Thursday, December 10, 2009

Jólagjöfin okkar í ár

Við Bói gefum hvor öðrum ekki jólagjafir. Jólagjöfin okkar er að bjóða yngstu bekkjunum úr grunnskólanum í sund hjá okkur, pylsur, gos og ís. Það komu um það bil 130 börn í ár með börnum starfsfólksins okkar í tveimur hollum. Þetta er svakalega mikil upplifun fyrir krakkana. Mörg af þeim koma frá afar fátækum fjölskyldum og eiga varla í sig né á. Jólin eru erfiður tími fyrir þau vegna þess að það er lítið um peninga og oft matur af skornum skammti. Þess vegna er þetta eitthvað sem þau hlakka mikið til að koma til okkar. Bói klæddi sig upp í jólasveinabúning og sagði þeim sögur af íslensku jólasveinunum. Eigum eina bók á ensku sem heitir yulelads og þetta er vinsælasta bókin okkar. Krakkarnir eru heillaðir af myndunum og sögunum af Grýlu, Leppalúða, jólakettinum og jólasveinunum. Þetta var mjög gaman og falleg jólagjöf.

Við vorum svo með „þrif“ dag um daginn þar sem allt starfsfólkið fór í garða og málningar vinnu. Það var afkastað alveg ótrúlega miklu þennan dag og við enduðum svo á „braai“ (grilli). Allt starfsfólkið elskar þennan dag vegna þess að við erum að gera eitthvað allt annað en við gerum vanalega og svo endum við á að fá okkur bjór og skemmtum okkur vel.

Starfsmannamálin...... Ja, við erum búnir að vera án þvottakonu núna í nokkrar vikur, enda bara hvarf hún án þess að láta heyra í sér. Hún kom nú um daginn og lét okkur vita að hún væri alvarlega þunglynd og væri komin á lyf. Hún sagðist ekki vera hætt, en vildi bara ekki að allt starfsfólkið sæi hvað henni liði illa. Jæja, við erum komnir loksins með aðra þvottakonu þangað til Petro D kemur aftur. Vonum svo sannarlega að hún komi aftur vegna þess að hún er alger gullmoli. Viðgerðarmaðurinn var frá í rúmar tvær vikur. Hafði dottið í það og dottið og brotið rifbein. Blessaður kallinn, áfengi fer soldið illa með hann. Hann er yfirleitt orðinn blindfullur eftir bara einn bjór og það tekur hann langan tíma að ná því úr kerfinu. Það hefur nú komið þó nokkuð oft fyrir að hann mæti ekki vegna þess að hann sé fullur. Við höfum nú bara sætt okkur við það vegna þess að hann er svo hörkuduglegur þegar hann mætir. Það er að segja ef hann er ekki fullur þegar hann mætir. Þá sendum við hann heim. Hilca-Ann fékk að gista hér í einu hótelherberginu fyrir nokkru síðan. Tilgangurinn var að hún ætlaði að láta afmeyja sig. Merkilegt hvað hún getur verið opinská, sérstaklega við Bóa. Jæja það tókst nú heldur betur, enda er hún núna orðin ólétt. Hún er með góðan kærasta og mamma hennar (Louna) er í skýjunum, þannig að þetta er hið besta mál

5 Comments:

Blogger Ása Hildur said...

Gott að sjá að þið eruð farnir að blogga aftur kæru krúttboltar.

Jólakveðja Ása Hildur

10:58 pm  
Anonymous Anonymous said...

Elsku strákar mínir! Mikið er gaman að sjá að þið eruð farnir að blogga aftur og hljóðið bara nokkuð gott í ykkur! Hér er allt í rólegheitum, FÁÚÞ sem fór yfirum á aðventunni 1999 er byrjuð aftur í útvarpi á sunnudagsmorgnum. Þið getið kannski hlustað gegnum netið, www.utvarpsaga.is
og klikkið bara á ,,on air" - er milli 9 og 11 á sunnudagsmorgnum ísl.tíma, semsagt Milli mjalta og messu. Er samt ekki orðin ÁÚÞ og verð líklega ekki úr þessu. Þið standið ykkur vel elskurnar eins og ykkar er von og vísa. Sendi mikið knús. Ykkar alltaf vinkona Anna Kr.

4:13 pm  
Anonymous Anonymous said...

Elsku strákar, alveg eruð þið til sóma í ykkar stétt. Mér finnst þetta mjög smart af ykkur - þetta með sundlaugina og boðið. Þið eigið örugglega eftir að uppskera vel fyrir það. Jóla- og áramótakveðja frá okkur Þurý.
Systir Sigurjón

2:39 pm  
Anonymous Anonymous said...

Gleðileg jól og gott nýtt ár. Kveðja frá Noregi maggi og Birna

6:22 pm  
Anonymous Anonymous said...

Sælir vinir!
Mínar bestu jólaóskir til ykkar.
Flott hjá ykkur með karkkana, þið eruð sannkallaðir jólasveinar og englar.
Kristján.

11:15 am  

Post a Comment

<< Home