Sunday, February 06, 2005

Einn voða stoltur og ánægður

Hér er lífið farið að verða bjartara og jákvæðara. Þakka þér kæra Ragna fyrir allt þitt góða starf hérna og vináttuna. Það sem þú gerðir hérna hefur breytt miklu. Ekki bara með starfsfólkið heldur einnig með okkur. Við höfum verið á fullu að taka ákvarðanir og að deligera verkefnum og afhenda ábyrð til að létta á okkur. Það er allt saman að ganga mjög vel. Seinasta ákvörðunin sem við tókum var að hafa vaktaskipti, þannig að Jóhanna og Gússý vinni í ákveðinn tíma og við Bói í ákveðinn tíma. Þannig getur maður átt frí og þarf ekki að vera í vinnunni 24 tíma á dag. Við hlökkum öll mikið til að eiga smá frí og að vita að einhverjir aðrir séu með ábyrgðina. Vaktaplan verður gert á morgun.

Fór með Rögnu í gær til Cape Town þar sem ég ætlaði að fara með hana upp á Table Mountain, sem er kennileiti borgarinnar og friðaður þjóðgarður og svo ætlaði ég með hana á Waterfront sem er mjög skemmtilegt svæði við höfnina sem hefur verið gert allt upp og er fullt af verslunum og veitingastöðum. Því miður rann tíminn frá okkur eins og svo oft áður. Við komumst ekki af stað fyrr en upp úr hádegi og fórum beint á mjög góðan ítalskan stað, Andiamo þar sem við fengum góðan mat og vín. Síðan röltum við aðeins um Village (“hommahverfið”) þar sem er fullt af litlum flottum búðum og veitingastöðum. Stoppuðum þar og fengum okkur smá rauðvín. Síðan fengum við SMS um að við þyrftum að redda einhverju víni og fleira fyrir afmæli sem var hérna í gær. Það fór talsverður tími í það, þannig að því miður varð enginn tími til að fara upp á Table Mountain. Lofa því kæra Ragna að fara með þig þangað næst þegar þú kemur. Keyrði svo Rögnu út á flugvöll og kvaddi hana. Það var smá sorg að kveðja hana.

Brenndi svo heim í einum hvelli til að ná heim fyrir myrkur. Það höfðu verið tónleikar í garðinum sem gengu mjög vel. Þetta er að verða eitthvað það allra vinsælasta hérna og bara algert möst að mæta til að sýna sig og sjá aðra. Það er enginn maður með mönnum nema hann hafi komið á tónleikana í garðinum. Maður verður nú ekkert smá stoltur.

Í gær vorum við svo með hóp í fertugs afmæli sem fyllti allan matsalinn okkar. Eitthvað mjög ríkt jet set lið, einn sagðist hafa unnið með Björk við einhver myndbönd eða eitthvað Að auki tókum svo utanaðkomandi gesti þannig að staðurinn var pakkaður. Og viti menn, allt gekk upp næstum hnökralaust. Eitthvað er þetta nú að skila sér hvernig við höfum verið vakandi yfir öllu eins og haukar og svo góða starfið hennar Rögnu, svo maður tali nú ekki um Jóhönnu og Gússý. Mikið hól með mat og þjónustu og fegurð og andrúmsloft. Maður varð nú ekkert smá stoltur. Mest stoltur var ég að hitta gesti sem höfðu komið hérna fyrir mörgum árum síðan (meira en 13 árum) þegar fyrstu eigendurnir voru hérna og stofnuðu hótelið og gerðu það að einhverju því flottasta og þekktasta á Cape svæðinu. Veit ekki hvað við höfum lesið mikil lofskrif um matinn þeirra og fegurðina sem þau sköpuðu. Þessir gestir sögðu mér að það væri ekki hægt að bera þetta saman. Staðurinn væri svo miklu fallegri og maturinn guðdómlegur. Ég sagði henni að við hefðum heyrt svo mikið um Glass´s (fyrstu eigendurnir), hvernig þeir hefðu verið lofaðir í hástert í hverju tímaritinu á fætur öðru og unnið til verðlauna fyrir matinn sinn. Já, já, sagði hún, það var hérna Elsa Wandeeitthvað var kokkur hérna og vann fullt af verðlaunum, en maturinn hennar var eitthvað skrítinn og meira fínn en góður. Miklu betri núna. Fyndið, en mjög gaman að heyra.

Núna eru þessir gestir allir að fá sér morgunmat og vonandi fara einhverjir svo í Bloody Mary upp við sundlaug á eftir. Það er mjög algengt á sunnudögum eftir svona veislur. Gott fyrir innkomuna, ekki satt.

Svo förum við að skipuleggja sunnudagahlaðborðið á eftir. Vonandi koma fleiri núna en seinast. Það er nú svo sem ekki erfitt að toppa það, vegna þess að það kom enginn þá. Never mind. Við er kominn með einn fastakúnna sem kemur tvisvar til þrisvar á dag. Ekki mjög lekker. Hann er mættur um leið og við opnum á milli 7 og 8 á morgnanna. Pantar sér hvítvínsglas eftir hvítvínsglas. Mest farið upp í 9 glös. Svo slagar hann út og mætir svo aftur um miðjan dag í fleiri hvítvínsglös og slagar út og svo jafnvel aftur um kvöldið. Í gær kom hann þrisvar og um kvöldið var hann kominn með skurð á ennið og blóð. Ég spurði hann hvort eitthvað hefði komið fyrir og hvort allt væri í lagi. Hann segir nú ekki mikið og svarar varla þegar maður yrðir á hann bauð honum plástur sem hann afþakkaði. Þetta er nú ekki sérlega þægilegur kúnni og það versta er að hann tekur alltaf staffaborðið okkar. Það er borð sem er alveg við innganginn þannig að við getum fylgst með því þegar gestir koma og haft góða yfirsýn. Eiginlega soldið fyndið vegna þess að einhverjir afmælisgestir fóru að þakka honum fyrir hvað allt væri æðislegt hérna. Héldu að hann væri eigandi. Ekki beint fyndið.

Sálartetrið er farið að hafa það miklu betra. Núna er maður búinn að koma svo mörgum verkefnum í farveg og svo koma vaktarskiptin hjá víkingunum. Er búinn að vera að reyna að vera eins mikið með Bóa og ég get í garðinum og einblína á fallega og jákvæða hluti. Var líklega orðinn of fastur í neikvæðni. Lífið er allt á uppleið og er bara yndislegt.

Greinilegt að margir er að lesa þetta blogg og gaman að fá comment sem við höfum fengið frá ótrúlegasta fólki sem við þekkjum ekkert. Guðrún Bjarnadóttir, dýrahjúkka á Hvanneyri sendi mér gott ráð sem hjálpar mikið í þessum kúltur: “Ef ekkert gengur upp þá það.... ef eitthvað virkar þá skaltu fagna......” Takk fyrir það Guðrún, finnst þetta gott ráð.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þetta lýst mér á, nú er hann Villi sem ég þekki að koma í ljós :) Það hlaut að vera að þetta væri tímabundið ástand sem gengi yfir. Spurning með hormónana, fara karlmenn á svona hormónatripp eins og við stelpurnar? Amk getum við kennt fyrirtíðaspennu um öll okkar vandamál :)

9:33 am  

Post a Comment

<< Home