Sunday, November 05, 2006

De Rust og heimsókn til Volga

Áttum yndislegt frí hjá Volga uppi í De Rust. Byrjaði nú ekki vel og gekk á ýmsu með bílinn. Ég náði Bóa ekki útaf hótelinu hérna fyrr en um keter yfir þrjú. Ég var búinn að vera á hlaupum allan morguninn (og reyndar hann líka) að undirbúa allt og gera klárt svo við gætum farið. Ég var búinn að segja honum að ég vildi ekki keyra í myrkri. Gátum ekki farið á Bimmanum vegna þess að Tvö dekk höfðu sprungið fyrr um morguninn og það þurfti að endurnýja þau. Fórum þess vegna á Land Rovernum sem er ekki eins þægilegur ferðabíll á svona langt ferðalag. Þurftum að koma við í bankanum í Caledon vegna þess að við vorum ekki með neitt reiðufé. Ég var búinn að segja Bóa að bankinn lokaði klukkan 3 en Anne leiðrétti mig og sagði að hann lokaði ekki fyrr en 4. Þegar við loksins komum til Caledon, kl. Korter í fjögur var bankinn lokaður. Lokar hálf fjögur. Ég var brjálaður og svo reiður að ég vildi ekki einu sinni tala við Bóa. Hringdum í Jocko sem kom með reiðufé handa okkur þannig að við ættum nú fyrir bensíni og gátum svo loksins farið af stað að ganga 5.

Þetta er löng leið. Þegar við vorum komnir hálfa leið byrja að dimma. Og stuttu seinna biluðu ljósin á Land rovernum. Engin aðalljós, engin háum ljós nema ég héldi takkanum inni. Ekki séns að fá neina viðgerð og öll öryggi í lagi. Never mind. Við ákáðum að keyra áfram með háu ljósin sem ég þurfti að halda inn með annarri hendinni. Þurftum að fara yfir fjallaskarð sem var mjög bratt og hlykkjótt. Sem betur ekki mikil umferð en þeir fáu sem við mættum voru að blikka okkur eða settu bara háu ljósin á okkur á móti. Miðstöðin biluð og enginn hiti í bílnum, skítakuldi, rigning og þoka. Ekki skemmtilegt ferðalag og skapið í mér var skelfilegt, (grey Bói).

Við komum til De Rust að ganga 10 um kvöldið og svakalega var gaman að hitta Volga aftur. Við kjöftuðum útí eitt og vöktum frameftir. Ég reyndar gafst upp um eitt en þau héldu áfram. Sama annað kvöldið. Áttum yndislegan dag hjá henni. Bara að slaka á og njóta samverunnar. Við komum með 10 kveikjara sem við gáfum Volga, sem var aðalmálið. Bói náttúrulega náði að stela aftur obbanum af þeim og það voru kveikjarar í öllum vösum okkar þegar við fórum. Hún var orðin svo þjófahrædd að hún faldi fullt af dótinu sínu, vegna þess að hún var hrædd um að Bói myndi stela. Hún var nú svosem ekkert betri. Hún meira að segja stal lyklunum af Land Rovernum vegna þess að hún vildi ekki að við færum. Svo fann hún ekki fullt af dótinu sem hún hafði falið vegna þess að hún mundi ekki hvar hún hafði falið það og ásakaði okkur um að hafa stolið því. Hún meira að sega hringdi hingað á hótelið í Anne og bað hana um að vera viðstadda þegar við kæmum til að athuga hvort við værum með eitthvað af hennar dóti í farangrnum okkar. Oh, þetta var bara yndislegt og mjög gaman.

Við lögðum svo af stað hingað um hálf tvö og það var keyrt mjög hratt vegna þess að það voru engin ljós á bílnum og við þurftum að komast hingað fyrir myrkur, sem rétt tókst. Búið að vera fullbókað um helgina og brjálað að gera. Allt gengið mjög vel og best af öllu að allt gekk vel meðan við vorum í burtu. Ættum því að geta gert þetta aftur og þá vonandi meira en tvær nætur í burtu og ekki svona langur akstur. Takk öll fyrir kommentin. Það vermir alltaf.

3 Comments:

Blogger Ása Hildur said...

Hæ hæ

Frábært að heyra að þið létuð verða af fríinu. Og allt gekk vel á meðan ;-)

Endilega gerið þetta reglulega. En passið ykkur á að gera þjófaleikinn ekki að lífsmunstri.

Ástarkveðjur frá Íslandi sem var að ljúka einu versta fárviðri í mörg ár. Við urðum nú ekki mikið vör við það inni í steinsteypunni, undir sæng við kertaljós og rómantík.

En leiðinlegu fréttirnar eru að gamla tréð við Sóleyjargötuna rifnaði upp með rótum ;-(

Kiss kiss og knús knús Ása Hildur

11:06 pm  
Anonymous Anonymous said...

hæ kallarnir mínir, gott að fá smá blogg,héðan er allt fínt að frétta, gerist ekki mikið þessa dagana, jú ég hengdi upp baðhengi...ég á heima í lauflaðagreni núna, allt þakið heima í tilvonandi rotnandi laufblöðum, eina sem er enn með lífsmarki er skógartoppurinn og skrautkálið, ekki mikil litaflóra eða dýrð í gangi þar.
Allir hressir og frískir,amma dreki er nýhætt að vera berfætt út í garði,en eins og hún segir, líður henni best þegar hún er héluð á bringunni...Bestu vinkonur í heimi eru auðvitað Hera og amma....jæja ég ætla að skella mér í grjónagraut og slátur hér í vinnunni,þjóðlegir dagar í eldhúsinu, og ég sem er á gulrótarkúrnum....ástarkveðjur og farið vel með ykkur luv. Hafdís

12:16 pm  
Anonymous Anonymous said...

Mikið er þessi þjófasaga krúttleg! Þetta finnst mér nú bara efni í bók, svona þjófhrætt fólk verður virkilega fyndið! Gott að þið komust klakklaust fram og til baka og gátuð notið ykkar. Lengra frí næst takk. Afhverju farið þið ekki til Port Elizabeth og heimsækið Unni Berglindi, skoðið strútabúgarðinn og látið hana dekra við ykkur? Það væri nú frí í lagi!!! Jólasnjórinn kom í morgun, sýnist hann vera farinn aftur. Er að fara í kistulagningu, 90 ára krúttlegur frændi minn, vinur og læknir var að deyja og fjölskyldan vill endilega að ég verði viðstödd. Er nú ekki vön kistulagningum, sem betur fer. Hef bara farið í eina (pabba). Svo er ég að skipuleggja mótmælafund á Lækjartorgi laugardaginn 25.nóvember kl.16. Mótmæla því að refsiramminn gegn nauðgurum er ekki nýttur. Allir sem lesa þetta blogg mæti!!! Plís, fyllum torgið af konum og körlum. Magga Pálma syngur með kór og líklega Fóstbræður með hennar kór Snert hörpu mína... Logandi kyndlar og þögul mótmæli. Allir að mæta, nú er okkur nóg boðið! Knús og fullt af kossum, Anna í neðanjarðarhreyfingunni

1:41 pm  

Post a Comment

<< Home