Mæðradagurinn var mjög annasamur hérna. Eiginlega bara brjálaður, u.þ.b. 80 manns í hádegismat hérna. Lentum í erfiðleikum með undirbúninginn vegna þess að ofninn okkar gaf upp öndina um morguninn. Bradley fékk þá snilldarhugmynd að fá lánaðan ofninn af Frímerkjahúsinu.
(Frímerkjahúsið (Posthouse) er búið að vera lokað á annað ár vegna þess að eigendurnir eru að skilja. Foreldrar Lisu (eiginkonan) eiga byggingarnar, Lisa á allt innbúið, en David (eiginmaðurinn) á réttinn til að reka hótelið og þau eru búin að eyða öllum þessum tíma í dómstólum með hverja kæruna á fætur annarri. David rak Frímerkjahúsið í nokkra mánuði með aðstoð Keith (pabbi hans Bradley). Það fór allt í vaskinn. Birgjarnir lokuðu á þau, hver á fætur öðrum vegna ógreiddra reikninga og á endanum lokaði lögreglan barnum vegna þess að vínveitingaleyfið hafði ekki verið endurnýjað. Þau reyndu að leiga út herbergi þangað til þvottavélin gaf upp öndina. Þá lokuðu þau hótelinu. Keith of fjölskylda hafa búið þar síðan og séð um viðhald)
Við höfum alltaf átt gott samstarf við David, Lisu og Keith og aðstoðað hvort annað, lánað mat, áfengi, húsgögn og fleira, þannig að við áttum nú ekki von á öðru en að þetta yrði í lagi. Bradley fór og fékk ofninn lánaðan og hann var ekki fyrr kominn með ofninn, en Lisa hringdi frekar æst út af ofninum. Hún sagði að einhver hefði séð Bradley taka ofninn og það væri ekki leyfilegt. Þetta væri dómsmál og það væri ekki leyfilegt að fjarlægja neitt úr Frímerkjahúsinu og ég hefði nú alla vegna getað haft samband við hana um leyfi. Ég baðst afsökunar, en ég hefði ekki haft hugmynd um að hún hefði eitthvað að gera með reksturinn, hélt það væri David sem hefði reksturinn og að Keith hefði lánað okkur ofninn. Hún sagði að hann hefði ekkert leyfi til þess og að hún myndi setja lögregluna í málið ef ofninum væri ekki skilað strax. Ég baðst afsökunar aftur og að sjálfsögðu myndi ég skila ofninum strax og sagði henni svo að vonandi gætum við átt gott samstarf í framtíðinni eins og við hefðum alltaf haft. Bað Bradley um að skila ofninum strax. Hann talaði við pabba sinn sem sagði að Lisa hefði ekkert með þetta að gera og við gætum haft ofninn. Ég sagðist ekki vilja lenda í útistöðum við þau og sendi hann með ofninn. Bradley sem er úrræðagóður, spurði þá hvort hann mætti ekki koma með þeirra prívat eldavél sem hann kom með stuttu seinna. Setti hana í samband og viti menn, hún virkaði ekki heldur. Kom í ljós að innstungan var biluð og eftir að hún hafði verið löguð virkaði ofninn okkar. Þvílíkur hasar í miðjum undirbúning fyrir mæðradag, allt út af bilaðri innstungu. Allt gekk nú vel samt.
Í fyrradag dró til tíðinda aftur. Lisa og nýji kærastinn hennar mættu á Frímerkjahúsið með lið mér sér og henti Keith og fjölskyldu út. Báru allt dótið þeirra út á götu. Keith hringdi í David sem sagði að Lísa hefði ekki leyfi til að gera þetta, en gat ekkert gert. Keith hringdi í lögregluna sem mætti, en hún gat ekkert gert heldur. Þetta var mjög harkalegt vegna þess að þau leyfðu þeim ekki einu sinn að pakka dótinu sínu sjálft. Við buðum þeim að koma og gista hjá okkur þangað til þau finndu sér húsnæði. Þeim tókst strax að koma öllu dótinu sínu í geymslu og fluttu inn hér í 3 herbergi.
Erum núna að taka þátt í kynningu á nýja BMW X5. Þeir koma hérna daglega með blaðamenn sem eru að reynsluaka bílinn og fá sér hádegismat. Þetta er næstum daglega á aðra viku.
Erum báðir búnir að vera hálflasnir í 6 vikur með ógleði, niðurgang og hitaköst. Erum búnir að prófa öll lyfin í apótekinu, en þau virka bara rétt á meðan maður tekur þau. Fór loksins til læknis í morgun og fékk sýklalyf og eitthvað fleira sem vonandi stoppar þetta fljótlega.
Charlene bað um fund með mér um daginn og vildi fá að vita hvers vegna við hefðum rekið Don, manninn hennar. Ég sagði henni að ég hefði sagt Don það, 3 mánaðar reynslutíminn var liðinn og okkur fannst þetta ekki vera að ganga, hann væri ruddalegur við staffið og ekki verið hluti af liðsheildinni og þar að auki væru afköstin lítil og garðurinn aldrei litið verr út. Hún sagði að það væri að ganga kjaftasaga um að hann hefði verið rekinn eftir að við komum að honum í einu herberginu okkar í samförum við einhverja konu.. (Djísus hvað kjaftasögur geta magnast) Ég hló og sagði að það væri alls ekki rétt. (sem betur fer hafði ég aldrei nefnt að hann hefði leitað á Margréti) Margrét hefur hins vegar sagt öllu staffinu frá því, nema Charlene.