Sunday, March 26, 2006

Reykingar

Hér gengur lífið sinn vanagang. Ég sprakk á limminu þegar Guðmundur var heima og byrjaði að reykja aftur. Leiddist bara svo svakalega mikið að vera hérna einn. Fór einn daginn upp í apótek að kaupa mér nicorette tiggjó, sem þau áttu ekki. Alltaf þegar ég fór að kaupa þetta var til eitt bréf hálfur pakki eða minna. Ótrúlegt, sérstaklega vegna þess að ég var búinn að ræða við apótekarann oft og beðið hann um að tryggja að þau hefðu nægar birgðir, Þennan dag var ekki til neitt tyggjó og ekki væntanlegt fyrr en eftir nokkra daga. Ég varð brjálaður og sagði þeim að þau væru að fokka upp lífinu mínu. Það væri nógu erfitt að hætta að reykja þó svo að það bætist ekki ofan á að þau geti ekki átt nægar birgðir af þessari vöru.

Ég fór beint í búðina og keypti mér sígarettur og byrjaði að reykja aftur. Eftir að Lovísa kom reyndum við nokkrum sinnum að hætta með litlum árangri. Gátum verið reyklaus þangað til um eftimiddaginn. Held að metið hafi verið til kl 18. Við gáfumst upp á þessu og ég hef reykt síðan. Guðmundur var nú ekkert of ánægður með mig þegar hann kom, en hefur látið mig í friði að mestu leiti með þetta. Jæja, á morgun er nýr dagur og ég er staðráðinn í að hætta og núna ætla ég að standa mig. Hlakka til meira að segja og er búinn að gera það í nokkra daga. Þetta er allt með vilja að gera og ég hef nóg af honum. Lovísa ætlar að hætta líka, en ég er nú ekki alveg viss um hversu staðráðin hún er, en það er hennar mál. Ég styð hana ef hún hættir og ef hún gefst upp. þá er það hennar mál og hefur ekkert með mig að gera.

Saturday, March 25, 2006

"Uppákomur"

Hér komu gestir seinnipartinn í gær í drykki. Frúin var á perunni og herrann var vel tippsí. Þau enduðu upp í sundlaug þar sem þau kældu sig og fengu sér einn shortara. Ég var búin að segja við Lovísu þegar þau komu að þau ættu eftir að enda í sundlaugin allsber og fá sér svo drátt á eftir sem rættist. Okkur leist ekkert á þetta og sendum Anne á svæðið. Hún byrjaði á að njósna yfir grindverkið til að sjá hvað þau voru að gera. Svo leið og beið og aldrei kom Anne. Hún glápti á þau allan tímann án þess að þau vissu um hana. Það er svona smá perri í henni. Þau voru enn drukknari þegar þau fóru eftir að hafa stútað tveim flöskum af víni. Anne rukkaði þau um sundlaugargjald að auki þegar þau fóru. Þau hefðu nú eiginlega átt að rukka hana fyrir sýninguna. Við höfðum alla vegna mjög gaman af þessu og Guðmundur setti upp leiksýningu fyrir staffið í lok vaktarinnar og það var hlegið svo mikið að manni varð illt í maganum.

Tónleikarnir gengu vel í gær þó svo að þeir væru ekkert mjög fjölmennir. Ég var sendur heim með Gabríel um 8 leitið og steinsofnaði. Mætti svo aftur hérna rétt fyrir lokun til að bíða með Bóa eftir að seinustu gestir færu. Þurftu að reka þá í rúmið um eitt leitið.

Óh sorry músarmóðir góð. Takk fyrir commentin Anna Kristine, Hafdís, Gússý, Jóhanna, Ása og vonandi er ég ekki að gleyma neinum núna

Friday, March 24, 2006

Smábæjar slúður

Hér eru allir við góða heilsu. Gabríel hefur alveg jafnað sig á þessum marglyttu bruna. Lovísa pissaði ekki á hann, eins og Joe í Friends gerði við Monicu, heldur bar hún edik á sárið sem sló strax á sviðann. Bói hefur verið þokkalegur, soldið þreyttur og fengið eitt aðsvif síðan hann kom. Ég er hress og er að ná að hvílast og endurnærast.

Þetta slys með Bakkie (pallbílinn) eru ekki óalgeng hérna enda er þetta sá ferðamáti sem fólk notar hérna. Það eru næstum allir á pallbílum og fólk er transportað á þeim. Engin öryggisbelti eða neitt og svo eru þessir bílar í skelfilegu ástandi oft, enda ekki lögboðin skoðunarskylda hérna. Okkur fannst þetta soldið fyndið þegar við komum fyrst hérna, en fyrsta daginn sem við tókum við og tókum á móti starfsfólkinu okkar um morguninn klifrandi útúr svona pallbíl setti bara tárin í augun okkar. Okkur fannst þetta ekki fólki bjóðandi. Rollur væru ekki einu sinni fluttar svona á milli staða á Íslandi. Það hefur verið prinsíp hjá okkur frá fyrsta degi að staffið okkar er keyrt í almennilegum bílum og aldrei á pallbíl og við höfum getað staðið við það.

Það er búið að vera að gera fullt af endurbótum hérna. Búið að mála allt eldhúsið, laga viftuna, setja filter í hana og hreinsa hana af atvinnu mönnum. Svo er David búin með baðhergið í herbergi 5 sem var hræðilegt með teppi á. Það er orðið mjög fínt núna. Svo er hann núna að vinna í herbergi 17. Þar var annað hræðilegt baðherbergi með teppi á. Skiptum um loftið sem var líka ógeðslegt og laga flísar og flísaleggja gólfið ásamt því að skipta um hreinlætistæki. Svona verða herbergin tekin eitt af öðru þangað til okkur finnst það vera orðið fallegt. Það er ekkert verið að slaka á þrátt fyrir að við séum staðráðnir í að selja. Það er búið að skrifa undir trúnaðarsamning við fólkið sem hefur áhuga á að kaupa og svo er bara að tína til alla pappírana sem þau vilja og sjá hvernig þetta fer. Sama gildir um fasteignasöluna sem við settum slotið á sölu á. Þau eru bara að bíða eftir pappírum frá okkur. Svo kom annar fasteignasali hérna í fyrradag og sagðist vera með fólk sem hefði áhuga á að kaupa þetta, þrátt fyrir að það væri ekki á sölu. Einhverjir ameríkanar sem voru hérna um svipað leiti og við keyptum og höfðu áhuga, en voru of sein. Þau hafa enn áhuga þannig að við erum að reyna að finna útúr þvi hvernig við höndlum þetta.

Það er heilmikið slúður búið að vera í gangi hérna í þorpinu með það að við séum að selja, séum búnir að selja og að við Bói værum skildir. Meira segja Loana kallaði Bóa á fund til að fá að vita hvort við værum að selja. Við höfum nú bara sagt að það sé ekkert á dagskrá hjá okkur, enda geti allir séð að við erum á fullu í endurbótum sem einginn heilvita maður myndir gera ef hann væri að selja, en hver segir svosem að við séum heilvita. Svona er nú smábæjar slúðrið hérna, er þetta ekki allsstaðar eins?

Það verða tónleikar í garðinum á eftir og það er vel bókað í dinner í kvöld, þannig að það verður mikið að gera. Hér í bænum eru að opna tveir nýjir matsölustaðir, þannig að þeir eiga eftir að taka einhver viðskipti frá okkur. Annar veitingastaðurinn er líka að opna 6 herbergja lúxus hótel þannig að það á eftir að taka eitthvað frá okkur líka. Vonandi verðum við bara búnir að selja áður en þetta skellur á. Er nú samt ekkert of bjartsýnn á það en maður veit aldrei.

Gabríel er í skólanum daglega frá 7:30 til 12. Honum finnst það æðislegt, þó svo að hann skylji sjálfsagt lítið af því sem er sagt. Svo er Lovísa komin með barnapíu fyrir hann frá klukkan 16 til 21, þannig að það léttir nú álagið af henni. Hann er mjög krefjandi, en skemmtilegur og góður oftast, en þetta gerir það að verkum að nú getur hún unnið aðeins meira á þessum álagstíma sem er oft um kvöldmatarleitið.

Takk Ása og Gússý fyrir commentin. Alltaf gaman að fá comment og það hvetur mann til að halda áfram. Við erum búnir að týna e-mail addressunni hjá Gússý og Jóhönnu, þannig að það væri vel þegið ef þið gætuð sent okkur hana.

Thursday, March 23, 2006

Já, enn lifandi......

Eyddi heilum degi í Somerset West að bíða í “Kringlunni” meðan bíllinn var í viðgerð. Fór í bíó að sjá Brokeback Mountain. Mjög sterk mynd um forboðna ást, svakalega góð mynd, mæli með henni. Svo fór í í næstum því herja einustu búð í “Kringlunni”, ekki það skemmtilegasta sem ég geri, en það var víst ekki mikið val.

Ekki tókst þeim að laga bílinn heldur í þetta skiptið, núna uppgötvuðu þeir að það var eitthvað annað að sem orsakaði þetta. Ég spurði þá hvort það hefði þá virkilega verið nauðsynlegt að skipta um alla þessa vara hluti sem þeir hafa skipt um. Ekki að ég viti mikið um bíla, en mér finnst þetta hljóma eins og þeir hafi ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera. Ég þarf víst að fara með bílinn aftur í næstu viku, strax farinn að spá í hvaða mynd ég ætti að sjá. Þetta var í fyrsta skipti í 2 ár sem ég fór í bíó þannig að það er mikil uppliftun.

Gulltönn er núna komin með verkaliðsfélagið á okkur og ásakar okkur um að hafa þvingað hana til þess að segja upp. Þeir hringdu í morgun og vildu að ég kæmi til Caledon að ræða við þá. Ég sagði þeim að ég hefði ekki tíma til þess að koma til Caledon útaf svona vitleysu. Stúlkan sagði upp af fríum og frjálsum vilja og hefði afhent okkur uppsagnarbréfið og það væri ekkert að tala um. Never mind, þeir koma í næstu viku til þess að ræða við okkur. Veit ekki hvað gerist. Vinnulöggjöfin hérna er mjög sterk og næstum því vonlaust að reka fólk nema þú getir sannað að það hafi verið að stela og þá þarf yfirheyrslur og alls konar vesen sem við nennum ekki að standa í. Hún hefur svosem ekkert í höndunum, nema afrit af uppsagnarbréfinu sem hún undirritaði sjálf í vitna viðurvist sem kvittuðu líka.

Neil hennar Marise er búinn að vera á spítala. Það uppgötvaðist krabbamein í blöðrunni og var fjarlægt strax Þau er ekki enn búin að fá að vita hvort þetta er illkynja eða góðkynja, en það eru víst góðar batalíkur vegna þess að þetta var mjög einangrað. Systir hennar Volga lenti í mjög slæmu slysi og Volga er búinn að vera hjá henni. Hún var í fjallgöngu þegar hún datt og fótbraut sig á 5 stöðum. Það tók 18 menn 4 klukku tíma að ná henni niður af fjallinu. Það er reiknað með því að þetta taki ca 6 mánuði að gróa og óvíst hvernig það grær.

Fólkið hennar Anne lenti í slæmu slysi í fyrradag. Vour á leiðinni til Caledon með bróðir hennar Loanu í Bakkie (pallbíl) og sátu á pallinum þegar bílinn fór útaf og enti útí á. Bróðirinn slasaðist illa og fékk hjrtaslag í gær, Marius (maðurinn hennar Anne) marðist illa hér og þar og elsta barnið hennar fékk hálshnykk (þó ekki alvarlegt). Þetta lítur nú samt allt ágætlega út fyrir utan bróðir hennar Loanu og Anne er mætt til vinnu aftur. Mirchel er að hætta að vinna. Foreldrar hennar komum hérna um daginn og ræddu við Bóa. Hún er víst komin í slæman félagsskap og farin að prófa eiturlyf. Hún verður send núna á vestur ströndina til fjölskyldu til að jafna sig og ná áttum. Við erum farnir að vera verulega undirmannaðir á þjóna hliðinni. Eldhúsið gengur fínt en það er að stefna í krísu á þjónahliðinni ef það koma ekki einhverjir nýjir þjonar fljótlega. Erum búnir að setja þreyfarana út og svo er bara að sjá hvað gerist.

Sunday, March 19, 2006

Life goes on....



Hér hef ég loksins fengið að hvíla mig aftur. Sofið og sofið og sofið og Gvöð hvað það er gott. Lovísa fór með Gabríel á ströndina. Honum var búið að hlakka mikið til að fara í sól og sand. Hann var nú ekki lengi á ströndinni vegna þess að hann fékk marglyttu á sig og brenndi sig frekar illa. Lovísa var ein með hann og vissi ekkert hvað ætti að gera. Ég hringdi í nokkra vini og ráðið var að setja edik á sárið ef ekki fyndist Aloa Vera planta nálægt. Það alla vegna sló á sársaukann, en þau komu strax heim. Hann er fínn núna og finnur varla fyrir þessu.

Guðmundur var að hvíla í sig morgun og svo fór ég í hvíld, já þetta eru bara hvíldartímar, enda mikil þreyta í gangi. Vorum næstum fullbókaðir um helgina og allt gekk vel. Ég var inn í eldhúsi í fyrsta skipti í langan tíma til að tryggja að allt gengi vel, sem það og gerði og ég var í raun óþarfur þar, en allur er varinn góður sagði nunnan þegar hún setti........ Segi bara svona.

Takk fyrir góðar kveðjur og hvatningu til að halda áfram með bloggið. Erum búnir að vera í smá vandræðum með Bimman. Hann fór á BMW verkstæði í janúar í alherjar yfirhalningu, en ekkert var í lagi eftir það. Sauð á bílnum þegar hann kom og allt var í lamasessi. Það komu tveir viðgerðarmenn frá BMW að laga en gerðu bara illt verra. Loksins fór ég aftur með bílinn á föstudaginn að láta laga þetta, en því miður er ekki enn allt komið í lag þannig að ég þarf að fara á morgun aftur með bílinn. Tekur trúlega allan daginn og það er tími sem ég bara á ekki, en hvað get ég gert. Hér er allt á Afríku tíma...... Þannig að ég neyðist til að fara og eyða deginum að hanga á bílaverkstæði.

Ég er búinn að vera að suða í Bóa að fara í útgáfupartí á Gay bækling sem okkur er boðið í í Cape Town á morgun, en því miður eru hörgull á staffi eftir að Gulltönn hætti þannig að það er víst ekki í boði ákkúrat núna, því miður. Ekki að ég sé ánægður með það enda hef ég átt átt frídag í heila öld, en þetta er víst það sem við völdum okkur og ég hef ekki mikið val í augnablikinu. Koma tímar og koma ráð, og einhvern tímann fáum við frí saman.

Thursday, March 16, 2006

Sorry hvað ég hef bloggað lítið

Ég hef því miður bara verið svo ótrúlega upptekinn og þreyttur, enda ekki auðvelt að reka hótel einn og óstuddur. Guðmundur er reyndar kominn aftur fyrir viku síðan og hefur það bara gott. Þeir náðu að stilla lyfin hans heima og setja hann í smá endurhæfingu sem hefur skilað góðum árangri. Hann er mun betri núna, þó svo að hann þurfi að sjálfsögðu að passa sig. Svo er Lovísa hérna hjá mér og það er mikill stuðningur í því.

Það er bara þegar maður verður svona ofboðslega langþreyttur að maður hefur varla úthald í neitt. Hef fengið einn hvíldardag síðan Guðmundur kom og ég notaði hann til að sofa. Ég svaf og svaf og svaf, en fannst það engan vegin nóg. Svona er nú lífið hérna. Hugsanlegir kaupendur eru enn að spá og við erum farnir að vona að það gangi eftir að við getum bara labbað hérna út með hendur fullar af fé og farið á ströndina og legið þar í hálf ár og hugsað hvað maður gerir í framtíðinni. Sjáum til hvernig það fer allt saman. Erum nú samt ekkert of uppteknir af þessu.

Erum meira fókuseraðir á reksturinn og erum stanslaust að gera upp og breyta. Þetta er stórt hótel og í mörg horn að líta og að gera upp tekur mikinn tíma sem er oft bara ekki til. Svo er maður fullbókaður allt í einu og ekkert hægt að gera nema að hlaupa og tryggja að allt gangi vel. Erum fullbókaðir núna með ráðstefnu sem er alltaf gott. Sérlega skemmtilegt fólk sem var með þema kvöld í gær. Þau skiptu hópnum í 4 og það var einn hópur frá Hawai og drakk bara kokteila, annar hópur frá Mexikó sem drakk bara Tequila, Annar frá Rússlandi sem drakkk bara Vodka og fjórði hópurinn var frá Indlandi og drakk bara Cane. Þau voru öll klædd samkvæmt löndunum sem þau komu frá og skemmtu sér vel og enduðu í karioki á barnum. Varð seint kvöld með mikill drykkju hjá þeim.

Það er alltaf mikið álag þegar ráðstefnur eru til að tryggja að allt gangi vel. Aldrei hugsaði maður um það áður hvað væri í gangi á bak við þegar maður var sjálfur á ráðstefnu, bara ætlaðist til þess að allt virkaði. Hér er maður að færa til húsgögn, færa sjónvarp, fá DVD spilara, karioki, leigja glös og borðbúnað, kaupa sérstakan mat fyrir Halaal, Kosha og ég veit ekki hvað. Það er ótrlúlega mikil vinna sem fer í þetta og ITC þjálfunin hefur svo sannarlega hjálpað manni að vinna skipulega og að hugsa fyrir utan "boxið".

Hér er líka búið að vera smá uppgjör. Einn þjónninn kom til mín um daginn og fullyrti að hún hefði séð Gulltönn stela. Nokkrir aðrir starfsmenn voru með sögur sem studdu þetta og voru tilbúnir til að segja það fyrir framan hana. Við alla vegan tókum Gulltönn í viðtal og sögðum henni að þetta væri orðið gott. Alla vegan 4 starfsmenn hefðu séð til hennar gera hluti sem hún mætti ekki og við myndum ekki líða það. Henni voru boðnir 2 kostir, annað hvort segði hún upp eða hún yrði rekin. Við mæltum með fyrri kostinum sem hún þáði á endanum og svo var henni keyrt heim. Þannig að núna eru engir hérna lengur í stjórnunarstöðum. Þar fór áætlunin okkar um að afhenda völd og ábyrgðir. Þetta land er soldið klikk að þessu leitinu. Við erum alla vegan mjög sáttir við að hafa loksins losnað við hana. Höfum reyndar smá áhyggjur af hefndaraðgerðum frá fjölskyldu hennar og eins að hún fari í mál við okkur. Hún hefur reyndar ekki mikið til sins máls vegna þess að hún sagði upp án þess að gefa upp neina ástæðu og það er búið að borga henni allt út. Við reyndar drógum ekki af henni allt sem hún skuldaði okkur, enda höfum við smá áhyggjur af henni, þar sem hún er eina fyrirvinnan á sínu heimili og það verður erfitt fyrir þau eftir að Gulltönn hefur engar tekjur lengur. Hún er reyndar klár og fær trúlega vinnu fljótt annars staðar.

Saturday, March 04, 2006

Annríki og uppákomur

Hér er búið að vera mjög mikið að gera. Eiginlega bara allt á haus. Jagúar er loksins búinn og eiginlega söknum við þeirra. Þetta var stórt verkefni og þau voru mjög ánægð með okkur og leystu okkur út með gjöfum.

Vorum með ráðstefnu í vikunni og hótelið er núna næstum fullbókað. Eldhúsið er lokað í dag vegna þess að það ver verið að þrífa eldhúsviftuna. Fékk atvinnu menn til að gera þetta þannig að það verði gert almennilega. Svo þarf að fá nýjan mótor óg sýjur og þá verður nú allt annað líf að vinna í eldhúsinu. Svo förum við að mála það og gera það snyrtilegt.

Gabríel er búinn að vera mikill gleðipinni hérna og allt staffið elskar hann. Þau hafa verið að kenna honum smá ensku og Africaans og hann er fljótur að pikka þetta upp. Við fórum að skoða skóla fyrir hann hérna og hann kemur til með að byrja á mánudaginn. Þetta er krakkar frá 4-7 ára og er kallað hérna Pre-Primier school, en er náttúrulega bara leikskóli. Það eru einungis litaðir krakkar í þessum bekk og þar af er sonur hennar Penny (kokksins okkar), sem Gabriel hefur leikið sér aðeins við hérna á hótelinu. Það verður mjög gott fyrir hann að hitta aðra krakka í stað þess að eyða öllum sínum tíma með fullorðnu fólki hérna.

Hér var skítakuldi í gær (18°). Við byrjuðum með tónleikana úti en fólki fannst alltof kallt þannig að við fluttum þá inn og kveiktum upp í arninum. Það var stútfullt og mjög fín stemming. Það var margt líka í kvöldmat og allt virtist vera að ganga vel. Við Lovísa ákváðum að fara heim og glápa á sjónvarp, sem við og gerðum. Hálf tíma seinna koma Waný og sagði okkur að það væri allt í uppnámi á ressanum. Við drifum okkur yfir og hittum þar þrjá lögreglumenn vegna þess að gestur hafði kallað á lögguna vegna þess að maðurinn hennar hafði verið svo ruddalegur. Ég sendi lögguna strax í burtu, enda þekki ég þessa gesti. Verða alltaf of full og enda í rifrildi. Það höfðu víst verið mjög hávær og kallinn hafði verið með hótanir við tengdapabba sinn og konu. Ég alla vegna gekk strax á milli og náði að róa þetta niður. Verst að eitt 4 manna borð flúði vegna þessa (þau þekkja þetta lið líka) og David og frú flúðu líka. Ég alla vegna eyddi tíma í að tala við þau öll og náði að róa liðið. Setti svo frúna með tengdapabba sínum í annað herbergi sem eiginmaðurinn vissi ekki um. Þau voru öll frekar framlág í morgun báðust hundrað sinnum afsökunar og lofuðu að þetta myndi ekki koma fyrir aftur og buðust til að tékka sig út. Ég sagði þeim að ég treysti þeim til þess að láta þetta ekki gerast aftur og við settum þetta bara á bak við okkur. Það er endalaust eitthvað svona vesen í þessum bransa og það er víst bara eins gott að venjast því.

Fyrirgefið hvað ég hef bloggað lítið undanfarið. Það er bara aldrei tími til neins og þá sjaldan það er tími, þá er óvíst hvort maður hefur eitthvað rafmagn. Það er búið að vera rafmagnslaust 2-3 á dag, hvern einasta dag í rúman mánuð. Þetta hefur sett allt þetta svæði í mikið uppnám vegna þess að það er erfitt að vera í viðskiptum og hafa ekkert rafmagn. Eldhúsið hjá okkur virkar alla vegna mjög vel þrátt fyrir þetta rafmagnsleysi, enda er eldað að mestu á gasi.