Saturday, September 22, 2007

Hringavitleysan

“Lord of the Ring”, það er Stína fína. Þegar við fórum til De Rust að heimsækja Volga, fórum við út að borða með henni á nýjan, mjög smart veitingastað sem er blanda af djunk shop, gullsmíðaverkstæði og veitingastað. Fengum mjög góðan mat og góða þjónustu og áttum mjög góða stund saman. Kristalettan fór að skoða skartgripina og sá “My Precious” hring sem hún fílaði í tætlur. Ákvað strax að hún þyrfti að fá ‘ann. Verðið var að hennar sögn 20.000 rönd (ca 200.000 ISK), sem henni fannst sanngjarnt. Hún lét strax vita að hún vildi hringinn og lét taka hann frá fyrir sig. Við ákváðum að fara í morgunmat/hádegismat þar, áður en við þyrftum að halda heim á leið, til að ganga frá kaupunum.

Volga og Bói, hrekkjótt bæði tvö, lugu og lugu að honum að hann myndi ekki lengur verðið þangað til hún loksins trúði þeim og hélt að þau hefðu rétt fyrir sér. Verðið var 20.500 Evrur. Þá stappaði stjúpdóttirin niður fótunum og sagði að gullsmiðurinn gæti troðið þessum hring upp í óæðri endann á sér. Þá kom gullsmiðurinn og leiðrétti þetta og sagði hvað hringurinn kostaði og þá létti Kristalettunni og ákvað að kaupa hann. Þá kom í ljós að þau tóku ekki kredit kort og ekki var Kristalettan með krónu á sér. Gullsmiðurinn bauðst til að hringja í bankann sem var lokaður og athuga hvort þau gætu ekki komið og opnað hann svo Kristaletta gæti náð sér í pening til að kaupa hringinn. Svo leið og beið. Kristalettan var í skýjunum yfir því að það ætti að opna banka spes fyrir hana svo hún gæti keypt hringavitleysuna. Gullsmiðurinn kom nokkru seinna og sagði að þau gætu ekki opnað bankann vegna þess að þau hefðu ekki svona mikla peninga. Það lá við að Kristalettan færi að gráta.

Jæja, eftir mikinn hlátur endaði Stjúpa (ég) á því að draga upp tékkheftið og borga “My Precious” og léttist nú brúnin á stjúpdótturinni. En þá átti eftir að minnka/stækka hringinn sem gullsmiðurinn lofaði að gera strax daginn eftir og senda með hraðsendingu til Greyton, vegna þess að við vorum á leiðinni þangað strax á eftir.

Hefst þá kafli tvö í hringavitleysunni. Daginn eftir að við komum til Greyton hringdum við til að athuga með “My Precious”. Hvort búið væri að redda þessu og hvort hann væri á leiðinni. Nei, nei, gullsmiðurinn hafði gleymt þessu og var ekki búinn að laga hringinn né senda hann og var á leiðinni til Namibiu í frí og gæti ekkert gert nema láta senda hann strax með hraðsendingu til Greyton. Líður og bíður og ekkert gerist. Kristalettan var farin að nálgast taugaáfall á miðvikudeginum þegar hringurinn hafði ekki komið vegna þess að við vorum að fara til Franshoek á Spa hótel og þaðan til Cape Town í eina nótt, áður en stjúpdótturin færi í flugið heim. Þá hringdum við í gullsmíðaverkstæðið og báðum þau um að hafa samband við hraðsendingarþjónustuna og biðja þau um að senda hann frekar á hótelið sem við ætluðum að gista á í Cape Town. Eftir mikið umm og ahh, hvað meinarðu eiginlega og ég er nú bara að vinna hérna, héldum við að þetta væri frágengið.

Þegar við komum til Franshoek hringdum við í Anne (Greyton Lodge), til að biðja hana að hringja í gullsmíðaverkstæðið og athuga hvar “My Precious” væri eiginlega. Eftir mörg samtöl kom í ljós að hringurinn myndi koma daginn eftir til Greyton. Við í Franshoek og á leiðinni til Cape Town. “Never fear when Anne is here”, er máltæki sem við notum um Anne enda er hún með ráð undir rifi hverju. Það hafði verið ráðstefna hérna og hún bað einn ráðstefnugestinn um að taka hringinn með sér til Cape Town og koma með hann á hótelið okkar. Þá létti Kristalettunni og setti niður axlirnar. Mútta (Bói) skipaði dótturinni að panta stóran blómvönd fyrir þennan væna ráðstefnugest þegar hann kæmi með hringinn, sem dóttirin og gerði.

Hefst þá kafli þrjú í hringavitleysunni. Ráðstefnan sem átti að enda um hádegi drógst á langinn og þessi væni ráðstefnugestur komst ekki af stað til Cape Town fyrr in um fjögurleitið. Við tékkuðum út um hádegi og héldum heim á leið. Kristalettan var búin að fá að gista til 4 og þá kæmi taxi til að fara með hana á flugvöllinn.

Anne hringdi í okkur að ganga 5 og sagði okkur að þessum væna ráðstefnugesti hefði seinkað með “My Precious”, en hún hefði beðið hann um að fara með hann út á flugvöll í von um að hann gæti gefið Kristalettunni hringinn. Við vorum ekki vongóðir vegna þess að við héldum að dóttirin myndi vera búin að tékka sig inn og mætt á barinn að róa taugarnar eftir þessa hringavitleysu og náttúrulega líka fyrir flugið. Jæja, allt er gott sem endar vel. Þessi væni ráðstefnugestur hitti9 Kristalettuna á flugvellinum og nú gat hún farið heim með “My Precious” með sér heim. Endilega biðjið hana um að sýna ykkur hringinn og munið að spyrja hvað hann kostaði, bæði í peningum og taugaálagi.........

Tuesday, September 11, 2007

Hæ hæ

Hér hefur verið slatti að gera eftir að Kristján kom. Mikið verið að sinna félagslífinu með Stínu fínu. Fórum upp til De Rust í tvo daga að heimsækja Volga. Alltaf gaman að koma til hennar og mikið verið að fíflast. Hún er hressari en hún hefur verið lengi og byrjuð að mála aftur. Var mjög skemmtileg ferð. Fórum niður að á í gær með Jenny og Noelle. Erum búin að stofna nýtt félag, sem er reyndar hluti af CRAFT (Can’t remember a fucking thing). Tók okkur langan tíma að muna þetta, en nýja félagið heitir SOS og stendur fyrir “Spontanious organising socializing” og á dagskrá þessa félags er að hringja með litlum eða engum fyrirvara og kalla alla saman í mat eða drykk eða bara að hittast með alla hundana niðri við á. Þetta hefur reynst vera mjög skemmtilegt, sérstaklega vegna þess að þetta er svo illa skipulagt og oftast nær enginn fyrirvari. Þetta gerðum við í gær og hittum við ána með alla hundana (7). Þeir hafa það æðislegt þarna. Geta hlaupið um allt og útí á og verið mjög óþekkir. Þeir eru farnir að halda hópinn og gelta eins og vitleysingar ef einhverjir aðrir koma. Hundarnir hennar Jenny er ennþá mjög óvanir þessu, enda eru þeir inni hundar sem fá mjög sjaldan að fara út. Jenny kemur með flösku vatn fyrir þá svo þeir þurfi ekki að fara útí ána að drekka eins og hinir.

Bimminn er ennþá í viðgerð og óvíst hvað þetta tekur langan tíma, þetta er Afríkutími. Núna er búið að laga vélina, vatnskassann, heddpakkningu, hitaventilinn, vatnspumpuna og ég veit ekki hvað, en núna er verið að fara yfir tölvuna sem strækaði á að leyfa þeim að starta bílnum. Djö... er mín orðin pirruð á þessum hægagangi. Það er ekki gaman að ferðast á Land Rovernum, enda er hann eiginlega landbúnaðartæki og ekki sérlega skemmtilegur til langkeyrslu.

Erum að fara á eftir út að borða með Jenny, Noelle og Brian. Svo erum við boðnir í mat hjá David og Margaret um fimm leitið. Þetta verður ansi mikill matur og ..........., en örugglega mjög gaman. Love and leave you.

Ps. Já hann Donald er alger hrekkjarlómur. Er búinn að reka hann þrisvar út af ressanum í morgun. Hann er sannfærður um að það sé annar karlfugl þar inn vegna þess að hann er alltaf að skoða spegilmynd sína í glugganum. Dauðlangar til að slást við þennan stegg sem er alltaf inni.

Saturday, September 01, 2007

Fyrirgefið hvað ég hef verið slappur að blogga

Hér hefur svosem ýmislegt verið að gerast. Ég rak einn kokkinn eftir að hafa fengið hálfhrár kartöflur, óæta sósu og kjöt eldað eins og skósóla. Rak hann á staðnum og þurfti að klára að elda restina af kvöldinu. Réð hann aftur daginn eftir sem aðstoðarkokk, sem þýðir að hann ber enga ábyrgð á neinu. Ábyrgðina ber annar kokkur sem er með honum á vakt. Var næstum því búinn að reka hann aftur, vegna þess að hann eldaði kjöt til andskotans aftur og gaf okkur óæta sósu, en það er víst ekki hægt, vegna þess að hann ber ekki ábyrgð. Hann (Bradley er nú besta skinn, bara svolítið mistækur.

Bói rak Ginu um daginn og réð hana aftur daginn eftir. Hún er “front of house” hjá okkur en því miður alltof oft inn í eldhúsi þegar gestir koma. Hún lofaði að taka sig á og vonandi gengur það eftir. Hér er nú búið að setja ný lágmarkslaun sem þýðir að við þurfum að hækka launin hjá flestum. Þetta er svakalega mikil hækkun og kom okkur á óvart vegna þess að við höfum hingað til borgað talsvert meira en lágmarkslaun og talsvert meira en flestir aðrir hérna. Þetta þýðir því miður að við þurfum að fækka starfsfólki eitthvað. Bói er búinn að segja einum þjóni upp. Þetta er ekki gaman, en hvað getur maður gert.... Við erum nú samt sem áður með mjög gott starfsfólk hjá okkur og það er alltaf að verða lengra og lengra á milli svona uppákoma.

Tölvan mín hrundi um daginn og það er nú að hluta til þess vegna sem ég hef ekki bloggað. Búinn að fá nýja, WiFi þráðlaust ADSL og loksins búinn að setja allt upp svo það virkar. Tók talsverðan tíma en sem betur fer tapaði ég ekki miklum gögnum. Það að vera án tölvu í næstum tvær vikur þýddi að ég þurfti að vinna dag og nótt að gera bókhaldið og svo fóru nokkrir dagar í að finna gögn vegna endurskoðunar og fleira og fleira. Er loksins kominn “up to date” með flest. Eins gott vegna þess að nú eru margir vinir á leiðinni í heimsókn til okkar. Kristján á Rækjukofanum kemur á morgun, Ása systir í Október, Bylgja og Abba (systur Bóa) í Nóvember og svo eru gamlir vinir Bóa frá Noregi að koma líka. Gaman, gaman.

Bimminn er búinn að vera í viðgerð í næstum því mánuð. Þeir ætluðu aldrei að finna útúr því hvað var að honum. Ekki í fyrsta skipti. Kom í ljós að það var heddpakkning og það á að vera búið að gera við bílinn á morgun. Vona þá bara að allt verði í lagi með hann. Það er ekki gott að hafa einungis einn bíl hérna meðan við erum með gesti og land Roverinn er nú hálfgerður traktor þar að auki, svo það er ekki gaman að ferðast langt á honum.

Endurnar fengu fimm unga. Pínulitla gula og svakalega sæta. Donald var nú ekkert ánægður með þetta og reyndi að drepa þá. Við þurftum að skilja þau að og setja Donald inn í girðingu svo hann kæmist ekki nálægt þeim. Svo þurftum við að binda Lucky þegar hún var úti með ungana. Ungarnir dóu því miður hver á fætur öðrum og sá elsti varð varla viku gamall. Eigum nú von á að hún reyni aftur fljótlega. Lucky vex og dafnar vel. Hefur það gott hérna á hótelinu með okkur. Svolítið óþekkur, stakk til dæmis í burtu um daginn og fór á Eikina og Vínið með einhverju fólki sem var bara að ganga hérna framhjá. Heldur kannski að það sé betri matur þar.....hmm. Sem betur fer hringdi einn Greyton búi í okkur og lét okkur vita að hann hefði verið hérna á Aðalstrætinu að spóka sig. Við héldum að hann væri bara hérna fyrir utan eins og vanalega þannig að við vorum mjög fegnir að hún skildi hringja og láta okkur vita. Lucky finnst mest gaman þegar það eru gestir hérna með börn sem nenna að leika við hann og er óþreytandi að leika við þau. Hann er mjög barngóður og maður þarf ekki að hafa áhyggjur af honum (Ólíkt Mörtu heitinni).

Takk fyrir öll kommentin og góðar óskir á giftingardeginum okkar. Sorry hvað ég hef verið slappur að svara ykkur, en það er alltaf gaman að fá smá svörun við blogginu. Ætla að reyna að taka mig saman og blogga ofter. Love and leave you.........