Wednesday, May 11, 2005

Einum starfsmanni færra

Hér er búið að vera mikið í gangi bæði í gær og í dag. Það er nefnilega verið að rífa viðbyggingar í húsinu þar sem við geymum matvæli og áfengi. Erum alveg á nálum vegna þess hve margir verkamenn eru að vinna þarna. Þurfum að passa að þeir komist ekki að því að við erum með víngeymsluna þarna, þannig að maður læðist til að ná í búsið.

Ellen kom í gær loksins. Gat ekki komið í fyrradag vegna þess að hún var með syni sínum í réttarsal. Allir þrír strákarnir hennar eru smá krimmar og inn og útúr fangelsi allan tímann. Ég tók hana á fund og hafði Gleði með til að túlka, vegna þess að ensku kunnátta Skvísunnar er takmörkuð. Las yfir henni hvernig hún hefði bakað okkur vandræði aftur og aftur með því að mæta ekki eða að vera með attitude og fýlu sem hefur áhrif á alla í kringum hana. Hún mætti ekki til vinnu þrjár helgar í röð núna. Við hefðum þurft að kalla út aðra kokka og borga þeim yfirvinnu. Silvía hefur ekki fengið frídag í tæpan mánuð út af þessu og þetta er ekki hægt að líða. Við höfum oft átt alvarleg samtöl við hana og hún hefur fengið skriflega viðvörun áður. Samt er ekkert að breytast hjá henni. Ég sagði henni að við hefðum ekkert annað ráð en að losa okkur við hana. Hún hefði val og svo rétti ég henni uppsagnarbréf þar sem hún sagði sjálf upp. Bað hana að lesa það og spurði svo hvort hún skyldi innhaldið. Hún sagðist gera það. Þá rétti ég henni penna og bað hana að skrifa undir það, sem hún og gerði. Þá bað ég hana um að láta okkur fá nafnskiltið sitt og ef hún væri með eitthvað annað sem tilheyrði okkur. Þá fyrst fattaði hún hvað hún hafði gert með því að skrifa undir þetta og fór að gráta. Ég sagði henni að því miður hefði hún ekki gefið mér neitt val. Skyldi hana svo eftir með Gleði til að róa hana.

Gleði kom stuttu seinna og sagði að Skvísan vildi tala við mig aftur. Hún baðst þá afsökunar á þessu og bað um að fá vinnuna sína aftur. Sagði mér hvað það væri erfitt heima hjá henni o.s.frv. Þetta tók á andlega, en ég sagði að hér væri enginn meira áríðandi en annar og við værum ein keðja. Ef einn hlekkur er veikur hefur það áhrif á alla keðjuna og hún væri veikasti hlekkurinn. Því miður. Hún var mjög leið þannig að ég sagði henni þá að hún hefði eitt tækifæri. Hún gæti prófað að tala við Bóa, en það væri ekki sennilegt að hann myndi skipta um skoðun. Ég myndi alla vegna samþykkja hans ákvörðun ef svo ólíklega myndi vilja til að hann skipti um skoðun. Það var nú mikil heppni að hún skyldi skrifa undir uppsagnarbréfið vegna þess að annars hefðu við ekki getað losnað við hana. Vinnulöggjöfin er svo ströng hérna. Þarf 3 skriflegar viðvaranir og svo yfirheyrslu með vitnaleiðslum eftir það til að hægt sé að reka. Mér fanns ég hafa platað hana og leið ekkert sérlega vel yfir því Gleði var í smá sjokki yfir að ég skyldi hafa gert þetta svona, en ég bara hafði ekki val ef ég vildi losna við hana.

Hún kom svo aftur og hitti Bóa, en hann var staðfastur og sagði bara því miður. Hún hefði verið of dýr fyrir okkur með öllum þessum uppákomum, henni hefði verið gefin tækifæri, stöðuhækkanir, launahækkanir og fleira. Hún hefði ekki sýnt neinn lit í að bæta sig og því miður myndum við standa við ákvörðun okkar. Fínt að vera laus við hana. Nú þurfum við bara að finna annan kokk, annars skella eldhúshlekkirnir á mig

Við erum búnir að vera að vinna í breytingum á þvottahúsinu svo þær þurfi ekki að vera að vinna í ráðstefnusalnum. Brtum niður veggi og fleira og núna er komið þetta fína þvottahús. Svo ætlum við að panta tilbúið tréhús sem við getum sett niður hérna á lóðina og verið með geymslur þar og viðhaldsherbergi. Vínið verður allt flutt niður á skrifstofu til mín. Þá verður kannski skemmtilegra að vinna þar. Svo ráðumst við í breytingar á elshúsinu í næstu viku. Ætlum að brjóta inn í litla skrifstofu sem er í móttökunni og gera þar geymslu, svo breytum við hluta af eldhúsinu í kæligeymslu. Þá eru geymslumálin leyst í bili alla vegna. Þurfum reyndar að losa bílsskúrinn á Park street sem er fullur af gömlum húsgögnum héðan og finna einhvern stað fyrir það eða jafnvel að biðja Rauða krossinn um að selja þetta allt saman gegn því að þau fái prósentur af sölunni í góðgerðarmál. Sjáum til hvernig það fer. Svo er bara eftir að finna geymslu fyrir búslóðina okkar þegar við flytjum niður á hótelið. Nóg að gera semsagt.

Örn Sigurðsson mágur á afmæli í dag. Kemst því miður ekki í boðið sem ég reikna með að sé, en við sendum þér hamingjuóskir með daginn.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Það er aldeilis sveita stemning þarna, Edelveis og heimaklippingar. Eru íslenskar kvöldvökur kannski næstar á dagskrá? Annars fóru Olla og Hekla að syngja jarðarfararsálma í afmælinu hjá Ödda áðan svo þetta er kannski ekkert svo ólíkt hér. :)
Kveðja
Palli

12:14 am  

Post a Comment

<< Home