Saturday, September 30, 2006

Bóa blogg

Stutt í þetta sinn (eins og alltaf). Takk fyrir vináttuna ykkar sem er einstök og allar afmæliskveðjurnar sem ég fékk í gær. Erum þrátt fyrir all sem á hefur gengið á, ákveðið að þeta Guðs yfirgefna land (blessað í öllu sem vex og blómstrar) verður heimalandið okkar í e-r ár í viðbót ef Guð lofar.

Tinfinningalífið er að skríða saman aftur (.....?) Hef ekki þurft að “bögga” Villa síðan á laugardaginn, en við erum svo mikið að sjá uppskeru erfiðins hérna með starfsfólkinu. Traust þeirra til okkar er svo augljóst og með öllum vinnu umsóknunum eru Víkingarnir þrátt fyrir allt að gera e-ð rétt. Erum sennilega að borga hæstu launin og þjórfé í Greyton. “Gamla” starfsfólkið sem yfirgaf okkur fyrir nýju veitingastaðina í Greyton er allt búið að sækja um vinnu HÉRNA aftur. Förum okkur rólega í því öllu og biðjum frekar þá sem eru núna að vinna hérna að vinna extra harðar.

Liðsheildin er góð, en það er eitt rotið epli (a.m.k.) því hlutir eru að hverfa, EN það nýja er að staffið er er farið að segja okkur hvað sé að gerast. Loana er núna að finna út úr því hver hafið stolið 15 skömmtum af fisk í síðustu viku. Það verður auðvitað okkar að taka á því, en þetta er mun auðveldara en í startinu.

Hef það gott (er þreyttur.........,en hver er það ekki á Ísalandinu bláa) Hafið það öll sem best. Sakna ykkar.
Bói

Ps. 33°C hiti í dag. ÖMURLEGT.........., kýs 14 gráðurnar heima frekar.
Búið - bless

Friday, September 22, 2006

Bóa blogg

Elsku öll

Þið sem þekkið mig vitið að ég nenni ekki löngum símtölum eða tölvum, þess vegna handskrifa ég þetta blogg og bið Villa að “skutla “ því á netið...

Sit hérna einn á einum fegursta síðdegi lengi. Vorið er hér og allt í blóma, orkideurnar okkar, rósirnar, köllurnar, wisterían, epplatrén, plómutrén og í raun allt það fallega sem Almættið skapaði. Er að drekka í mig orku frá allri þessari fegurð.

Ýmislegt hefur gengið á eins og venjulega..., en við Villi erum að ná in í öll hornin á þessari gríðarlega stóru eign.

Er sjálfur búinn að reka 3 starfsmenn + eiginmaður eins kokksins (sá sem hótaði mér lífsláti fyrir ári síðan) hefur fengið skilaboð frá mér um að lát ekki sjá sig aftur nálægt hótelinu.

Heilsan er skítsæmileg, skánaði eftir að Villi kom tilbaka. Lenti reyndar í “blackouti” þegar ég sótti Villa á flugvöllinn og endaði niðrí Höfðaborg og þurtfti 2 klukkutíma til að jafna mig áður en ég gat farið á flugvöllinn að sækja Villa sem hafði beðið í 3 tíma eftir mér.

Sorgin eftir andlát mömmu og pabba hefur inn á milli verið óbærileg. Sakna systra minna og ykkar allra fóðu vina á Íslandi. Tíminn heima var svo óraunverulegur (hitti ekki einu sinni barnabarn okkar, hann Gabríel) og núna smá saman (eins og lífið er gott), fæ ég sorgina í skömmtum sem ég vona að hjartað mitt ráði við. Kveðju stund okkar systkinanna, þegar ég fór mun aldrei hverfa mér úr minni. Ekki heldur fegurð og reisn þeirra við útför mömmu og pabba.

En lífið heldur áfram. Það er “gott” að hugsa til þess að tími þeirra hérna í jarðnesku lífi og ást þeirra hvert á öðru náði yfir móðuna miklu. Ástar þakkir til ykkar allra fyrir virðingu fyrir minningu mömmu og pabba og vináttuna ykkar.

Mér finnst sjálfum gott að vera kominn heim til Greyton og byrja svo kallað “normal” líf. Villi þessi elska hefur séð vel um mig, ég er búinn að taka nokkur alvarleg reiðiköst á honum, plús grenjað heilmikið.

Hótelið er að verða eins og Ráðhúsblóm, BRJÁLAÐ að gera allar helgar og komin tilfinning fyrir öfugum eignahlutum. Hótelið á okkur, en ekki við eigum hótelið. Starfsfólkið er búið að vera ÆÐISLEGT (allt of fátt miðað hvað það er mikið að gera.....)

Nenni ekki meiru. Búið bless

Ps. Stjáni, endilega sendu Gulla til okkar með blásarann!

Thursday, September 21, 2006

Skemmdir eftir flóðin

Það eru enn að koma í ljós skemmdir eftir flóðin sem voru hérna og það er slatti. Það er búið að skipta um teppi í nokkrum herbergjum. Sundlaugin klofnaði í tvennt vegna þess hve mikið vatn var í jarðveginum og hún var tóm. Það verður vonandi gert við hana í vikunni og svo er heilmikið sem þarf að mála. Þar sem húsin eru byggð með mjúkum múrsteinum, þá tekur það langan tíma fyrir vatnið sem hefur komist í gegn. Þær skemmdir þurfum við að gera bara við jafnóðum.

Ráðstefnusalurinn sem var ný málaður skemmdist líka og það á eftir að koma almennilega í ljós hversu mikið það. Eins var með eitt herbergið, þar er einn veggur rennblautur og það á eftir að taka tíma að þurka hann og gera við þakið. Þetta er slatti, en sem betur fer erum við vel tryggðir. Ég er þessa dagana að fókusera á að Guðmundur nái að hvíla sig sem allra mest. Hann sefur oftast til hádegis og jafnvel lengur. Þetta er mjög ólíkt honum en svona þreyttur er hann nú og heilsan hans er ekki nógu góð heldur.

Ég hef það annars bara ágætt og hvíldin heima gerði mér gott. Er samt að reyna að varðveita orkuna sem ég fékk heima, en finn samt hvernig álagið hérna er mikið og eiginlega of mikið. Erum núna alveg staðráðnir í að setja pleisið á sölu. Er þessa dagana að hreinsa til á skrifstofunni og það kemur til með að taka viku eða tvær og svo verður orkan sett í sölumálin.

Flóðin daginn eftir



Og svona leit það út í garðinum daginn eftir. Mesta furða að gullfiskarnir lifðu þetta af vegna þess að vatnið flæddi yfir tjörnina þeirra og inn á ressann.

Amos fyrir framan hótelið



Svona leit það út fyrir framan hótelið okkar daginn eftir, og þá hafði flóðið hjaðnað ansi mikið.

Monday, September 11, 2006

Ég er mættur aftur...... loksins

Ég er mættur aftur eftir mikið og gott húsmæðraorlof á klakanum. Það voru nú ekki skemmtilegar ástæður fyrir því að ég fór heim, enda dóu bæði tengdamamma og tengdapabbi með 3 vikna millibili. Bói fór strax heim þegar Lillian dó og var með pabba sínum í dauðastríðinu hans sem var mjög erfitt. Því miður hafði hann engan tíma til þess að hitta neina, sá ekki einu sinni barnabarnið. Það fór allur tími hans í að undirbúa jarðafarir og að sinna pabba sínum og fjölskyldu sinni. Ég var mjög stoltur að sjá hvað þau voru samrýnd systkynin, fyrir utan Björgvin bróður hans sem er dópisti og býr á götunni. Hann reyndist systkyninum mjög erfiður og ætla ég ekkert að fara út í þá sálma.

Ég hafði þeim mun meiri tíma eftir að Bói fór út og náði að hitta flesta. Þetta var yndislegt og náði ég að hvílast mjög vel. Náði meira að segja að keyra austur á Egilsstaði aað hitta Öbbu og fjölskyldu hennar. Það var mjög gott að fara þangað og skoða landið í leiðinni.

Hér hefur nú ýmislegt gengið á meðan ég var heima, enda er Bói orðinn mjög þreyttur og reyndar allt staffið, vegna þess hve mikið hefur verið að gera hérna. Hann náði að reka Amie (viðgerðarmanninn), Jacko (garðyrkjumanninn) og Ferdi (Píanóspilarinn). Svo réð hann þrjá nýja starfsmenn, Virgina (þjónn, sem hefur unnið áður hjá okkur), manninn hennar í viðhald og garðinn, Jocko og svo Petro í eldhúsið, hún hefur líka unnið áður hjá okkur.

Hér var flóð meðan ég var í burtu. Það hafði verið met rigning í 3 daga samfellt og Bói vaknaði um fjögur leitið um nóttina og fann á sér að eitthvað væri að. Labbaði yfir á hótelið og óð þá vatn upp á hnjám. Það hafði myndast á á götunni við hliðina á hótelinu sem breytti um farveg og fór inn í garðinn hjá okkur og inn á veitingastaðinn. Bói náði að ræsa út fólk og það var farið strax í að breyta farvegi árinnar sem tókst tiltölulega fljótt. Skemmdir urðu ekki miklar fyrir utan leðju og drullu útum allt. Það þurfti að loka hótelinu í 5 daga vegna þess að vatnskerfið í þorpinu sprakk og það var svo erfitt að gera við það vegna þess hve mikið vatn var allstaðar. Þetta var mjög mikið flóð í Greyton og komst þorpið á forsíðu allra helstu blaðanna í SA. Margir voru með miklu meiri skemmdir en við.

Já það hefur ýmislegt gerst hérna meðan ég var í burtu. Við vorum með Harley Davidson mótorhjóla klúbbinn hérna í hádegismat í gær. Ekkert smá flott 30 hjól sem voru hérna fyrir utan. Set inn myndir seinna.