Tuesday, May 17, 2005

Brjálað veður og nýtt heimili

Erum loksins fluttir. Herbergið er ekki mikid stærra en verbúðin (eins og við kölluðum hana) sem við bjuggum í um tíma á Grettó, en þvílíkt miklu huggulegri. Erum með borðstofu, stofu og svefnherbergi, allt í einu opnu rými. Okkur á eftir að líða mjög vel þarna. Mun heimislegra og hlutirnir okkar njóta sín mjög vel. Fyrsta nóttin var nú samt ekki glæsileg. Það er búið að vera svo svakalega hvasst og Kári á fullu að rífa og tæta. Það er mjög stórt pálmatré fyrir aftan herbergið okkar og Kári náði að rífa af því gamlar greinar sem hrundu niður á bárujárnsþakið með þvílíkum hávaða og svo fukur þær fram og til baka þannig að þessi hávaði hélt nú eiginlega vöku fyrir manni.

Um 3 leitið um nóttina, hringdi svo Öryggisgæslan okkar og tilkynnti okkur að það væru opnir gluggar á nokkrum herbergjum hjá okkur. Ég rauk á fætur til að loka gluggunum. Var í brjáluðu skapi, úrillur og illa sofin. Gekk um blótandi herbergisþernunni í sand og ösku meðan ég þreifaði mig áfram á milli húsa í þvílíku myrkri. Náði svo að sofna aðeins aftur. Fór svo á fætur að ná í staffið. Las yfir Gilitrutt alla leiðina hingað aftur. Hvort hún gerði sér grein fyrir því hvað við ynnum mikið, frá 7 á morgnanna þangað til seinasti gestur fer. Og hvað maður þyrfti nú mikið á svefninum sínum stutta að halda og hefði ekki þörf fyrir að Öryggisgæslan vekti mann upp um miðjar nætur vegna þess að hún hefði ekki gert vinnuna sína almennilega. Sama gerðist fyrir tæpri viku síðan, en þá var það Ami sem hafði gleymt að loka og læsa einu herberginu. Þá var ég ræstur út um miðja nótt líka. Las yfir honum þá líka. Í gær gleymdi svo hin herbergisþernan að loka tveim gluggum. Við fórum í eftirlitsferð eftir að þær voru farnar heim til að tryggja að maður yrði nú ekki ræstur út aftur um miðja nótt.

Fór svo í eftirlitsferð um svæðið til að sja´hvort það hefðu orðið einhverjar skemmdir. Hurð hafði fokið upp á einu herberginu og gluggar í henni brotnað ásamt því sem hurðin var löskuð. Allir stólar, sólhífar og borð í garðinum var á hvolfi dreifð um allt. Alla vegna þrjú tré brotnuðu, þar af eitt Jakarandatré sem var fyrir framan bygginguna. Vorum nú eiginlega samt bara fegnir að það hefði brotnað. Fannst það alltaf vera á vitlausum stað og skyggði á hótelið. Jæja, Ami er búinn að vera á fullu í viðgerðum í gær og í dag. Það var talsverður hávaði í veðrinu í nótt líka, en samt ekkert á við fyrri nóttina, þannig að við sváfum bara mjög vel.

Það er búið að vera mjög rólegt hérna og lítið að gera. Erum að spara og því með lágmarksmannskap. Engan kokk á morgunvaktinni. Þeir koma ekki fyrr en klukkan 3 í vinnu, þannig að maður þarf að kokka mat fyrir staffið og ef svo ólíklega skyldi nú vilja til að einhver gestur druslaðist inn. Þetta er víst mjög rólegur tími hérna er okkur sagt. Vetrarveðrin geta víst verið svona hérna með alveg hífandi roki. Staffið okkar segir að þetta veit á slæman vetur hérna. Veit ekki hvort eitthvað sé til í því. Það er alla vegna hlýtt núna. Var 18 gráður í morgun og fer hlýnandi. Sólin skín og það verður sjálfsagt mjög hlýtt í dag þegar vindurinn fer að róast.

Í dag er skrifstofudagur, ekki það skemmtilegasta sem ég geri. Ætlum svo að fara seinni partinn til hennar Jenny í “drinky poo”. Höfum ekki komist spönn frá rassi í langan tíma og hlökkum því mikið til að komast til hennar, þótt það verði bara í einn eða tvo klukkutíma. Finnst við vera í fríi þegar maður kemst svona aðeins út af hótelinu.

Lovísa, dóttir mín er að koma í júlí í frí til okkar með barnabarnið okkar. Get ekki lýst því hvað við hlökkum mikið til. Höfum saknað þeirra svo ótrúlega mikið, þá sjaldan maður hefur yfirleitt tíma til að hugsa heim. Það er yfirleitt aldrei tími til að hugsa um neitt annað en reksturinn hérna.

Gunni og Jóhanna komu hérna í gær til að kveðja. Gunni er farinn heim og væntanlega að lenda á klakanum í skifuðum orðum. Jóhanna ætlar að vera hérna áfram. Býr hjá Hermann og Philipus og ætlar að vinna áfram í að byggja upp sambönd hérna við birgja. Þau stefna á innflutning á vörum héðan til Íslands.

Staffið er mikið að spyrja um Gússý. Greinilegt að þeim var mjög hlýtt til hennar. Endilega sendu þeim línu Gússý mín. Bara svo þau viti að þu hafir komist heim heil á höldnu

4 Comments:

Blogger Ása Hildur said...

Hæ hæ elskurnar mínar mikið er alltaf gaman að fylgjast með blogginu ykkar endilega haldið því áfram.
Gaman væri að fá nánari lýsingu á íbúðinni ykkar er þetta útihús eða inní aðalbyggingunni eða hvað...........

Sakna ykkar alla daga og kíki daglega á bloggið stundum oft á dag.
Kveðja frá Fróni Ása Hildur

3:40 pm  
Anonymous Anonymous said...

Sæll Villi minn. æðislegt að geta fylgst með ykkur þarna svona langt í burtu, var að lesa viðtalið við ykkur í Mbl., myndin af ykkur er tekin meðan ljónin voru fyrir framan hótelið, svo er mynd af ykkur Bóa og Hólmfríði.Eftir lestur viðtalsins,hugsar maður:
"Nýr möguleiki Afríka"
Hér er vorið komið, en samt kalt á næturnar, Gangi ykkur áfram vel.
Esther

1:45 pm  
Anonymous Anonymous said...

hæ beibs...
yndislegt að skríða framúr í gær opna moggann og bestu vinirnir mínir blasa við mér...frábært.
flott auglýsing og gott fjarviðtal,
var fyrir utan Grettó í fyrrakveld, kíkti nú upp á svalir en... þetta eru ekki lengur "ykkar" svalir, vantar allt dótið, plöntur og fleira..
Mútta byrjuð í garðinum hjá sér, berfætt að vanda, allt í fína hjá henni, er að reyna að plata hana með til DK í ágúst í viku með Lóu/Þránni og Rannveigu...
missjú
over and out Hafdís

9:18 am  
Blogger SOS.SA said...

Hæ Ása mín

Setti inn smá meiri lýsingu á húsinu sem við búum í. Set inn myndir seinna. Værirðu kannski til í að senda okkur eitt eintak af Mogganum með viðtalinu við okkur. Hugsum líka oft til þín og söknum þín.

Takk fyrir falleg orð Esther. Gaman að heyra að viðtalið hafi komið svona vel út. Skilaðu kveðju til Rauða kross félaganna.

Hæ Hafdís
Takk fyrir að vera svona dugleg að setja komment með fréttum að lífinu heima. Söknum þín líka. Af hverju ekki að koma með múttu hingað frekar en að fara til DK? Mútta hefði gaman af því að sjá garðinn hérna, og það eru endalaus verkefni í honum ef hana langaði til að vera berfætt hérna á brjóstahaldaranum.

9:30 am  

Post a Comment

<< Home