Friday, February 11, 2005

Frídagur – loksins

Loksins fengum við langþráðan frídag í gær. Ég svaf til 11:30. Veit ekki hvað það er langt síðan að ég hef sofið svona. Bói hafði náttúrlega svindlað, enda vaknar hann alltaf svo snemma. Hann hafði farið niður á hótel og farið með garðyrkumanninn okkar hann Harald, að ná í þykkblöðunga plöntur. Var náttúrlega ásakaður um að vera að stela úr garðinum hans Gert, en sem betur fer hafði hann beðið Gert um leyfi svo þetta var allt í lagi. Hann koma svo heim rétt eftir að ég vaknaði með ferskt brauð og fleira góðgæti í morgunmat. Við borðuðum í rólegheitum og horfðum á mynd í sjónvarpinu.

Síðan var komið að fundinum með kokkunum. Held að þeim hafi öllum verið búið að kvíða fyrir þessum fundi. Byrjaði á því að segja þeim hvað við Bói værum farnir að verða stoltir af eldhúsinum og veitingastaðnum okkar. Mistökin sem væru gerð væru yfirleitt nú orðið minniháttar. Það kæmi samt fyrir að stór mistök væru gerð ennþá. Sbr. Gleymist að fylla lambið sem á að vera úrbeinað og fyllt með Feta, mozzarella og spínati, eða að það væri sett allt of lítil fylling þannig að það fara út skammtar með engri fyllingu, eða það að allt í einu er lambið orðið að reyktu lambalæri sem er ekki einu sinni á matseðli hjá okkur. Skil ekki alveg hvernig svona mistök geta gerst en það þarf að stoppa þau og þess vegna er Gússý inn í eldhúsi að hjálpa ykkur og jafnframt að vera tengiliður á milli eldhússins og okkar.

Lét svo Fröken Frekju (Loahna) vita af því að ég vissi að hún hefði hundsað Gússý nokkrum sinnum og ekki einu sinni haft fyrir því að svara þegar Gússý væri að spyrja um eitthvað. Náði að gera þetta á svo jákvæðum nótum, með því að bæta því við að ég þekkti fröken Frekju og vissi hvernig hún gæti verið utan við sig þegar mikið væri að gera. Þetta þyrfti samt að stoppa og þær yrðu að sína henni virðingu. Annars myndi ég koma í hennar stað MEÐ RÚLLURNAR Í HÁRINU, og þá yrði ekki gaman.

Fórum svo yfir fullt af öðrum atriðum án þess að fara í smáatriði. Skilaði kveðju til þeirra frá Rögnu og sagði þeim að skilaboðin sem við hefðum fengið frá henni væri að kokkarnar þyftu að hittast reglulega allar þrjár til þess að fara yfir nýja rétti og samhæfa vinnubrögðin og það er núna búið að ákveða að hafa þessa fundi reglulega. Að lokum voru aðstoðarkokkarnir (fröken Frekja og Fröken Ólétt (Karen)) gefnir titlarnir aftur sem kokkar, þannig að núna höfum við þrjá kokka og engan aðstoðarkokk.

Var mjög ánægður með fundinn og fannst hann hafa verið jákvæður og góður. Gússý hélt síðan fundinum áfram og fór eitthvað nánar ofan í hin ýmsu mál. Hún var mjög ánægð með fundinn líka.

Síðan fórum við Bói í Drinkie poo hjá Jenny. Alltaf gaman að heimsækja hana og dvöldum við þar í góðu yfirlæti til um sjö. Náði að setja upp tölvuna hennar og tengja hana. Hún var búin að bíða eftir viðgerðarmanni í marga mánuði til að gera það. Við fórum síðan heim og Bói eldaði. Gláptum aðeins á sjónvarp og svo var ég bara rotaður um átta leytir og fór að sofa. Svaf stanslaust til 8:30 í morgun. Held ég hafi aldrei sofið svona mikið. Hefði sjálfsagt sofið lengur ef ég væri ekki kominn með legsár (djók).

Fór til Caledon í morgun á ná í reyðufé til að borga launin og svo er allt á fullu við undirbúning fyrir tónleikana sem verða á eftir. Var ég búinn að segja frá því að um daginn vorum hérna menn frá Cape Town á tónleikunum? Þeir eru að skipuleggja tónleika fyrir Evoru Cesario í Cape Town og ætla að enda með einum mjög “exclusive” tónleikum fyrir VIP. Það yrðu einungis seldir 100 miðar á 3000 Rand (ca 35.000 ISK) og þeir datt í hug að hafa hann í garðinum hjá okkur. Það væri nú mikill heiður að fá hana til að syngja í garðinum hjá okkur. Á ég að taka frá miða fyrir einhvern?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home