Monday, November 27, 2006

Meiri staffa fréttir

Hér er búið að vera mjög mikið að gera. Ég er búinn að vera á fullu að vinna í tryggingarmálunum, svo við förum vonandi að fá einhverja peninga í skaðabætur útaf skemmdunum. Vorum fullbókaðir um helgina og brjálað að gera á ressanum. Þetta gekk nú ekki alveg áfallalaust fyrir sig. Erum svo tpir með mannskap, sérstaklega þjónana. Carmen hringdi á föstudaginn grátandi. Amma hennar var fárveik og lá fyrir dauðanum, og Carmen gat ekki komið í vinnu. Leit út fyrir á tímabili að við hefðum bara einn þjón á föstudagskvöldið þegar við vorum með rúmlega 60 manns í mat. Það reddaðist á endanum og allt gekk ágætlega

Það eru búin að vera mikil leiðindi í gangi útaf vaktlistanum. Anne hafði breytt honum og það ruglaði alla og pirraði. Sumir notuðu tækifærið og breyttu sínum eigin vöktum. Jocko fékk sér einn auka frídag. Anne var að springa útaf þessu, en við sögðum henni að þetta væri soldið hættulegt, vegna þess að staffið kenndi henni um að hafa breytt vöktunum. Undirbúningur fyrir föstudagskvöldið hafði verið frekar slakur og Bói var búin að ítreka við hana trekk í trekk að sjá til þess að það væri salt og pipar, kerti og blóm á öllum borðum. Endaði með því að Bói náði að redda þessu á seinust mínútu. Ég var læstur á barnum þegar Gina kom og sagði mér að Anne hefði labbað út. Ég setti hana á barinn og fór strax á eftir Anne, hélt ég myndi ná henni á leiðinni heim, en hún var komin heim til sín þegar kom þangað. Hún sagði að Bói hefði verið á eftir henni allan daginn, með tuð og allt staffið líka útaf vöktunum og að hún væri búin að fá nóg af þessu. Vildi ekki vera Vaktstjóri lengur. Við spjölluðum smá stund og mér tókst að fá hana til að koma aftur. Við ákváðum að ræða þetta eftir helgina og sjá hvernig við getum leist þetta. Á meðan var Bói hlaupandi að tékka inn gesti, vera á barnum og að þjóna. Ég gleymdi alveg í látunum að láta hann vita. Jæja það féll allt í ljúfa löð og allt gekk vel.

Bói fór með Jocko til Caldon með bílana í viðgerð í seinustu viku. Þeir komu við hjá foreldrum Jocko og fengu kaffi. Pabbi hans Jocko varaði Bóa við að láta Jocko keyra vegna þess að hann væri ekki með bílpróf. Jocko hafði logið að okkur að hann væri með bílpróf, en hefði týnt skírteininu. Við vorum nú ekki ánægðir með þetta. Við höfum látið hann keyra annað slagið fyrir okkur, en nú er það búið. Jocko var gerð grein fyrir því að hann hefði logið að okkur og þetta væri mjög alvarlegt, vegna þess að bílarnir okkar og farþegar væru ekki tryggðir ef eitthvað kæmi fyrir, ef maður væri að keyra án þess að hafa bílpróf.

Bói er búinn að vera með flensu, eins og líklega flest ykkar. Ég hef reyndar ekki (7-9-13) fengið flensu síðan ég flutti til SA. Ég var farinn að hafa ansi miklar áhyggjur af heilsunni hans og sagði honum loksins að ef hann færi ekki til læknis, þá myndi ég handjárna hann og fara með hann sjálfur til læknis. Hann alla vegna fór og það voru teknar blóðprufur og niðurstaðan var að hann væri bara með flensu. Hann sagði lækninum að vera ekkert að hringja í hann með niðurstöður úr blóðprufunum, vegna þess að hann hefði engaqnn áhuga á að vita þær ef allt væri í lagi. Hann sagði lækninum meira að segja að hann hefði aldrei ætlað að borga 180 rönd bara til þess að fá að vita að hann væri með flensu (sem hann vissi mjög vel). Læknirinn hringdi í dag og sagði að allt væri í fína með blóðið, kólestreólið væri komið í mjög gott lag og hann væri eins og “fit as a fiddle” eins og ungur maður í góðu formi. Bói var ekki ánægður með að hann hefði eytt tímanum sínum í að hringja til að segja honum það sem hann vissi sjálfur. Djísuss hvað hann getur verið kaldhæðinn stundum.

Thursday, November 16, 2006

Staffafréttir og fleira......

Veit varla hvar ég á að byrja. Það er svo margt sem ég hef ekki skrifað um, s.s. staffamál, sem hafa verið mörg og þá meina ég mörg. Það hafa verið þjófnaðarmál (enn og aftur). Öll höfum við hérna á GL átt bænastundir fyrir þjófinn eða þjófana. Það hefur verið slúður – vont – ekki gott, vegna þess að það var eitt af því sem við tókum sérstaklega upp á seinasta hópefli. Eitt af slúðrinu var að við værum hættir að ráða fólk frá Genadendal (6 km í burtu) og Vorsterkraal (8 km í burtu). Það fauk svo í Bóa að hann skrifaði á tússtöfluna í eldhúsinu að slúður yrði litið á sem fjandsamlega hegðun og það yrði tekið á því skv. Því. Svo skrifaði hann á töfluna að starfsfólk hérna væri ráðið eftir hæfileikum, getu og karekter, en ekki eftir því hvar það byggi.

Loana (Fröken Frekja) kom út í gær í tárum yfir þessu slúðri og vildi að Bói setti nafnið á slúðraranum á töfluna. Bói gerði það ekki en talaði við Gina mjög alverlega, vegna þess að það var hún sem hafði komið þessu öllu saman af stað. Svo skrifaði hann á töfluna að frá og með 3 janúar 2007, þyrfti staffið að sjá um að koma sér sjálft í vinnu á morgnanna og um eftirmiðdaginn. Við myndum borga þeim aukalega fyrir það og sjá áfram um að keyra þau heim á kvöldin. Þessu var tekið nokkuð vel. Jösses, hvað það kemur til með að létta mikið á okkur að losna við allann þennan akstur.

NFH hafa verið nokkuð til friðs. Við mættum honum í dómstól í seinustu viku og málinu var frestað þangað til í mars á næsta ári. Þetta er Afríkutími......Frúin er skilin við karlinn og komin með nálgunarbann á hann. Frúin var með partý á sunnudagin í hádeginu, sem var ekki lágvært. Höfðum miklar ahyggjur, en sem betur fer var enginn skaði.

Bói var í fríi í gær, þannig að ég var einn hérna lungan úr deginum. Mikið að gera, pöntunardagur, þjórfé dagur, sendi Jocko til Caledon að ná í peninga fyrir þjórfénu og fá ný dekk á Bimmann. Þau skemmdust þegar ég keyrði af stað á tveim sprungnum dekkjum. Héldum fyrst að NFH hefðu skorið á dekkin, en svo var víst ekki. Óh og ég keypti frystikistu líka. Kaupi alltaf eitthvað þegar Bói er ekki við. Keypti Land roverinn seinast þegar Bói fékk hjartaáfall. Skam, skamm, eða það segir hann alla vegna. Veit að hann metur það samt þegar hann.........

Við erum báðir útkeyrðir eftir seinustu helgi, þetta er ekki auðvelt, en höfum samt gaman af því og ástin okkar er sterk – mjög sterk. Sölumálin eru loksins komin í gegn, búið að skrifa undir söluumboðið, þannig að vonandi fer nú eitthvað að gerast í því. Núna eru það tryggingarmálin útaf flóðunum. Marise sem ætlaði að hjálpa okkur með það gafst upp á þessu, þannig að nú geri ég þetta. Maðurinn sem kom að meta skemmdirnar er að koma í næstu viku að spjalla við okkur. Sjáum til hvernig það fer, en eitt er öruggt, að þetta verður mikil vinna að safna saman öllum gögnum og krefjast skaðabóta fyrir skemmdirnar og tap á innkomu.

Ferðamálaráð (FMR) er að gera okkur klikkaða. Fyrir 3-4 vikum síðan kom formaðurinn (sem er framkvæmdarstjóri á Barnards Hotel, sem er eina hótelið hérna í Greyton sem er í beinni samkeppni við okkur) með 2 stjórnarmenn frá FMR og einn starfsmann, útaf kvörtun, “munnlegri kvörtun” frá einhverjum, (ekkert nafn, ekkert símanúmer eða neitt). Hverslags kvörtun er það eiginlega? Maturinn hafði verið kaldur og diskarnir líka (ef diskarnir eru ekki brennheitir í SA er það skandall, jafnvel þótt að maturinn haldi áfram að eldast á glóandi diskum, þar sem allt verður að kolamolum). Helv... formaðurinn sem er framkvæmdarstjóri á FMR, er upp á Tourist info daglega, og í hvert einasta skipti sem við komum þangað er ekki hægt að tala við starfsfólkið vegna þess að hann er þar alltaf. Við komum þangað til að tilkynna tilboð ef það er rólegt að gera, en viljum að sjálfsögðu ekki að framkvæmdarstjórinn hjá samkeppnisaðila heyri það. Höfum ekki fengið eina einustu bókun frá FMR síðan hann tók við. Held að hann sjái til þess að allir fari á hótelið hans.

Monday, November 13, 2006

Brúðkaupið gekk alveg brilliant

Brúðkaupið gekk alveg brilliant

Þrátt fyrir að brúðurin hafi verið að gera okkur gersamlega vitlausa. Hún var búin að skipuleggja þetta alltof mikið og hafði áhyggjur af öllu. Við vorum í því að fullvissa hana um að við hefðum gert ég veit ekki hvað mörg brúðkaup hérna og þetta myndi allt saman ganga eins og í sögu. Þetta var 50 manna brúðkaup sem okkur finnst nú ekki vera neitt svakalega mikið og við vorum búnir að skipuleggja og undirbúa allt mjög vel. Þetta varð mjög seint kvöld. Við rákum seinustu gestina í rúmið um þrjú leitið. Svo vorum við komnir á fætur 7 um morguninn að ná í staffið og undirbúa morgunmat. Við vorum gersamlega búnir þegar þau fóru eftir hádegi. Ég fór heim og lagði mig, en Bói sleppti því að hvíla sig. Svo kom inn ráðstefna í gærkvöldi og seinust gestir tékkuðu sig inn um 2 um nóttina, vegna seinkana á flugi. Bói vakti eftir þeim. Skil nú ekki eiginlega úthaldið í honum Heilsan hans er alltaf að verða betri og betri. Reikna nú með því að hann komi til með að sofa í allan dag, eftir þessa törn. Þetta er lítil ráðstefna svo það er ekki mikil vinna við hana.

Takk fyrir öll kommentin. Gangi þér vel með þöglu mótmælastöðuna Anna K

Hamingjusöm brúðhjón

Brúðkaupið

Annað brúðkaup sem var í Október

Friday, November 10, 2006

Hæ essgunar

Búin að vera róleg vika. Við vorum með hópefli í gær sem gekk mjög vel. Reynum að hafa það einu sinni í mánuði. Byrjuðum með bæn sem Bói gerði og var um að heila þann einstakling sem væri að stela og að byggja okkur öll upp sem einstaklinga og liðsheild. Svo bundum við okkur saman (eins og Ragna gerði hérna). Themað var ást og skilningur. Við bundum okkur saman með þeim orðum að við værum að bindast vegna þess að við viljum vera saman eins og ein heild og við losuðum okkur úr böndunum með þeim orðum að við elskuðum hvort annað. Siðan voru allir spurðir “Ef ég ætti þetta hótel, hverju myndi ég breyta” (ITC er oft að hjálpa mér), Merkilegt hvað kom. Það voru mörg komment um hversu ánægt fólk var í vinnu hjá okkur.

Fólk ætlaði ekki að breyta miklu, ánægt með hversu mikla fegurð og andrúmsloft sem við höfum skapað. Kom mikið af kommentum um leiðsheildina, Charlene (eldhús) að vinna í garðinum, Bradley (kokkur) að vinna í viðhaldi, Margaret (eldhús) að vinna í þvottahúsi) Þjónar að strauja o.s.frv. Eitt fallegasta kommentið var frá Bradley, þar sem hann sagði að hann myndi gefa okkur aftur hótelið vegna þess að hve vænt öllum þætti um okkur og hvað allt gengi vel. Það voru mörg önnur falleg komment sem vermdu hjartað mikið. Greinilegt að að við höfum sterka liðsheild og ég heldar reyndar að við höfum aldrei haft eins gott staff og við höfum núna. Höfum sjaldan verið eins ánægðir með hópefli sem við höfum gert hérna.

Fórum í réttarsal í dag útaf NFH (nágrönnum frá helvíti). Vorum vel undirbúnir. Með bréf frá gest sem gisti hérna þar sem hann lýsti ofbeldinu og hávaðanum frá NFH og eins frá nágranna þeirra sem býr hinum megin við þau og eru skíthrædd við þau. Dómskerfið er nú soldið skrítið hérna. Herra Otto (NFH) er búinn að mæta 3 í réttarsalnum áður og þegar við mættum þá sagði dómarinn að þessu yrði frestað til 28 mars á næsta ári. Er ekki alveg að skilja þetta system. Var alls ekki þægilegt að hitta Otto þarna.

Anne var líka í dómstólnum vegna þess að hún barði vinkonu sína fyrir að hafa hafa verið manninum sínum. Hún kom að þeim heima hjá henni og barði vinkonuna sem kærði hana. “Jenna” (assgotans, eins og við segjum í SA). Svo voru náttúrulega fullt af erindum sem við þurftum að útrétta, eins og alltaf. Við heyrðum að Otto hefði komið til Greyton fljótlega eftir réttarhöldin og löggan hefði komið strax. Hann tæmdi húsið af öllum fötum og persónulegum hlutum, þannig að Alexis (“X konana hans”) er núna ein. Eins og það sé nú eittthvað betra. Er með “personal bodyguard”. Hún var nú að spila svo háværa tónlist í gær að ég hringdi tvisvar í lögguna útaf tónlistinni sem var að gera útaf við okkur.

Erum með brúðkaup um helgina sem er að gera okkur alveg klikkaða. Það er svo yfir skipulagt að brúðurinn að gera okkur klikkaða. Veit að allt gengur samt vel.

Takk enn og aftur fyrir öll kommentin

Sunday, November 05, 2006

De Rust og heimsókn til Volga

Áttum yndislegt frí hjá Volga uppi í De Rust. Byrjaði nú ekki vel og gekk á ýmsu með bílinn. Ég náði Bóa ekki útaf hótelinu hérna fyrr en um keter yfir þrjú. Ég var búinn að vera á hlaupum allan morguninn (og reyndar hann líka) að undirbúa allt og gera klárt svo við gætum farið. Ég var búinn að segja honum að ég vildi ekki keyra í myrkri. Gátum ekki farið á Bimmanum vegna þess að Tvö dekk höfðu sprungið fyrr um morguninn og það þurfti að endurnýja þau. Fórum þess vegna á Land Rovernum sem er ekki eins þægilegur ferðabíll á svona langt ferðalag. Þurftum að koma við í bankanum í Caledon vegna þess að við vorum ekki með neitt reiðufé. Ég var búinn að segja Bóa að bankinn lokaði klukkan 3 en Anne leiðrétti mig og sagði að hann lokaði ekki fyrr en 4. Þegar við loksins komum til Caledon, kl. Korter í fjögur var bankinn lokaður. Lokar hálf fjögur. Ég var brjálaður og svo reiður að ég vildi ekki einu sinni tala við Bóa. Hringdum í Jocko sem kom með reiðufé handa okkur þannig að við ættum nú fyrir bensíni og gátum svo loksins farið af stað að ganga 5.

Þetta er löng leið. Þegar við vorum komnir hálfa leið byrja að dimma. Og stuttu seinna biluðu ljósin á Land rovernum. Engin aðalljós, engin háum ljós nema ég héldi takkanum inni. Ekki séns að fá neina viðgerð og öll öryggi í lagi. Never mind. Við ákáðum að keyra áfram með háu ljósin sem ég þurfti að halda inn með annarri hendinni. Þurftum að fara yfir fjallaskarð sem var mjög bratt og hlykkjótt. Sem betur ekki mikil umferð en þeir fáu sem við mættum voru að blikka okkur eða settu bara háu ljósin á okkur á móti. Miðstöðin biluð og enginn hiti í bílnum, skítakuldi, rigning og þoka. Ekki skemmtilegt ferðalag og skapið í mér var skelfilegt, (grey Bói).

Við komum til De Rust að ganga 10 um kvöldið og svakalega var gaman að hitta Volga aftur. Við kjöftuðum útí eitt og vöktum frameftir. Ég reyndar gafst upp um eitt en þau héldu áfram. Sama annað kvöldið. Áttum yndislegan dag hjá henni. Bara að slaka á og njóta samverunnar. Við komum með 10 kveikjara sem við gáfum Volga, sem var aðalmálið. Bói náttúrulega náði að stela aftur obbanum af þeim og það voru kveikjarar í öllum vösum okkar þegar við fórum. Hún var orðin svo þjófahrædd að hún faldi fullt af dótinu sínu, vegna þess að hún var hrædd um að Bói myndi stela. Hún var nú svosem ekkert betri. Hún meira að segja stal lyklunum af Land Rovernum vegna þess að hún vildi ekki að við færum. Svo fann hún ekki fullt af dótinu sem hún hafði falið vegna þess að hún mundi ekki hvar hún hafði falið það og ásakaði okkur um að hafa stolið því. Hún meira að sega hringdi hingað á hótelið í Anne og bað hana um að vera viðstadda þegar við kæmum til að athuga hvort við værum með eitthvað af hennar dóti í farangrnum okkar. Oh, þetta var bara yndislegt og mjög gaman.

Við lögðum svo af stað hingað um hálf tvö og það var keyrt mjög hratt vegna þess að það voru engin ljós á bílnum og við þurftum að komast hingað fyrir myrkur, sem rétt tókst. Búið að vera fullbókað um helgina og brjálað að gera. Allt gengið mjög vel og best af öllu að allt gekk vel meðan við vorum í burtu. Ættum því að geta gert þetta aftur og þá vonandi meira en tvær nætur í burtu og ekki svona langur akstur. Takk öll fyrir kommentin. Það vermir alltaf.