Tuesday, June 13, 2006

Frí - NFH - Vetrar hátíð

Það var mikið að gera seinustu helgi og allt gekk vel. Mirchel er hætt við að hætta, sem betur fer. Wany sagði upp líka þannig að okkur hefur tekist að losna við verstu þjónana okkar. Þýðir reyndar að staðan er frekar tæp hjá okkur í bili en það er að koma vetur og það þá er mun minna að gera en vanalega, svo að þetta ætti að ganga upp.

Takk fyrir öll kommentin, vermir alltaf hjartað og það liggur við að maður slefi yfir öllu þessu tali um góðan mat. Við ætluðum út að borða á fimmtudaginn. Bói bókaði borð á Rosies sem er pizza staður hérna. Þegar við komum er okkur vísað til sætis og hvað haldið þið að ég hafi ekki heyrt. Nágrannarnir frá helvíti á næsta borði. Djöfulsins dóninn, hann Mark sem rekur staðinn. Búinn að segjast vera búinn að loka alveg á þau og svo setur hann okkur á næsta borð við hliðina á þeim. Reyndar var veggur á milli þannig að við þurftum ekki að sjá þau. Ég stóð upp á stundinni og labbaði út. Bói pantaði pizzur sem take away, sem Mark lofaði að koma með heim til okkar. Hann baðst afsökunar og kenndi nýjum þjóni um þetta. Við rukum heim og Mark kom hálf tíma seinna með pizzurnar. Bói rétti honum 180 Rönd sem er miklu meira en nóg fyrir þessum pizzum og svo sagði hann Mark að hann gæti tekið þessar pizzur og gefið staffinu sínu, hundum eða hann gæti hennt þeim vegna þess að við vildum ekki mat frá honum. Hann byrjaði að afsaka aftur, en Bói sagðist ekki vilja ræða þetta og labbaði í burtu frá honum.

Ég var alveg í sjokki eftir þetta. Það er nú meiri andskotans stuðningurinn í bæjarbúum. Svei mér þá ef maður er ekki farinn að hata þennan bæ. Maður getur ekki einu sinni farið út lengur á aðra veitingastaði, vegna þess að Nágrannarnir frá Helvíti gætu verið þar. Það er nú ekki einu sinni eins og maður fari mikið út, en það er ágætt annað slagið að borða eitthvað annað en matinn hérna. Bói sendi okkur feðgin í frí sem við fórum í seinasta föstudag. Við fórum í “Heiðardal” eins og ég kalla það. Lítill sumarbústaður rétt fyrir utan Suurbrak. Við fórum þangað með Stebba og Kristjáni seinast þegar þeir voru hérna og þekktum því staðinn. Ekkert rafmagn og bara kyrrð. Þetta var yndislegt að komast svona í burtu og hvíla sig á þessu öllu hérna. Gistum þar í þrjár nætur og maður gerði gersamlega ekkert nema að borða, sofa, lesa, horfa á arin eldinn og hugleiða. Gvöð hvað þetta gerði mér gott.

Framhald af NFH (Nágrannar frá Helvíti). NFH urðu drukkin eins og vanalega og hávær. Það var fullt á Rosies og m.a. var þar Peter Barnard sem seldi þeim húsið og er að opna þennan fína ressa þar sem Megan og Wany er farin að vinna á. NFH byrjaði að tuða eitthvað í honum útaf einhverju veseni á húsinu þeirra. NFH er víst ekki ennþá búinn að borga allt sem hann átti að borga og hefur ekki getað komið með neinar tryggingar. Þetta endaði í einhverjum veseni og hávaða og það endaði með því að Mark henti NFH út. Vona bara að hann opni aldrei fyrir þeim aftur, enda búinn að henda þeim einu sinni áður út. Systir hennar Mirchel var þjónn þarna þegar þeim var hennt seinast út og hún sagði okkur að þau hefðu verið andstyggileg. Hann hefði verið að sparka í konuna sína undir borðið og slegið hana margoft í andlitið og svo hefði hann verið dónalegur við starfsfólkið þarna líka. Aðstoðarmaður Peter Barnards, John, sem er reglulegur gestur hérna, sagði Bóa að líklega yrði salan kölluð tilbaka. Vona ynnilega að það gerist, vegna þess að ég er búinn að fá meira en nóg af þeim.

Hér var brjálað veður í gær með helli rigningu og miklum vindi. Svokallaður “Bergwind”, sem eru ofsa vindhviður. Grindverkið okkar að NFH gaf sig og hrundi á einum stað, sem betur fer ekki nálægt okkur, en ég hafði varla orku til þess að fara þangað að skoða það. Langar ekki til að sjá NFH aftur. Á mándagsmorgni var svo “Sucking Susie” að tæma skolpið hjá okkur. Þetta er tank bíll sem kemur yfirleitt einu sinni í viku að tæma rotþróna hjá okkur. Það er ekkert skolpræsa kerfi hérna þannig að við erum með okkar eigið kerfi með nokkrum tönkum sem þarf að tæma reglulega. NFH mætti út um leið og þeir byrjuðu að dæla, öskrandi eitthvað á þá um leið og Bói mætti með staffið. Bói var fljótur að láta sig hverfa. Ætli NFH haldi ekki að við pöntum “Sucking Susie” bara til að pirra þau með hávaða og vondri lykt.

Hér verður allt klikkað að gera næstu helgi, fullbókað, enda er þetta Vetrar hátíðin og fullt um að vera í bænum. Við komum til með að opna nýja lista sýningu með verkum Marina Aguiar sem hún nefnir “Variations of Nude” og eru skúlptúrar, brons styttur, teikningar og málverk. Ansi mikil og stór sýning sem verður útum allt á hótelinu, fyrir utan það og í garðinum. Svo erum við með smá kabarett líka sem David Alder er búinn að vera að setja saman með lögum úr söngleiknum “Me and My Girl”. Hann er búinn að vera að gera okkur gráhærða með undirbúningnum. Hann er hérna eins og grár köttur daglega og getur ekki stoppað að tala um þetta. Dóttir hans Sindi Harrison, sem er vel þekkt söngkona hér kemur til með að syngja með honum og við búumst við að það verði miklu meira en fullt á þetta show. Þetta verður ansi töff, opnun á sýningunni klukkan 4, kabarettinn klukkan 5 og svo er sýningin opin frá klukkan 6 og svo verður ressinn fullbókaður. Krossum bara fingur og vonum að allt gangi vel.

8 Comments:

Blogger Ása Hildur said...

Bestu fréttir sem ég hef fengið lengi er að þú hafir farið í 3 daga frí. Vei húrra Jibbý jæ jey. Segi nú ekki meira um það.

Allt gott að frétta frá rigningasumrinu á Íslandi en sólin er þó að glenna sig í dag svo ég er á leiðinni í Krikann.

Ástarkveðjur

Ása Hildur

10:58 am  
Anonymous Anonymous said...

Strákar mínir
Vonandi fer allt að ganga betur ef þið losnið við NFH. Ykkur veitti ekkert af því að eiga "haglara" til þess að "salla" á þau. Gott hjá Gumma - þetta með pizzurnar.
Ástar- & saknaðarkveðja
Systir Sigurjón

2:44 pm  
Anonymous Anonymous said...

Halló elskurnar, gleymdi sð biðja fyrir kveðju til allra þegar ég talaði við ykkur í morgun. Luv ja. Hófý

12:25 pm  
Anonymous Anonymous said...

Halló elskurnar, svona af veðrinu af Íslandi að frétta (þ.e.a.s. Reykjavík) þá var 8 stiga hiti kl 9 í morgun og skýjað, nema hvað.... Allt gott að frétta héðan,mútta orðin hitalaus og fer sennilega af gjörgæslu í dag eða í síðastalagi á morgun, svo er bara að vona það besta....
Vona bara að vetrarhátíðin fari vel fram og að allt gangi upp. Bestu kveðjur til allra. Hófý

10:49 am  
Anonymous Anonymous said...

Mikið varð ég glöð þegar ég las upphafslínurnar um að veturinn væri að ganga í garð! Ég var nefnilega úti á svölum áðan (kl.4.41 um nótt) og sá JÓLATRÉ. Dautt að vísu og óskaplega einmana á göngustígnum,en þarna lá það, aleitt og ég var að velta því fyrir mér hvort það væri kannski janúar, þrettándinn nýliðinn og maður hefði átt að vera að henda út jólaskrauti. EINHVER gerði það núna, vildi óska þess að sá hinn sami hefði boðið mér til sín áður en hann tók niður jólaskrautið í júní. Svei mér þá, ef það er ekki þetta fólk sem gefur lífinu lit! Og talandi um söngvara með eitthvað á heilanum sem hann talar um út í eitt?? Eruð þið vissir um að þetta hafi verið David, ekki GÓL? Nú er ég á fínni leið með að gera eins og Guðmundur, fá bara fyrir hjartað. Reyki, vinn frá 8-22, stressuð, allt í kössum enn þar sem ég hef ekki getað tekið upp vegna vinnu - en allt í einu einhvern veginn engar áhyggjur. Það er það besta. Minn NFH sem búið var að vara mig við er algjör engill sem ég hef bara hitt einu sinni og þá var hann mjög nice. Heyrist ekki í neinum í þessu húsi og ég er alsæl hér. Ekki síst að geta farið út á svalir og horft á Snæfellsjökul. Það er að segja þegar það er ekki þoka, rigning, súld,rok etc. á þessu landi. Við erum með þetta líka fína októberveður í júní. Alltaf eitthvað spennandi að gerast, maður veit aldrei hvað kemur næst. Man nú eftir sumrinu 1992 þegar litlu andarungarnir fyrir norðan flutu frjósandi í ám. Sá fallegasta mann ever í gær í jarðarförinni hennar Báru "bleiku". Gvöð minn góður. Hélt virkilega að nú væri Bára að toga í spotta og senda mér einn. Týndi honum áður en ég gat hreinlega spurt hann hver hann er, var búin að ákveða að ganga hreint til verks.Shittur, eins og Tóta vinkona segir þegar mikið gengur á.
Nú er ég að spá í að lesa People og taka smá lúr til kl. 7 ef ég verð svo heppin. Aðeins svona að fresta taugaáfallinu af völdum vöku ef séns er! Knús og margir kossar og innilega til hamingju með 17. júní og vona að Vetrarhátíðin verði flottust hjá ykkur. Segið þessum NFH að ef þau fari ekki að haga sér eins og manneskjur muni verða skrifað um þau í ekki ómerkara blað en DV. Takk fyrir mig. Knús og margir kossar, ykkar (og bráðum allra á blogginu ykkar) vinkona Anna Kristine.

4:53 am  
Blogger Ása Hildur said...

Bara að segja Gleðilega þjóðhátíð dúllurnar mínar.

Ástarkveðja af Sléttó

11:03 pm  
Anonymous Anonymous said...

Sæll og blessaður Villi minn. Gott er að þú skulir hafa getað sett tærnar upp í loftið í nokkra klukkutíma, þú þarft alveg örugglega á því að halda. Já, og gleðilega þjóðhátíð, ég er reyndar orðin svo svakalega léleg í sjónvarpsástundun, að ég hef ekki hugmynd um hvort landinn hafi tekið almennilega áþví í þjóðhátíðarfagnaði. Veit bara að ég fagnaði ógurlega seinnipartinn í gærdag þegar íslenska handboltaliðið sló það sænska út úr undankeppni fyrir HM. VEIvei, mikið gaman. Hér er nú ekki alveg eins haustlegt eins og undanfarnar vikur, ég fylltist bjartsýni af því að það sá til sólar í dag, og setti blóm í ker til að hafa á svölunum, og að sjálfsögðu var komið rok og rigning klukkutíma síðar. Jájá, gleðilegt ár. Vona að vetrarhátíðin hefi gengið eins og blómstrið eina hjá ykkur, og þið getið hvílt ykkur að henni lokinni. Vel á minnst, hvílt sig, Anna Kristine, þú sefur aldrei. Það gengur ekki...... Var að frétta af einhverjum voðalega hollum dropum í Heilsuhúsinu, sem hafa þá náttúru að fólk sefur vært, og vaknar hresst. Man að vísu ekki hvað þeir heita, en eins og Kalli Færeyingur sagði í gamla daga, ta kost ekkjað spurja.....
Kær kveðja til allra, Inga V.

12:14 am  
Anonymous Anonymous said...

Eruð þið fenntir í kaf eða hvað? Maður fær bara skýrslu um Vetrarhátíð og svo ekki orð meir! Er með viðtal í dag við Unni Berglindi sem býr í Port Elizabeth um helgar og á strútabúi í miðri viku. Þið bara megið til að hittast, þið eruð FJÖGUR sem ég þekki þarna. Hún segir reyndar að það séu 700 km á milli ykkar, en so what? Ekki mikið miðað við margt. Látið nú smá fréttir inn á bloggið svo maður viti að allt sé í lagi! Knús,Anna Kristine

3:19 pm  

Post a Comment

<< Home