Sunday, November 13, 2005

Frídagar

Fórum í burtu í þrjá daga í byrjun vikunnar. Fyrst eina nótt í Swellendam þar sem við eyddum deginum með bókaranum okkar. Erum að gera upp fyrsta árið okkar hérna og VSK´inn. Höfum ekki gert upp VSK síðan við tókum við og erum þar af leiðandi allt of seinir og búnir að vera á undanþágu eftir undanþágum. Gekk allt saman vel upp. Síðan fórum við upp til George til að hitta nýjan vefstjóra. Hann hannaði vefsíðu fyrir súkkulaðiverksmiðju sem er hérna í þorpinu og sú síða hefur víst unnið margar viðurkenningar og verðlaun fyrir hönnun. Slóðin er www.vgchocolate.co.za Mér fannst hún alla vegna það vel hönnuð að ég dró Bóa með mér alla leiðina upp til George til að hitta hönnuðinn.

Þegar við komum til George rétt fyrir 7 o keyrðum inn í bæinn, byrjuðu viðvörunarljós að blikka og æpa. Bílinn hafði þá ofhitaði sig (BMW) Við keyrðum inn á fyrsta bílastæði og ég opnaði húddið, þýddi ekkert að opna fyrir vatnið til að tékka vegna þess að það bara sauð upp úr. Svo það var ekkert hægt að gera nema bíða. Þá allt í einu kom maður útúr næsta húsi og horfði eitthvað á okkur og spurði hvort við værum í vandræðum, Það vildi svo til að þetta var eigandi BMW umboðsins sem við vorum staddir fyrir utan. Hann bað okkur um að keyra bílinn inn á verkstæðið þar sem verkstæðisformaðurinn bauðst til að laga bílinn daginn eftir. Eigandinn keyrði okkur svo á hótelið þar sem við ætluðum að gista “French Lodge” (heimasíðan þeirra er hönnuð líka af sama fyrirtæki, reyndar ekkert spes að mínu mati, en þjónar sínum tilgangi). Þar var full bókað þessa nóttina en laust næstu svo við bókuðum hana alla vegna. Eigum minningar frá þessu hóteli þar sem við vorum fyrstu gestirnir þeirra og gistum þá í næstum viku hjá þeim. Okkur var svo keyrt á annað gistiheimili þar sem var laust herbergi. Vorum reyndar bíllausir sem er slæmt vegna þess að leigubílaþjónusta hérna er afleit ef hún yfirleitt er til staðar og rándýr þar að auki. Þarna var reyndar leigubílaþjónusta sem virkaði ágætlega þannig að þetta var ekkert vandamál.

Daginn eftir fórum við svo og hittum vefstjórann. Hann kom vel fyrir og talaði tungumál sem ég skyldi og greinilegt að hann kunni mun meira en ég um vefsíðu hönnun. Eitthvað annað en þetta fyrirtæki sem hannaði síðuna okkar sem virkar mjög illa. Við alla vegna tókum ákvörðun um að láta þetta í hans hendur ásamt því að hanna bækling handa okkur. Höfum haft úrelta bæklinga frá fyrri eigendum og það er ekkert lengur eins og myndirnar í bæklingnum sýna. Þetta verður trúlega tveggja vikna vinna, þannig að ég læt ykkur vita þegar ný síða fer í loftið.

Seinni partinn fórum við svo og sóttum bílinn sem var kominn í fínt lag aftur. Vorum mjög þakklátir fyrir þessa góðu þjónustu og eiginlega vorum við fullvissir um að loksins væri “heppnin” komin til okkar aftur, Daginn eftir fórum við svo að hitta Allan Oates (dreifiaðila Össurar hf í SA). Ég vann mikið með honum áður en ég hætti hjá Össuri, enda var Afríka einn af mínum mörkuðum. Gaman að hitta hann og heyra sögur af Össuri. Hef ekkert verið í sambandi við neinn frá Össuri nema Kollu, (þ.e.a.s. ef hún vinnur þar ennþá) Hann var einmitt að koma frá Ástralíu þar sem hann hafði hitt Harvey Blackney (sem er dreifiaðili Össurar í Ástralíu og ég vann líka mikið með). Fékk allar sögurnar af honum líka. Svo bauð hann mér að koma á námskeið sem Össur ætlar að halda í byrjun Desember, þar sem kemur m.a. Marlo Ortiz (dreifiaðili Össurar í Mexico, sem var líka minn markaður), Richard Hirons og Toby Carlson sem vinna báðir hjá Össuri. Ég hugsa að ég skelli mér, ekki á námskeiðið heldur til að hitta þá yfir dinner. Held það verði gaman að hitta gamla félaga aftur.

Svo var keyrt í einum strekk heim aftur. Komum rétt um 7 leitið tilbaka. Þetta er langur akstur. Heilsan hefur verið góð hjá Bóa, en ekki alveg eins góð hjá mér. Geðheilsa mín er bara alls ekki góð. Ég er uppstökkur, viðkvæmur, kvíðinn og eiginlega manna fælinn. Bói setti mig í straff um helgina og bannaði mér að vinna. Ég sat heima alla tónleikana sem voru á föstudaginn. Þetta voru víst frábærir tónleikar. Það byrjaði að hellirigna á þeim miðjum. Það var ekki eins og það kæmu nokkrir dropar til að vara fólk við, nei það var bara hellt úr fötum án viðvörunar.

Bói sagði fólki bara að taka stólana með sér inn í Gallerí og það héldu tónleikarnir áfram. Það var ekki auðvelt að sitja heima og vita af þessu. Svo var fullbókað í mat bæði á föstudag og laugadag. Ég fór út nokkrum sinnum til að tékka á því hvort það væri ennþá fólk fyrir utan við borðið okkar, vildi ekki hitta neinn. Um 9 leitið voru allir farnir svo að ég skrölti þá og sat hérna fyrir utan restina af kvöldinu. Sama í gær, ég sat reyndar fyrir utan allt kvöldið og var ekkert að forðast fólk, en vann ekki neitt. Fer til læknis við fyrsta tækifæri og athuga hvort það sé ekki hægt að fá einhver lyf til að lyfta mér aðeins út úr þessu.

Þessir dagar sem við vorum í burtu voru mjög góðir fyrir okkur þrátt fyrir að þetta hafi verið svona mikið vinnutengt. Við náðum að ræða mikið saman og skoða hlutina úr fjarlægð. Skemmtum okkur vel við að fara út að borða og fylgjast með því hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á öðrum stöðum. Gestirnir voru alveg jafn dónalegir og við höfum séð hjá okkur og það voru allskonar mistök að gerast sem við sáum, enda fylgdumst við með næstum því eins og við gerum hérna á hverju kvöldi. Tókum eiginlega ákvörðun um að loka veitingastaðnum fyrir hádegismat í miðri viku, til að létta álagið á eldhúsið og eins á okkur. Erum samt aðeins að melta þessa ákvörðun áður en við hrindum henni í framkvæmd. Svo er ég kominn með nýtt starf hérna. Þarf reyndar samt að eyða 1-2 klst á dag í tölvu og bókhald alla vegna næstu tvo mánuðina. Nýja starfið mitt verður að taka herbergin í gegn. Ætla að taka þau fyrir eitt og eitt, mála og endurraða og gera þau smart. Strax búinn að taka ákvörðun um að breyta verðskránni okkar sem enginn skilur, enda eru flest herbergin svipuð að stærð. Það verða þrjú verð, eitt fyrir tveggja manna herbergi, annað fyrir De-luxe herbergi sem verða öll með “four poster” (himnasæng?) rúmi og svo það þriðja sem verður fyrir svítu. Í leiðinn hækkum við svo verðin. Höfum tekið eftir því að eftir því sem herbergin eru ódýrari þeim mun erfiðari (leiðinlegri og dónalegri) gesti fáum við. Þetta er svolítil áhætta en við verðum bara að sjá til hvernig það gengur. Ég alla vegna hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni.

Það eru búin að vera mikil rafmagns vandamál hérna á öllu Cape svæðinu. Rafmagnið fór af öllum Cape Town og stóru svæði í kring, reyndar lengra en Greyton. Það fór allt í hnút, enda engin umferðaljós og umferðin er svakaleg seinnipartinn á föstudögum í CT. Rafmagnið fór svo aftur í gærmorgun í Greyton og það var rafmagnslaust til klukkan níu um kvöldið. Kom ekki mikið að sök, enda eldað með gasi, fullt af kertum og Ferdi var á píanóinu. Þetta var bara ennþá meira rómó. Tókum varla eftir því þegar rafmagnið kom aftur, enda var slökkt á öllum ljósum.

Núna er sunnudagsmorgunn og ég bauðst til að fara og opna og undirbúa kaffi fyrir gesti sem ætluðu að tékka snemma út, þannig að Bói gæti sofið út. Hann er þreyttur eftir helgina, enda staðið einn í þessum rekstri. Þannig að núna sit ég hérna og brosi og spyr hvort gestir hafi ekki sofið vel. Ekki það skemmtilegsta sem ég geri.

Við erum að fara til CP á eftir og ætlum að gista þar í tvær nætur. Það er stór hópur lögfræðinga sem vinna í stjórnsýslunni á Íslandi í heimsókn í SA. Búinn að ferðast um allt og þau buðu okkur að koma í loka dinnerinn þeirra sem verður haldinn í kvöld í CT. Hlökkum mikið til, enda verða þar gamlir kunningjar og það er jú alltaf gaman að hitta landa. Verður reyndar smá vinnuferð líka, enda þurfum við nauðsynlega að kaupa okkur sjóðsvélar. Hér hefur allt verið handskrifað, sem er víst ekki nógu gott skv. endurskoðandanum okkar. En að mestu leiti verður þetta frí hjá okkur. Erum staðráðnir í því að taka okkur 1-3 daga frí vikulega í einhvern tíma. Ætlum ekki að láta þetta hótel drepa okkur.

Staffið hefur staðið sig vel þegar við höfum verið í burtu og eiginlega getum við bara slakað aðeins á með því að fara í burtu nokkra daga í miðri viku þegar lítið er að gera. Gaman að sjá hvað stelpurnar eru fínar eftir að hafa farið með Gleði til Somerset West til að dressa sig upp. Þær eru alltaf núna að mæta í ei hverju nýju og virkilega smart oftast.

Ps. Kristján, Litla ljúfa syndin er komin í lag aftur. Kom í ljós að Diana hafði svindlað á uppskriftinni og ekki notað ekta súkkulaði. Þessi eftirréttur er geggjaður.......

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Elsku strákar! Mikið er gott að þið hafið farið aðeins ,,að heiman" en þetta er auðvitað alltof vinnutengt frí. Skil samt vel að það sé ekki hægt að gera þetta öðruvísi, maður er alltaf að nýta tímann. Mér líst ekkert á taugakerfið þitt elsku Villi.Passaðu þig bara að lenda ekki á lækni sem hrúgar í þig róandi lyfjum að ástæðulausu. Stundum eru það bara utanaðkomandi áhrif sem valda svona geðhrifum og þá á ekki að gefa lyf er mér sagt. Og er Guðmundur nokkuð farinn að vinna of mikið??? Mér líst vel á þessa ákvörðun hjá ykkur að fara burtu af og til og treysta staffinu fyrir hótelinu.Góða skemmtun í CT í kvöld og á morgun. Margir kossar og knús frá Önnu Kristine

9:27 am  
Blogger Ása Hildur said...

Elsku kútarnir mínir mikið er ég fegin að þið eruð alvarlega að hugsa um að loka restaurantinum í hádegin. Mæli með því í bili að minnsta kosti svo hann drepi ykkur ekki alveg.

Bestu fréttir sem ég hef fengið af ykkur lengi er að þið ætlið að fara að taka ykkur regluleg frí vikulega. Frábært. Líst vel á þetta með nýja veffyrirtækið.

Ástarkveðja Ása Hildur

11:31 am  
Anonymous Anonymous said...

Hæ elskurnar, var bara búin að bíða eftir að heyra frá ykkur... frábært hvernig þið hafið strax byrjað á að snúa áherslum aðeins við, alltaf að muna að við verðum ekki 180 ára að meðaltali, en það er eins og við förum með okkur samkvæmt því...Villi kíktu á persona.is, kannski getur það eitthvað hjálpað..góður fróðleikur.
Smá sending á leiðinni til ykkar, bók sem ég veit að ´þið hafið gaman af að lesa, mútta sendir svo eitt af sínum bréfum með...þannig að jólin koma snemma til ykkar..
Rigningarsunnudagur, búin að baka bunka af pönnukökum, væri það ekki tilvalið á matseðilinn, íslenskar pönnukökur?.. erum búin að selja jólahúsið okkar, og eftir áramót verður það sixtís stíllinn á einni hæð..gaman gaman...ástarkveðja frá öllum luv...Hafdís

2:10 pm  
Anonymous Anonymous said...

Sælir.
Hljómar vel að þið séuð aðeins farnir að hugsa um annað en vinnuna. Kíkti aðeins á þessa súkkulaði síðu og vildi bara kommenta smá. Þar er notað Flash til að koma hreyfingu á allt sem þykir voða flott af hönnuðum en stóri ókosturinn er að það eru bara ekki allir með þetta í tölvunum sínum og þá sjá þeir ekki neitt en fá oft leiðbeiningar um hvernig þeir geta uppfært tölvurnar sínar. Hönnuðum finnst þetta alveg sjálfsagt en venjulegt fólk uppfærir ekki tölvurnar sínar til að sjá svona vef. Keep it simple. Annars bara allt gott að frétta.
Kveðja
Palli og Frosti

8:50 pm  

Post a Comment

<< Home