Sunday, May 07, 2006

Nágrannar frá helvíti....

Nágrannarnir frá helvíti eru búin að vera að gera okkur klikkaða. Fyrir viku síðan voru þessi líka svaka læti og hávaði frá þeim að við vorum skíthræddir um að þau mundu halda vöku fyrir gestunum okkar. Þau öskruðu á hvort annað út í garði, svo var sparkað í hurðina, brotinn gluggi og ég veit ekki hvað. Við voru soldið óöruggir með hvað við ættum að gera svo við gerðum ekkert. Ekki gott að byrja samlíf með nýjum grönnum með því að hringja á lögguna. Hann kom svo hérna um morguninn daginn eftir að baðst afsökunar á þessum látum og lofaði að það myndi ekki gerast aftur. Sagði að það hefði bara verið svo mikið stress og álag á þeim og þau mundu róast. Hann sagði að frúin væri í bænum. Við sáum frúna ekki í heila viku. Svo kom hún hingað, haltrandi fyrir 2 dögum síðan með glóðarauga, marbletti og axlarbrotin. Hún hafði flúið til einhverjar vinkonu sinnar í Franschouk og verið það í einhverja daga og svo kærði hún manninn sinn og setti nálgunarbann á hann. Við vorkennum henni heil ósköp. Hún gistir núna hjá okkur vegna þess að hún var óörugg að vera ein í húsinu. Hún er að gera okkur vitlausa. Hún drekkur allan daginn og situr yfir okkur og svo samkjaftar hún ekki allan tímann. Ég gafst upp í gærkvöldi þegar hún var búin að sitja við borðið okkar síðan klukkan 2 um daginn. Ég sagði henni að þetta væri orðið gott, ég hefði ekki fengið eina mínútu með manninum mínum og við værum þar að auki að vinna líka og þyrftum á okkar tíma saman að halda. Hún hipjaði sig strax inn á herbergi. Volga hafði komið um daginn og Bói læddist með hana upp í bókasafn til þess að forðast frúna. Marise og Neil voru hérna í dinner í gærkvöldi og eru nú vön að setjast með okkur í einn drykk eða svo, en vegna þess að frúin var þarna, létu þau ekki sjá sig. Þetta er akki auðvelt að hafa svona gesti.

Svo er einhver perri farinn að venja komur sínar hérna og hangir upp á bókasafni allan daginn að glápa á svónvarpið. Hann er nú svosem að versla þannig að það er nú ekki mikið hægt að gera. Hann hefur verið að bjóða þjónunum að fá sér drykk með sér, sem þær hafna, náttúrlega. Enda er kallinn með lillann á sér úti og er að ögra stelpunum. Einhvern veginn tekst honum að koma lillanum inn alltaf þegar ég kem upp í bókasafn. Við höfum sagt stelpunum að fara ekki upp í bókasafn að bjóða honum eitthvað, hann verður bara að standa upp og fara á barinn ef hann vill eitthvað. Vonandi verður hann ekki daglegur fastagestur hérna.

Hér hefur verið ágætt að gera. Við höfum tekið ákvörðun um að loka ressanum miðvikudaga og fimmtudaga, vegna þess að það er svo lítið að gera á þessum dögum. Þetta er gert í sparnaðarskini og eins til þess að við getum fengið eitthvað smá frí. Verður reyndar ekki algert frí vegna þess að við þurfum að vera hérna og gera pantanir, taka símann og svara tölvupósti. Held það verði frábært að hafa ekki starfsfólk hérna þessa daga og geta átt kvöldin algerlega fyrir sig. Maður getur farið að elda fyrir sjálfan sig aftur. Höfum ekki getað gert það í langan tíma, vegna þess að það er alltaf eitthvað að gera í eldhúsinu og við höfum enga eldunaraðstöðu heima. Við hlökkum mjög mikið til.

Nú er farið að styttast í að Lovísa og Gabríel fari. Ég fer með þeim til Cape Town á miðvikudaginn og svo fljúga þau á fimmtudaginn til London. Það hefur verið yndislegt að hafa þau hérna og við eigum eftir að sakna þeirra mikið. Því miður hefur ekki verið mikill tími til að gera eitthvað með þeim vegna anna á hótelinu, en þau hafa nú samt haft það gott hérna. Gabríel er farinn að tala ensku sem á eftir að koma honum til góða þegar þau flytja til London.

David Alder (söngvarinn) á 70 ára afmæli í dag og verður með veislu hérna hjá okkur í hádeginu. Ca 60 gestir og við bjóðum upp á allan matinn og svo fær hann vínið á sérstökum afslætti. Hann hefur verið svo mikill stuðningur við okkur að þetta er það minnsta sem við getum gert fyrir hann. Vona að ég verði svona sprækur þegar ég verð sjötugur.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home