Tuesday, May 29, 2007

Lyfjalaus

Daisy er allt önnur núna eftir að hún kom úr meðferð. Dónald lætur hana alveg í friði núorðið. Höfðum miklar áhyggjur enda var hann alveg vitlaus af greddu útí hana. Charlene er hætt, sem betur fer. Búið að vera svo slæmt í kringum hana með allt hennar slúður sem hefur haft slæm áhrif á móralinn.

Við erum loksins búnir með lyfjakúrinn. 10 dagar án Smirru. Bói sagði að þetta væri lengsta sem hann hefði verið án hennar síðan hann varð fullorðinn (ef hann er þá orðinn það). Ég er líka búinn að vera að trappa niður gleðitöflurnar í langan tíma og er loksins orðinn alveg lyfjalaus. Þvílíkur léttir! Hafði miklar áhyggjur af því að fara á þessi lyf, en, þau hjálpuðu þegar ég þurfti á þem að halda. Alla vegna er ég ekki á neinu núna nema vítamínum og mér líður bara mjög vel. Erum að fara til De Rust á eftir að hitta Volga í 3 daga. Kominn tími á smá frí. Anna kemur til með að flytja inn í herbergið okkar með fjölskylduna sína og sjá um reksturinn á meðan

Tuesday, May 22, 2007

Bóa blogg

VETUR-DRULLA OG RIGNING



Loksins, loksins er kominn “vetur”, snjór í fjöllum í gær og í dag , bara eins og heima í október. Allir arinneldarnir á og kós, kós. Þetta á nú betur við mig en h...... sumarhitinn hér sem ætlar allt að kæfa. Við erum að sigla inn í rólegri “síson” en erum samt með ágætis fyrirfram bókanir og veislur. Ressinn er hægt og bítandi að vinna sig upp, það sjáum við á veltunni og bókunum þar. Held m.a.s. að hann sé að standa undir sér án aðstoðar frá herbergjum !

Heilsa beggja er búinn að vera asskoti léleg síðustu 6 vikur, drulla og hiti ásamt slappleika og flökurleika hefur gert okkur lífið leitt. Loksins dreif Villi sig til læknis (fyrir okkur báða að sjálfsögðu, ekki fer ég ótilneyddur...) og fékk einhver súperlyf við þessu. Í fáum orðum sagt töflur sem hann lét mig taka, horfði athugull á mig gleypa 4 stórar töflur og sagði svo; “ Þú verður fárveikur ef þú drekkur áfengi með þessum lyfjum!”. Þetta er 14 daga kúr og núna eru 6 dagar liðnir án Smirru vinkonu minnar og 8 þar til ég hitti hana aftur.Þetta hefur í raun verið hið minnsta mál, spurning hvort henni verði boðið á hótelið aftur ? Heilsan er öll orðin eins og hún ætti að vera svo allt er nú gott um það að segja.

Það er búið að vera annríki hér í hádegismat undanfarið. BMW í S-Afríku er búið að vera að kynna nyjasta Bimmajeppan og valdi okkur til að kokka ofan í hátt í 100 S-Afríska blaðamenn sem var boðið að reynsluaka jeppana. Allt hefur gengið vel og þetta er ágætis kynning fyrir hótelið og Greyton.

Annars er bara tilhlökkun í brjósti fyrir veturinn hér, þetta er fallegasti tími ársins, fyrsta (af hundrað) páfuglablómið er opið, köllurnar í garðinum komnar í blóma og stjúpur bíða gróðursetningar í garðinum. Dónald, Deisý og Daffý eru hressar í bili, Dónald var reyndar með rosa stæla við Deisý á sunnudaginn var. Elti hana um allt, fjaðurreytti hana og reyndi að komast upp á hana. Hræðilegar nauðgunartilraunir beint fyrir framan nefið á okkur. Þetta endaði á að ég þurfti að hýsa Deisý í athvarfi fyir misnotaðar endur. Á mánudag var svo allt komið í fyrri horf, Dónald sá að sér og hefur látið hana í friði.

Jæja, nenni ekki meiru bloggi, Lof end líf jú., Guðmundur

Thursday, May 17, 2007

Hent út á götuna......

Mæðradagurinn var mjög annasamur hérna. Eiginlega bara brjálaður, u.þ.b. 80 manns í hádegismat hérna. Lentum í erfiðleikum með undirbúninginn vegna þess að ofninn okkar gaf upp öndina um morguninn. Bradley fékk þá snilldarhugmynd að fá lánaðan ofninn af Frímerkjahúsinu.

(Frímerkjahúsið (Posthouse) er búið að vera lokað á annað ár vegna þess að eigendurnir eru að skilja. Foreldrar Lisu (eiginkonan) eiga byggingarnar, Lisa á allt innbúið, en David (eiginmaðurinn) á réttinn til að reka hótelið og þau eru búin að eyða öllum þessum tíma í dómstólum með hverja kæruna á fætur annarri. David rak Frímerkjahúsið í nokkra mánuði með aðstoð Keith (pabbi hans Bradley). Það fór allt í vaskinn. Birgjarnir lokuðu á þau, hver á fætur öðrum vegna ógreiddra reikninga og á endanum lokaði lögreglan barnum vegna þess að vínveitingaleyfið hafði ekki verið endurnýjað. Þau reyndu að leiga út herbergi þangað til þvottavélin gaf upp öndina. Þá lokuðu þau hótelinu. Keith of fjölskylda hafa búið þar síðan og séð um viðhald)

Við höfum alltaf átt gott samstarf við David, Lisu og Keith og aðstoðað hvort annað, lánað mat, áfengi, húsgögn og fleira, þannig að við áttum nú ekki von á öðru en að þetta yrði í lagi. Bradley fór og fékk ofninn lánaðan og hann var ekki fyrr kominn með ofninn, en Lisa hringdi frekar æst út af ofninum. Hún sagði að einhver hefði séð Bradley taka ofninn og það væri ekki leyfilegt. Þetta væri dómsmál og það væri ekki leyfilegt að fjarlægja neitt úr Frímerkjahúsinu og ég hefði nú alla vegna getað haft samband við hana um leyfi. Ég baðst afsökunar, en ég hefði ekki haft hugmynd um að hún hefði eitthvað að gera með reksturinn, hélt það væri David sem hefði reksturinn og að Keith hefði lánað okkur ofninn. Hún sagði að hann hefði ekkert leyfi til þess og að hún myndi setja lögregluna í málið ef ofninum væri ekki skilað strax. Ég baðst afsökunar aftur og að sjálfsögðu myndi ég skila ofninum strax og sagði henni svo að vonandi gætum við átt gott samstarf í framtíðinni eins og við hefðum alltaf haft. Bað Bradley um að skila ofninum strax. Hann talaði við pabba sinn sem sagði að Lisa hefði ekkert með þetta að gera og við gætum haft ofninn. Ég sagðist ekki vilja lenda í útistöðum við þau og sendi hann með ofninn. Bradley sem er úrræðagóður, spurði þá hvort hann mætti ekki koma með þeirra prívat eldavél sem hann kom með stuttu seinna. Setti hana í samband og viti menn, hún virkaði ekki heldur. Kom í ljós að innstungan var biluð og eftir að hún hafði verið löguð virkaði ofninn okkar. Þvílíkur hasar í miðjum undirbúning fyrir mæðradag, allt út af bilaðri innstungu. Allt gekk nú vel samt.

Í fyrradag dró til tíðinda aftur. Lisa og nýji kærastinn hennar mættu á Frímerkjahúsið með lið mér sér og henti Keith og fjölskyldu út. Báru allt dótið þeirra út á götu. Keith hringdi í David sem sagði að Lísa hefði ekki leyfi til að gera þetta, en gat ekkert gert. Keith hringdi í lögregluna sem mætti, en hún gat ekkert gert heldur. Þetta var mjög harkalegt vegna þess að þau leyfðu þeim ekki einu sinn að pakka dótinu sínu sjálft. Við buðum þeim að koma og gista hjá okkur þangað til þau finndu sér húsnæði. Þeim tókst strax að koma öllu dótinu sínu í geymslu og fluttu inn hér í 3 herbergi.

Erum núna að taka þátt í kynningu á nýja BMW X5. Þeir koma hérna daglega með blaðamenn sem eru að reynsluaka bílinn og fá sér hádegismat. Þetta er næstum daglega á aðra viku.

Erum báðir búnir að vera hálflasnir í 6 vikur með ógleði, niðurgang og hitaköst. Erum búnir að prófa öll lyfin í apótekinu, en þau virka bara rétt á meðan maður tekur þau. Fór loksins til læknis í morgun og fékk sýklalyf og eitthvað fleira sem vonandi stoppar þetta fljótlega.

Charlene bað um fund með mér um daginn og vildi fá að vita hvers vegna við hefðum rekið Don, manninn hennar. Ég sagði henni að ég hefði sagt Don það, 3 mánaðar reynslutíminn var liðinn og okkur fannst þetta ekki vera að ganga, hann væri ruddalegur við staffið og ekki verið hluti af liðsheildinni og þar að auki væru afköstin lítil og garðurinn aldrei litið verr út. Hún sagði að það væri að ganga kjaftasaga um að hann hefði verið rekinn eftir að við komum að honum í einu herberginu okkar í samförum við einhverja konu.. (Djísus hvað kjaftasögur geta magnast) Ég hló og sagði að það væri alls ekki rétt. (sem betur fer hafði ég aldrei nefnt að hann hefði leitað á Margréti) Margrét hefur hins vegar sagt öllu staffinu frá því, nema Charlene.

Thursday, May 10, 2007

Já, við erum lifandi...

Hér hefur sorgin bankað á dyrnar aftur. Hallur Kristjánsson, sem var nánast uppeldisbróðir Bóa varð bráðkvaddur mjög óvænt. Allar systur Bóa eru á leiðinni til Danmerkur til að vera við útförina. Reyndum að fá flug fyrir Bóa en tókst ekki með svona litlum fyrirvara án þess að það kostaði formúgu, þannig að við sendum samúðarkveðju og blóm ásamt minningargrein í Moggan.

Hér hefur ýmislegt verið að gerast í staffamálum. Don, (bílstjóri/garðyrkjumaður) var búinn að fara í taugarnar á okkur lengi. Afköstin eftir hann í garðinum voru skelfilega lítil og hann virtist hreinlega hverfa annað slagið. Það var sama hvað maður leitaði að honum, hann var ósýnilegur. Svo var hann dónalegur við samstarfsfólk sitt og alls ekki hluti af liðsheildinni. Og ekki var hann góður bílstjóri. Ekkert þýddi að tala við hann vegna þess að við skyldum ekki enskuna hans og hann ekki okkar. Það sem gerði útslagið var að hann reyndi að kissa Margréti (aðstoðarkokk) og káfa á henni þegar hann var að keyra hana heim eitt kvöldið. Um leið og við heyrðum það rákum við hann samstundis. Hann var búinn að vera hérna í rúma 3 mánuði, sem var reynslutíminn og þess vegna gátum við látið hann fara.

Við erum búnir að ráða nýjan garðyrkjumann, Jakobus sem er pabbi hans Jocko. Hann var kominn á eftirlaun og hundleiddist að hanga heima. Maður með reynslu og er ekki að vinna vegna þess að hann vantar peninga, heldur vegna þess að hann langar til að vinna. Og viti menn, maður sér strax mun á garðinum.

Wibecke, Irmaline og Ann-Marie voru hér í rúma viku. Það var mjög gaman að hitta þær. Þvílíkir orkuboltar sem þessar kellur eru, 75 og 78 ára. Þær héldu okkur upp langt fram á kvöld. Það var ekki laust við að við vorum orðnir soldið útkeyrðir þegar þær fóru, enda erum við vanir að fara snemma aða sofa þegar lítið er að gera í miðri viku.

Það er annars búið að vera mikið að gera hérna. Páskahelgin var alveg brjálað að gera. Núna er vetur að koma og þá róast hérna. Það er búið að vera frekar hlýtt samt. Fór upp í 32°C í gær og niður í 7°C um nóttina. Núna sit ég hérna úti um 10 leitið um morguninn og það er rigning og um 15°C, sólin er að berjast við að komast í gegnum skýin og það lítur út fyrir að henni ætli að takast það. Má búast við hlýjum degi.........

Ps. Ása, þetta var ekki KuKluxKlan leikur. Þau voru öll með bundið fyrir augun og áttu að raða sér upp eftir hæð. Frá þeim minnsta til þess hæðsta. Mjög skemmtilegur leikur.