og bæta við tækjum í eldhúsið. Tækjabúnaðurinn þar er nú ekki upp á marga fiska. Matvinnsluvélin búin að vera biluð í rúmlega 2 mánuði eftir að Loana braut lokið af henni. Þær hafa nú bjargað sér samt, sem er alveg ótrúlegt. Kom að Diana í gær þar sem hún var búin að setja brauðskorpur í poka og var að berja það með buffhamri til að gera rasp. Hún hafði ekki uppgötvað að matvinnsluvélin var komin í lag. Þær hafa meira að segja hakkað fiskinn í fiskibollurnar með hníf. Þær redda sér stelpurnar.........

Settum upp nýjan snakk matseðil í gær. Smá fingramatur fyrir fólk með drykkjunum. Heppnaðist svona ljómandi vel. Litlar fiskibollur, kjúklinga strimlar í kókos og litlar kjötbollur með sterkum sósum til að dýfa í. Gestgjafinn er að gefa okkur nýjar hugmyndir. Liggjum yfir þessum blöðum þessa dagana, enda er kominn tími á að breyta matseðli hérna. Erum komnir með nokkra nýja rétti sem eru tilbúnir til að fara á seðil. Við erum búnir að vera í miklum tilraunum með Kristjáni í eldhúsinu og það hefur verið mjög gaman. Eiginlega má segja að Kristján hafi gefið okkur orku til að fara að endurnýja okkur. Það er líka búið að vera að breyta uppröðun á borðum og Kristján hefur verið duglegur að kenna þjónunum að selja. Nú er ekki spurt hvort vilji fá vatn (þegar þjonarnir mundu eftir því), nei nú er spurt hvort þau vilji “Still or Sparkling”. Þetta byrjaði í gærkvöldi og allir fengu sér vatn. Það þarf að selja og þetta er tækni. Áríðandi að selja sem mest og við græðum mest á vatninu.

Bói og Kristján fóru til Somerset West í gær og versluðu fullt af fallegum hlutum á veitingastaðinn. Þannig að þetta er allt að verða fallegra og fallegra, og það er nú ekki eins og veitingastaðurinn hafi ekki verið fallegur fyrir. Stundum er gott að fá utanaðkomandi til að hjálpa, vegna þess að maður á það jú til að staðna ef maður er ekki stöðugt að endurnýja sig.

Það voru keyptir fleiri gullfiskar í nýju tjörnina sem Sossa og Bói bjuggu til. Hún er mjög falleg, en því miður þá lekur hún núna og við þurfum því að taka hana upp aftur og laga lekann. Það er líka kominn vatnsdæla sem dælir vatni upp í gegnum hvalbeinið sem við fengum úr garðinum hennar Öllu í Hólminum og endaði hérna í gullfiskatjörninn sem gosbrunnur. Það held að hún Alla heitin hefði aldrei getað ímyndað sér það.

Við komum til með að verða mjög busy í næstu viku. Tvær ráðstefnur á sama tíma og allt stútfullt og meira til. Þurftum meira að segja að bóka nokkur herbergi á öðrum gistiheimilinum. Systir hennar Loana var að deyja og Loana er í fríi þessa helgi til þess að fara í útförina. Hún er búin að vera soldið utanvið sig blessunin. Átti samt fund með henni í gær þar sem við fórum aðeins yfir stöðuna á málum í eldhúsinu og hvert við værum að stefna með það. Rachel er búin að vera frá vinnu í rúma viku vegna ofnæmis. Hún bólgnaði svo svakalega upp í augunum að það var skelfilegt að sjá hana. Hún mætti til vinnu í gær og lítur nú svosem ekki vel út, en er að lagast. Karen kemur svo úr barnseignafríinu um mánaðarmótin og mætir þá í nýtt eldhús með nýjum vinnubrögðum. Þetta er ekki sama eldhúsið og var áður en hún fór í barnseignafrí. Okkur kvíðir soldið fyrir því að fá hana aftur í vinnu, vegna þess að hún var svo skelfilega erfið með hormónasveiflur. Vonandi er það nú bara vegna þess að hún var ólétt..... Sjáum til hvernig það fer.

Í dag skín sólin og það stefnir í heitan dag. Við erum þokkalega bókaðir um helgina sem er gott. Veitir ekki af meiri innkomu. Við erum illa mannaðir núna á morgunvaktinn. Það er bara Gulltönn sem er að þjona og elda morgunmatinn, Dina í eldhúsinu að aðstoða og þrífa og Gilitrutt í herbergjunum. Þurfum því líklega að grípa aðeins til hendinn í dag. Verðum samt betur mannaðir á seinni vaktinni og Rachel kemur um 12, þannig að þá þarf ég vonandi ekki að fara inn í eldhús að kokka, bara að fara inn og aðstoða og leiðbeina henni. Hún er jú alveg ný og þarf stuðning, sem er alveg sjálfsagt og eiginlega bara gaman.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

'Eg var að spá í eftir að hafa lesið bloggið ykkar, að maður ætti nú bara að taka sér 2-3 mánaða launalaust leyfi og koma og vinna hjá ykkur upp á fæði og húsnæði,vatnið myndi ég borga sjálf.... ætti kannski að nefna þetta við ömmu dreka, þið væruð nú ekki illa staddir ef hún kæmi ; ))
Er að fara á Vegamót að fá mér snarl með krökkunum og svo í bíó.. í yndislegu haustveðri í henni Reykjavík, Ástarkveðjur frá 8villt

4:36 pm  
Anonymous Anonymous said...

nei eruð þið búnir að stofnsetja aðra tjörn! Þið eruð yndislegir:) gaman að heyra að þið séuð komnir með fullt af nýjum réttum og nánast nýtt eldhús, óska ykur allt í haginn eins og alltaf, knús knús...bið sérstaklega að heilsa Louhnu og samhryggist út af systur hennar, en auðvitað fá allir knús og faðmlag frá gússý og þið kyssið hvorn annan. Alltaf gaman að fylgjast með ykkur
love and leave ya

9:03 pm  

Post a Comment

<< Home