Saturday, November 26, 2005

Betri heilsa og endalaus drama

Hæ essgunar

Sorry hvað ég hef verið lélegur að blogga undanfarið. Það er ekkert grín að líða eins og mér hefur liðið og svo hefur verið fullt af meiri drama þar að auki. Varðandi kommentin, þá eiginlega fauk í mig. Ég er löngu hættur að reyna að vera einhver annar en ég er, og ef einhverjum finnst það vera kerlingavæl, þá er það ekki mitt vandamál. Nóg um það, ætlaði að ekki að byrja á svona neikvæðum nótum.

Líðanin er farin að verða betri og greinilegt að þessi lyf eru að virka. Ég hafði ekki hugsað mér að verða einhver lyfjasjúklingur, en ég hef unnið með líkamlega og andlega veiku fólki í meira en 20 ár og veit hvenær maður á að biðja um hjálp og hvenær maður getur “stillt sál og ...” Mér líður alla vegna miklu betur og takk fyrir umhyggjuna. (vel meint).

Seinasta föstudag, fyrir viku síðan kom kærasti listamanns, Gert Naude sem er með málverkasýninguna hjá okkur og sagðist vera leiður yfir stuttum fyrirvara en hann þyrfti því miður að taka niður einhverjar af myndunum vegna sýningar sem hann er með í Cape Town og annarrar sem hann er að opna hjá samkeppnisaðila okkar hérna í bænum. Við vorum búnir að taka eftir því að hann ætlaði að opna aðra sýningu þar 1 desember og urðum eiginlega svolítið fúlir vegna þess að samningurinn var að hann væri með sýningu hjá okkur út desember. Einkennlegt að hafa tvær sýningar á sama tíma plús það að hann er með opið galleríið sitt. Þrjár listasýningar eftir sama listamann í þessu litla þorpi. Ég varð svo fúll að ég sagði honum að hann væri að koma mér í mikið uppnám og þetta gerði mig verulega fúlan og hann gæti bara hipjað sig með allar myndirnar strax og svo labbaði ég í burtu. Hann tók allar myndirnar og skyldi eftir 2 þar af aðra sem við höfðum tekið frá fyrir okkur plús 3 aðrar sem voru seldar. Mér var skapi næst að setja allar þessar myndir út á stétt út fyrir lóðarmörkin okkar, gerði það nú sem betur fer ekki. Við fórum svo bara í að setja upp okkar eigin myndir og staðurinn var orðinn mjög fínn seinnipartinn.

Svo var það kokkurinn, hún Karen. Hún var búin að suða og suða um að fá frí alla helgina og við höfðum sagt nei og aftur nei. Það yrði mikið að gera og við gætum ekki misst hana. Lofuðum að keyra hana snemma heim á laugardeginum og hún gæti svo fengið frí á sunnudeginum. Hún mætti ekki á laugardeginum og kom með ótrúlega sögu um hvað sonur hennar hefði gert ........ og stungið svo af og væri horfinn Get ekki sagt þetta. Hún alla vegna mætti ekki þannig að við vorum á haus. Hún er mætt aftur til vinnu og fullyrðir að hún hafi ekki verið að búa þessa sögu til bara til að komast í frí. Það má eiginlega segja að kokkarnir okkar hafi sjálfir ákveðið að við skyldum loka í hádeginu í miðri viku, Diana með illa tímasettu andláti eiginmannsins og Karen með þessa líka sögu og að mæta ekki. Við vorum svosem búnir að ákveða þetta, en vorum bara ekki búnir að tilkynna það ennþá.

Svo var það hún Gleði sem er heima núna og sjúkraskrifuð út þennan mánuð í taugaáfalli. Við erum búnir að hafa eina ráðstefnu þessa viku og mjög stóran hóp með árshátíð. Þegar við fórum að skoða pappírana og allan undirbúninginn fyrir ráðstefnuna kom í ljós að það var eiginlega ekkert undirbúið og allt í steik, ekkert skrifað niður, engin fyrirframgreiðsla o.s.frv. Bói hringdi þá um kvöldið í Gleði frekar fúll og spurði um pappírana og hvernig undirbúningurinn væri. Hún gat litlu svarað, þannig að við fórum í það að leita að samskiptum á tölvupóstum, en því miður var fullt af þessum undirbúning gert í gegnum síma og ekkert skráð eins og reglan er að sé gert. Hún kom daginn eftir til vinnu í uppnámi, skellti skápum og hurðum, fór svo til læknis og fékk vottorð um að vera frá vinnu út þennan mánuð vegna stress einkenna. Gabriel maðurinn hennar kom hingað og sótti hana. Hafði haft áhyggjur af því að hún myndi fyrirfara sér (Hann var á leiðinni til Paarl þar sem hann er á þriggja mánaða námskeiði, en kemur heim um helgar) og hætti við að fara á námskeiðið. Hann var titrandi reiður og að sagði að enginn kæmi svona fram við konuna hans. Bói var bara rólegur og sagði að því miður hefði Gleði bara ekki gert vinnuna sína og þetta væri hótelið okkar og við hefðum áhyggjur ef hlutir væru ekki skipulagðir eins og vera ber. Ég fór inn svo og átti smá samtal við Gleði, finnst vænt um hana og sagði henni að drífa sig bara heim og vera ekkert að hugsa um GL. Bara hvíla sig og slaka á. Höfum verið á fullu í tiltekt hérna á skrifstofunni og að pikka upp þræði sem, bókunum sem hefur ekki verið sinnt, ráðstefnum sem hafa ekki verið undirbúnar og fleira og fleira. Eiginlega bara fínt að hún sé í burtu vegna þess að við þurftum að ná þessari skrifstofu í lag og erum langt komnir með stóran hluta af því.

Hér var svo árshátíð í gær sem tók meira og minna yfir allt hótelið. Við vorum með tónleikana og árshátiðargestirnir voru að spila Bulls (stálkúlum sem er kastað eitthvað). Virkaði ágætlega saman, þó svo að við sæjum fílusvipinn á nokkrum pipruðum kellingum yfir hávaða pg truflunum. Við höfðum nú ekki miklar áhyggjur af því, enda erum við ekki að græða neitt á þessum tónleikum, en innkoman okkar er miklu meira frá svona veislum og ráðstefnum. Eldhúsið var ekkert sérlega vel undirbúið, og eiginlega bara frekar illa. Kokkarnir höfðu ekki fengið réttan matseðil einu sinni þannig að það var svosem varla hægt að kenna þeim algerlega um þetta. Þetta kostaði það að við báðir þurftum að vera inni í eldhúsi að hjálpa til og reyna að flýta öllu eins og hægt var. Það gekk allt meira og minna bara vel upp. Svo var disko á eftir sem Oliver (fyrrverandi garðyrkjumaður okkar) var með. Hann var með einhverja tvo vini sína með sér og þeir drukku held ég fyrir meira en þeim var borgað fyrir að þeyta plötum. Þetta varð seint kvöld, ég gafst upp um eitt leitið en Bói var afram til 3 þegar við lokuðum.

Allur gærdagurinn fór í akstur hjá mér. Lagði snemma af stað til Somerset West og Stellenboch. Ástæðan var sú að þessir ráðstefnu gestir höfðu sagt að þeir vildu ekki Hake (ýsu), heldur Kingklip og hann þurtum við að panta frá Stellenboch og hann átti að sendast til Hermanus þar sem grænmetis dreifiaðilinn okkar myndir taka hann og koma honum til okkar. Því miður var grænmetiskallinn of snemma á ferðinni eða fiskikallinn of seint þannig að ég þurfti að sækja fiskinn sjálfur. Til að toppa þetta þá kom svo í ljós þegar ég kom með fiskinn heim að þetta var frosinn fiskur, sem við hefðum alveg eins getað keypt í næstu búð og svo var þetta yellow tale en ekki Kingklip, og eins og það sé nú ekki nóg þá voru bara 4 árshátíðargestir sem vildu fisk. Fannst þetta vera frekar mikið haft fyrir þessu, en þetta hafði nú hún Gleði okkar skipulagt svona. Átti svo sem erindi líka svo að ferðin var notuð. Keypti eina nýja útihurð í Somerset West, nokkrar gardínur, lampaskerma og fleira smátt ásamt því að fara í banka að taka út peninga fyrir launum. Ég er að fullu að undirbúa breytingar á herbergjunum en hef því miður ekkert komist í þau ennþá, vegna starfsmanna vandamála og eins hvað það hefur verið mikið að gera. Er samt búinn að vera að versla og málningin er komin, ein ný hurð ásamt fleiru smáu þannig að þegar við byrjum getum við vonandi unnið hratt.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hafið það gott. Kveðja frá Íslandi
Systurnar

4:57 pm  
Anonymous Anonymous said...

Maður á að blogga eftir hjartanu og fyrir sjálfan sig en ekki aðra... Fólk getur þá bara fundið sér eitthvað annað að lesa ef það getur ekki notið þess sem kemur frá manns eigin hjarta.

Það eru bestu "bloggin".
Ykkar blogg er í alla staði gefandi,fræðandi og tilfinningaríkt. Maður kynnist ykkur betur, kynnist annari menningu og maður getur ekki annað en staðið með ykkur í anda.
Gangi ykkur vel!
Árni Sal

3:17 pm  

Post a Comment

<< Home