Sunday, July 03, 2005

Staffa vandamál

Loana er komin til vinnu aftur. Fór med hana til læknis daginn eftir ég fór með hana á spítalann. Læknirinn sagði henn að ef þetta hefði verið hjartað, þá væri hún löngu dáin. Þetta voru vöðvabólgur á milli rifja hjá henni og hún fékk bólgueyðandi og verkjalyf og er öll að koma til. Mætti til vinnu alla vegna í gær og var bara nokkuð hress. Staffamálin eru nú ekki alltaf auðveld. Silvía (kokkur) er búin að vera að gera okkur brjálaða með hegðun sinni sem er oft einkennileg. Stundum er hún svo ofboðslega kát og aðra daga er jarðarfarastemming á henni. Gleði sagði okkur að hún væri með mikið þunglyndi sem skýrir þessa hegðun kannski.

Átti alvarlegt samtal við hana fyrir tveim dögum, vegna þess að hún virðist hreinlega misskilja allt sem maður segir. Spurði hana hvort hún skyldi ekki enskuna mína, sem hún sagðist gera ágætlega. Þá spurði ég hvers vegna ég fengi samloku með skinku og tómat þegar ég bæði um samloku með skinku og osti. Óhh sorry, sagði hún. Það er ekki mikið svarað eða útskýrt hvers vegna svona misskilningur verður. Ég sagði henni að ég væri ekki reiður eða fúll, vildi bara vita hvers vegna þetta gerðist ítrekað. Ég bað hana um að gjöra svo vel að spyrja mig ef hún væri óviss um það hvort hún hefði skyldi mig og að endurtaka til þess að vera viss. Hún lofaði bót og betrun.

Í gær keyrði nú samt alveg um þverbak. Bói fór inn í eldhús um morguninn og var að skoða hvernig ástandið væri með kökur, brauð og þess háttar. Það vantað allt og hún var ekkert að byrja að undirbúa. Bói skrifaði þetta niður á miða og fór með til Gleði sem fór með miðann inn í eldhús og bað hana um að gera þetta allt saman fyrir klukkan þrjú. Á ég að gera þetta allt? Og þrífa ískápana líka? Já takk

Ég fór svo inn stuttu seinna og var að athuga ástandið með hádegismatinn. Hvort það væri búið að gera staffamat, kjötbollur, kássu og fleira. Nei, hún var ekki byrjuð á neinu af þessu. Ég minnti hana á samtalið okkarog bað hana um að gjöra svo vel að sinna starfinu sínu og sjá til þess að allt sem væri á matseðli væri til og undirbúið. Vað mjög fúll við hana, og hún fór að svara mér. Sagði að Diana sem er nýji kokkurinn okkar væri bakari og hún hefði átt að gera allan baksturinn. Ég leiðrétti hana. Jú, Diana er bakari, en hún er ráðinn til okkar sem aðstoðarkokkur sem ætti að þjálfa upp sem kokk. Jæja ég fór útur eldhúsinu í frekar fúlu skapi.

Fór aftur eftir hádegi til að ná mér í staffamat handa mér. Silvía sagði mér þá að hann væri búinn. Það hefði ekki verið til nóg. Þá sprakk ég. Sagði henni að þegar staffamatur væri gerður þá ætti að vera gert fyrir alla og ekki bara þá sem eru alltaf að hanga í eldhúsinu. Gilitrutt var að hanga þar eina ferðina enn. Hún lét sig hverfa þá. Hélt áfram að ræða við Silvíu um hennar ábyrgð á því að allt væri gert sem þyrfti í eldhúsinu. Hún snéri þá baki í mig og þá varð ég enn reiðari. Bað hana um að gjöra svo vel að sýna mér þá virðingu að snúa ekki baki í mig þegar við værum að tala saman. Jæja, þetta endaði á því að hún tók töskuna sína og ætlaði að fara. Ég sagði henni að ef hún færi núna þá þyrfti hún ekki að koma aftur. Ég tæki því sem uppsögn. Grey kellingin fór að gráta og bað um að fá að fara út fyrir til að jafna sig. Ég fór með henni út. Hún grét smá. Ég tók um hendurnar á henni og sagði henni að mér þætti vænt um hana og ég virti hana. Við værum jafningjar og hún þyrfti að láta okkur vita ef hún réði ekki við öll verkefnin. Við höfum margoft boðið fram aðstoð okkar, og við hefðum bara gaman af því að taka til hendinni í eldhúsinu. Talaði við hana á góðum nótum til að róa hana. Sagði henni svo að taka sér tíma og róa sig.

Hún kom út skömmu seinna og baðst afsökunar. Hún væri búin að vera lasin og liði ekki vel. Svo hefði hún fengið á tilfinninguna að allt sem hún gerði væri rangt. Jæja, við alla vegna ákváðum með henni að kokkarnir allir þrír, hefðu fund í næstu viku þar sem þær færu yfir verkefnin og skipulögðu hvernig best væri að standa að undirbúningi, svo sem hvenær og hver á að baka og undirbúa og fleira og fleira. Vonandi verður þetta í lagi, en við höfum áhyggjur af Silvíu. Vonandi verður þetta í lagi. Stundum er staffið okkar bara eins og börn sem þarf að rasskella til þess að þau taki sig á og hagi sér vel. Ég var alveg eftir mig eftir þessa uppákomur. Tek svona lagað allt of mikið inn á mig. Er samt farinn að verða sjóaður í svona uppákomum og tek þetta ekki næstum því eins mikið inn á mig og ég gerði áður.

Við fengum píanóið okkar í gær. Mjög flott mubla. Svo kom píanó stillingarmaður áðan og það þarf nú að gera slatta við það til þess að fá það í gott ástand. En það ætti að vera vel þess virði vegna þess að þetta er gott píanó. Hann verður alla vegna hérna í tvo daga að gera við það og þá verður það betra en nýtt. Frábært, getum ekki beðið eftir því að losna við hitt píanóið sem Paul (falski klarinettu spilarinn) á og við höfum ekki getað losnað við hann vegna þess að hann á píanóið og við þurftum á því að halda. Nú er alla vegna betri tíð með blóm í haga með nýja píanóinu.

Tónleikarnir í gær voru með þeim allra bestu sem við höfum haft. Það komu tvær konur (voru ekki saman) sem gestir og þær byrjuðu báðar að syngja með Ferdi á píanóinu. Önnur var frábær óperusöngkona og hin var jassari sem spilaði líka. Svo kom David og tók lagið og svo var þetta dúett og trio. Algerlega frábært að hlusta á þetta og enginn þeirra þekkti hvort annað og allt óæft. Vá, hvað þetta var gaman. Þetta varð mjög seint kvöld í gær og við skriðum upp í rúmið upp úr miðnætti.

Í dag skín sólin og það er að verða mjög hlýtt. Enn einn yndislegur dagur í Greyton!

Lára Sverridsdóttir á afmæli í dag. Til hamingju med daginn!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home