Saturday, March 08, 2008

Já, já. Hér koma nýjustu fréttir

Búið að vera ansi mikið að gera, sérstaklega hjá mér með bókhald og svo er ég að vinna í því að laga heimasíðuna okkur til þess að hún komi betur upp á leitarvélum. Hefur tekið ansi mikinn tíma. Það hefur ansi mikið vera að gerast hjá okkur líka. Fórum með David og Margréti upp í Heuwelkroon sem er litaða þorpið í mat á Jam Tin, sem er veitingarstaðurinn hennar Dóru (sem vann hérna í mörg ár). Veitingarstaðurinn er í heimilinu hennar sem er mjög sérstakt. Hvað um það, um mitt kvöldið sjáum við hana fara með hundarmat í nokkrum skálum út. Spurðum hvort þetta væru allt hundarnir hennar sem þeir voru ekki. Það var einn hundur sem vakti sérstaklega athygli okkar. Hún var eins og mini útgáfa af Lucky. Þeir sem áttu hana skiptu sér ekkert af henni og gefa henni ekki einu sinni að éta. Og svo heitir hún Patsý og það vakti nú enn frekar athygli okkar (Patsý úr Absolutely faboulas, sem er uppáhaldskarakter hans Bóa) hvort við mættum ekki fá hana. Dóra kom með hana nokkrum dögum seinna og nú býr hún hérna hjá okkur með Lucky. Erum við ekki að verða Suður Afrískir, komnir með tvo hunda eins og það sé ekki nóg með einn. Þeim kemur mjög vel saman.

Hér eru miklar gestakomur framundan. Wibecke, vinkona okkar frá Noregi er búin að vera hérna í heimsókn hjá okkur í næstum viku núna. Mjög skemmtilega kona og þægileg. Vill bara slappa af og hafa það, þannig að við þurfum lítið að sinna henni, nema bara með félagskap. Svo er Sossa og Óli að koma með vinafólk sitt. Miklir orkuboltar og skemmtileg. Þau eru líka mjög duglega að sjá um sig sjálf, þannig að við þurfum ekki að sinna þeim í ferðum hingað og þangað, enda ekki mikilll tíma hjá okkur fyrir það. Svo er Stína fína (Rækjukofa frú) að koma seinna í Mars og Gummi rauði í byrjun Júní. Já það er slatti að gera í heimsóknum og félagslífi.

Hér hafa verið alvarleg rafmagnsvandmál. Eskom (Rarik), framleiðir ekki nægilega mikið rafmagn og svo eru einhver hneykslismál með að þeir séu að selja rafmagn til nágrannalanda og hafa þess vegna ekki nóg rafmagn fyrir Suður Afríku. Það hefur verið skömmtun sem er nú ekki það versta, þá að við séum rafmagnslausir tvisvar á dag í 2-3 tíma í senn. Það sem hefur verið verra er og lág spenna sem fer með öll rafmagnstæki. Elementið í sósuhitaranum fór, elementið í diskahitaranum fór, elementið í eldavélinni fór, elementið í djúpsteikingarpottinum fór, báðar þvottavélarnar okkur gáfust upp, Djísus kræst, þetta er að gera mann gráhærðan. Fer endalaus tími í að fá þessa varahluti og ný tæki svo maður tali nú ekki um fjárútlátin. Svo eru báðir bílarnir okkar að gera okkur vitlausa. Endalausar viðgerðir og þegar það er búið að laga eitt, þá bilar eitthvað annað. Erum búnir að hafa anna hvorn bílinn á verkstæði núna í rúman mánuð, endalaus bið eftir varahlutum sem dregur þetta alltaf.

Lucky greyjið, fór á dýraspítalann í fyrradag í geldingu. Löngu kominn tími á það. Eitthvað fór nú úrskeiðis í aðgerðinni. Þeir höfðu ekki sett á hann kraga þannig að hann náði að fjarlægja saumana sjálfur og fékk slæma ígerð og þurfti að fara í aðra svæfingu til þess að sauma þetta aftur. Nú er hann með kraga og á sterkum sýklalyfjum og verkjalyfjum. Virðist vera að koma til aftur. Patsý er búin að vera hálfhrædd við hann með þennan lampaskerm um hálsinn og vill ekki koma mikið nálægt honum. Nei en annars höfum við það bara fínt. Til hamingju með daginn í gær Anna mín, vona að heilsan sé eitthvað að skríða saman hjá þér. Hér er allt fullbókað eina ferðina enn og brúðkaup í garðinum og veislan hér á eftir. Erum nú ansi sjóaðir orðnir í brúðkaupum, en það er alltaf annsi mikið vesen í kringum þau. Brúðurin er yfirleitt alltaf á tánum með allt og skipuleggur allt niður í minnstu smáatriði. Þessi er skipulögð en treystir okkur og er mjög þægileg. Held þetta verði gott brúðkaup, ef við bara getum fengið staffið til þess að vera á tánum með okkur.