Wednesday, April 06, 2005

Rólegir dagar

Núna er skólafríið búið og farið að hægast um hjá okkur. Þetta er búin að vera ansi mikil törn og sérstaklega að ganga í gegnum þessi leiðindamál hérna á sama tíma. Óléttan kom í gær. Ég var inn í eldhúsi þegar hún kom og mér brá svo að ég rak han út. Sagði henni að ég vildi ekki fá hana inn þar sem hún væri ekki búin að skila gardínunum og að kærastinn hennar hefði þar að auki hótað ad drepa Bóa. Hún sagðist vilja ræða við okkur þannig að við tókum hana á eintal. Hún var mjög sár yfir þessum þjófnaðarásökunum og sagðist vera heiðarleg og hefði engu stolið. Hún vildi fá að vita hverjir hefðu ásakað hana um þetta, vegna þess að hún þyrfti að hreinsa nafnið sitt. Við sögðum henni að það væri fleiri en tveir sem hefðu nefnt hana og að öll viðtölin sem við hefðum átt við starfsfólkið hefðu verið í trúnaði og við hefðum ekki einu sinni skráð hjá okkur hver sagði hvað. Ef hún vildi taka þetta lengra þá væri það hennar mál. Af okkar hálfu væri málinu lokað og við ætluðum að setja þetta aftur fyrir okkur. Ráðlögðum henni að gera það sama. Við verðum með hópefli á fimmtudaginn þar sem við ætluðum að loka þessu endanlega og byrjað að byggja aftur upp liðsheildina. Ráðlögðum henni að gera það sama og að mæta á hópeflið þó hún væri í barnseignarfríi. Við trúðum henni eiginlega með að hún væri saklaus af þjófnaði, en hvað veit maður svo sem. Svo margt hefur verið sagt og erfitt að vita hvað er satt og hvað ekki. Málinu verður alla vegna lokað af okkar hálfu.

Olafur (sem heitir reyndar Oliver) er að sanna sig sem garðyrkjumaður. Virðist vera mjög iðinn og duglegur. Hann kemur frá fátækri fjölskyldu í Riviersonderend þar sem móðirin er veik og hann er núna eina fyrirvinnan í fjölskyldunni. Þetta er frekar algengt hérna og því mikil ábyrgð sem fylgir því að ráða svona fólk í vinnu. Maður þarf að hafa það í huga, hvað það hefur mikil áhrif á marga ef maður þarf að láta fólk fara. Hann býr núna heima hjá Ami, sem tók hann inn á sig til að hjálpa til. Mikil samhjálp þar.

Greta (eigandinn af Greyt-on-Main, veitingastaður og gistiheimili) kom í fyrradag og bauð okkur Love stól. Við Bói brenndum heim til hennar og þá kom í ljós að þetta er nýlegur og mjög fallegur stóll, eða reyndar tveir stólar sem eru fastir saman og snúa í sitt hvora áttina. Gullfalleg mubla sem hún gaf okkur. Hann fór að sjálfsögðu beint í brúðarsvítuna okkar og er mikil prýði þar. Fallega gert af þeim. Við alla vegna buðum þeim að koma í staðinn í dinner á veitingastaðnum okkar í boði hússins sem smá þakklætisvott.

Í gær var svo íslenskur dagur hjá okkur. Fengum okkur íslenska síld og íslensk brennivín sem Hófý kom með.. Nammi, namm. Borðuðum svo á veitinastaðnum okkar sem gestir um kvöldið og nutum þess mikið. Langt síðan við höfum hagað okkur sem gestir hérna og eiginlega kominn tími til þess. Þjónustan var góð (Buddan sá um okkur) og maturinn var mjög góður. Andrúmsloftið og tónlistin æðisleg. Getum vel mælt með veitingastaðnum okkar. Erum orðnir mjög stoltir.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home