Sunday, March 27, 2005

Annasamir dagar

Hér er búið að vera brjálað að gera svo vægt sé til orða tekið. Tónleikarnir á föstudaginn voru þeir fjölmennustu sem hafa verið. Yfir 100 manns og svo byrjaði þar að auki að rigna þegar tónleikarnir voru hálfnaðir þannig að Bói og þjónarnir voru að færa til borð og stóla og reyna að koma öllum fyrir á veröndinni og inni.

Hófy var ómetanleg í að hjálpa mér á barnum enda mikið um að vera og ekki bara að afgreiða alla drykkina, heldur líka að fylla á kælana jafn óðum og að fylgjast með þjónunum og passa að fá greitt fyrir allar pantanirnar. Allt gekk vel. Fyrr um daginn vorum við Hófý í eldhúsinu að búa til fiskisúpu og íslenskar fiskibollur a´la Lillian, mamma hans Bóa með brúnni lauksósu. Nammi, namm. Þetta höfðum við sem sérstakan eftir tónleika hlaðborð. Það sló all rækilega í gegn. Held að um 25 manns hafi farið í þetta hlaðborð og lýsingarorðin voru “Superb”, “out of this world”, “excellent” og ég veit ekki hvað. Gaman að sjá að íslenskur matur slær svona í gegn. Þetta var svo þar að auki veisla fyrir okkur að fá eitthvað annað en það sem er á matseðli.

Hófý var svo með Bóa að sinna gestum og það lá við að hún labbaði um með Saga Butiqe vagninn og bauð fólki. Nei, bara að djóka. Þetta var svaka stress, en rosalega gaman. Gærdagurinn var líka mjög annasamur. Brúðkaup í garðinum og mikil vinna að sjá til þess að allt gengi nú vel upp með það. Svo fylltist allt í hádeginu og Fröken Frekja var í ham og miklu stuði að láta allt ganga upp. Hún er nú frábær kellingin þegar hún er í ham. Það slær hana þá enginn út í afköstum. Við vorum samt öll þrjú á fullu að hjálpa henni. Hófý var meira segja kominn í uppvaskið, enda hlóðst bara upp skítugt leirtau. Það hafði gleymst að fá einhvern í uppvaskið fyrir hádegi. Týpískt, það gleymist alltaf eitthvað. Svo voru endalaust gestir að tékka sig, Bói fór að strauja til að flýta fyrir og svo var fullt af gestum í drykkjum eftirmiðdaginn og mikið um kvöldið í mat. Þetta var engin smá törn og Gvöð hvað það var nú gott að hafa hana Hófý.

Held við höfum ekki átt svona áhugaverðar umræður um mat í langan tíma og hún er að gefa okkur heilmikið af góðum ráðum. Við fórum inn í eldhús í gærkvöldi til að breyta framsetningu á diskunum. Gera þá meira sexy. Held við höfum komið Skvísu og Silvíu í smá uppnám með því vegna þess að það gekk allt á afturfótum eftir það. Réttir voru of lengi að fara út og fóru vitlaust og allt í steik. Það náðist nú að redda flestu. Bói var sveittur að spjalla við gesti og reyna að róa þá. Allt gekk þetta nú samt upp á endanum.

Reiknum með annaríkum dag í dag líka. Mánudagar eru yfirleitt mikið bókaðir í dinner og það eru allir í fríi og fara þá gjarnan út að borða. Það er búið að vera frekar þungbúið hérna síðan á föstudaginn og rignt annað slagið, sérstaklega um kvöldið og á nóttinni. Það er mjög þægilegt hitastig sem betur fer, sem gerir þetta bærilegt. Bói er allveg búinn á limminu eftir þessa brjáluðu törn. Hann hefur nefnilega verið mættur um leið og starfsfólkið á morgnanna til að hitta gestina í morgunmat og þegar þeir eru að tékka út. Bara til að tryggja að allt sé nú í sómanum. Það hefur nú svo sem ekki veitt af því að hann gerði það vegna þess að það er alltaf eitthvað að gleymast eða hefur klárast og gleymst að segja frá. Það hefur því þurft að redda ýmislegu hráefni fyrir eldhúsið á seinustu stundu.Hann var að fara heim núna og ætlar að liggja með sængina í sófanum yfir sjónvarpi fram yfir hádegi. Ég er nú ekki alveg eins búinn, enda hef ég getað komist í smá eftirmidagssleggju báða þessa daga. Það gerir gæfumuninn. Svo verður síld og rúgbrauð í eftirmidagginn sem Hófý kom með og að sjálfsögðu íslenskt brennivín með. Hlökkum mikið til. Vonum bara að við höfum tíma og þurfum ekki að vera á hlaupum. Sjáum til........

0 Comments:

Post a Comment

<< Home