Saturday, June 25, 2005

Gróa á Leiti

Erum búnir að vera að nota vikuna til að enduhlaða orkuna sem var orðin ansi lítil eftir þessa annasömu helgi og svo aðra ráðstefnu sem er búin að vera alla vikuna. Fór til Somerset West á mánudaginn að skila borðbúnaði sem við leigðum. Gleði og Hilca-Ann höfðu tekið allt saman og talið, þannig að ég treysti því að það væri rétt. Daginn eftir var hringt frá leigunni og þá vantaði slatta af borðbúnaði. Hilca-Ann hafði sem sagt ekki talið rétt, ótrúlegt þar sem þar vantaði 22 diska m.a. Veit ekki hvernig þetta er hægt. Þetta kostaði mig aðra ferð til Somerset West og það er nú ekki það skemmtilegasta sem ég geri. Þetta er eins og að keyra í Hólminn frá Reykjavík, þannig að það fór rúmlega hálfur dagur í þetta. Var ekki mjög ánægður og las yfir stúlku kindinni. Ef maður getur ekki treyst því að þau geri það sem ætlast er til af þeim, þá höfum við enga þörf fyrir að hafa þau á launaskrá. Það eru reyndar ansi margir starfsmenn búnir að vera að fá svipaðan fyrirlestur.

Bói er búinn að vera á eftir garðyrkjumanninum í rúmar tvær vikur og hamra á því við hann að nota augun og halda garðinum við. Hann hefur verið að gleyma verkfærum útum allt og gleymir að tæma ruslafötur og fleira. Þetta er soldið pirrandi, en svona er þetta bara. Við erum með mjög strangt eftirlit með öllu nú orðið og það hefur áhrif. Hér er allt farið að ganga mun betur.

Mamma hennar Jóhönnu kom með manninum sínum og vinum á miðvikudagsmorgun. Þá var ég því miður í Somerset West, vegna þess að Hilca-Ann vann ekki vinnuna sína (ókei, ég er hættur að kvarta). Þau voru mjög hrifin af hótelinu okkur. Þau gista hjá Hermanni með Jóhönnu og hún er víst búin að skipuleggja mikil ferðalög með þau út um alla Afríku.

Hér eru búnir að vera rafvirkjar að vinna við lagfæringar á rafmagnsmálum. Ýmislegt búið að vera að, en vonandi er þetta komið í pokkalegt lag núna í bili alla vegna. Það eru takmarkanir fyrir því hvað við getum gert vegna þess að það er enn ekki búið að gefa út rafmagnsvottorð. Þess vegna er sumt hálfgerðar skítareddingar.

Búið að vera hlýtt og notarlegt undanfarið. Farið upp í rúmar 22 gráður á daginn, en verður ansi skarpt á kvöldin. Hér er kveikt upp í tveim arinum alltaf á kvöldin, þannig að það er hlýtt og notarlegt og mjög rómantískt á kvöldin inni. Vorum með tónleika í gær, eins og alltaf á föstudögum. Það voru nú ekkert mjög fjölmennt, enda er það alltaf eins hérna. Eftir svona viðburðaríka helgi þá dettur allt niður í smá tíma á eftir.

Keypti mér úr um daginn á 99 rönd (rúmlega þúsund kall). Það gekk ágætlega í eina viku. Þá datt einn takkinn af og það byrjaði að ganga vitlaust. Trúlega hefði maður bara hent því ef þetta hefði gerst á Íslandi. Hérna notaði ég Africaans attitude og fór í búðina og sagðist vera mjög óánægður með þetta úr, sem væri algert drasl. Gengi vitlaust og takkinn dottinn af. Heimtaði annað úr og spurði hann hvort þetta væri áræðanlegt merki. Ódýr Cartier eftirlíking sem heitir Cawelon. Úr fjarlægð gæti það litið út fyrir að vera Cartier, og var reyndar spurður af gesti hérna hvort þetta væri Cartier úr. Nei sagði ég enda eins og flestir vita, þá erum við nú ekki uppteknir af einhverjum merkjum. Hann fullyrti að þetta væri mjög gott merki og þetta væri alger undantekning. Ég sagðist þá ætla að þiggja annað úr, sem ég fékk. Þetta hefði maður aldrei gert áður en maður flutti hingað.

Maður er farinn að nota þessa Africaans hegðun við ýmislegt annað. Það er einn birgir búin að vera að hringja hingað nokkrum sinnum, yfirleitt eftir að Gleði er farin og þau segja hverjum sem er að það eigi að fara að loka reikningum okkar og senda allt í innheimtu. Við vorum smá á eftir með greiðslu, en við verslum líka mikið við þá, þannig að manni fannst þeir ættu að hafa smá þolinmæði. Ég alla vegna hringdi í sölou svæðisstjórann og sagði honum að þetta væri óþolandi. Það væri alltaf hringt eftir skrifstofutíma hjá okkur, þau væru dónaleg og skiluðu hótunum til þess sem svaraði í símann hverju sinni. Hélt að við værum góðir kúnnar, sem væru alltaf í skilum og versluðum mikið, værum því miður smá á eftir núna, en það yrði gert upp mjög strax. Hann baðst afsökunar og sagði að þetta myndi ekki gerast aftur. Maður þarf að vera soldið mikið upptekinn af sjálfum sér og ekki að líða neinn skít. Þetta Africaan fólk sem getur verið svo dónalegt limpast yfirleitt niður um leið og maður byrjar að svara þeim fullum hálsi, á rólegan og kurteisan hátt. Virðist vera það eina sem þau skilja.

Það var slatti að gera í kvöldmat í gær og allt gekk mjög vel. Frekjan var í stuði í eldhúsinu. Gestir sem hafa komið hérna frekar oft töluðu heillengi við Bóa við borðið og voru að segja hvað það væri ótrúlegt að sjá allar breytingarnar sem við höfum gert. Maturinn og þjónustan væri til fyrirmyndar að öllu leiti. Sögðu líka hvað það væri gaman að sjá hvað við værum að gera mikið fyrir Greyton. Gaman að sjá hvað það væri mikið af fólki á staðnum og tónlistina á föstudögum. Sögðu að það væri mikið talað um Greyton Lodge og hvað við værum að gera góða hluti, heyrðu bara jákvæða hluti.

Það er nú samt ekki allt svona jákvætt í bæjarslúðrinu. Heyrðum um daginn að það það hefði verið hérna 4 manna borð að snæða kvöldmat hjá okkur. Það hefði verið eina borðið og þeim hefði verið sagt að það væri ekki til steik. Þvílíkt kjaftæði. Það var eitt 5 manna borð (ráðstefnugestir) og tvo 2 manna borð og nóg til af steik þar að auki. Þetta gátum við rakið til Lindu “vinkonu” okkar sem er stjóri á Oak and Vigne, sem er mjög vinsælt kaffihús hérna. Ætla að reka þetta ofan í hana, við fyrsta tækifæri. Það kemur svona slúður alltaf annað slagið og yfirleitt ber einhver það í okkur. Erum orðnir vanir þessu og getum yfirleitt alltaf rakið það til einhvers. Erum farnir að þekkja þessar “Gróur á Leiti” í Greyton. Heyrum minna af þessu jákvæða slúðri þannig að yljar hjartað að heyra svona jákvæða hluti um okkur.

Ætli maður skreppi ekki bara í lunch á eftir á Oak and Vigne og láti “einhvern” heyra það. Alltaf gott að losa sig við neikvæða orku þannig. Tek það ekki út á Bóa eða staffinu á meðan. Maður er svosem ekki með neina neikvæða orku þannig séð enda er mjög bjart yfir okkur, fullir bjartsýni þrátt fyrir ýmislegt sem gæti verið betra.

2 Comments:

Blogger Kjaftaskurinn said...

Hæhæhæ!
Ég ákvað að kvitta fyrir mig í þetta sinn, ég kíki nú við á síðunni ykkar reglulega og hef alltaf jafngaman af að lesa um það sem er að gerast hjá ykkur. Af mér og mínum er fínt að frétta.
Kv. Sigrún Ósk

12:51 pm  
Blogger SOS.SA said...

Takk Sigrún Ósk
gaman að heyra að þú fylgist með okkur.
Villi og Bói

7:58 pm  

Post a Comment

<< Home