Thursday, April 27, 2006

í kasti og afmælisveisla !!!!

Hér er allt búið að vera á haus. Brjálað að gera og algert met á ressanum í gær. Aldrei haft eins marga gesti og það var tvísetið á mörgum borðum. Ástandið var víst ekki gott á mörgum öðrum ressum í greyton. Gestir að slást vegna þess að maturinn kláraðist. Hér var nóg að bíta og brenna. Gestirnir fengu morgunmat klukkan 5 í morgun þannig að það var ekki mikill svefn hjá okkur. Lovísa og Gabríel sváfu hjá okkur enda fullbókað. Ráðstefnusalnum var breytt í nudd herbergi og ég veit ekki hversu margir sváfu þar í nótt. Þetta var allt fólk sem var stuðningur og hafði sofið nokkrar nætur í rútunum og fanns betra að sofa þarna á gólfinu, þrátt fyrir að það væri engin salernisaðstaða fyrir þau. Þau notuðu baðherbergin hjá gestunum sem þau voru að vinna fyrir og það var ekkert mál. Mjög þægilegur hópur. Klukkan 5 í morgun hringdi Tyspy sem var að sjá um veitingar fyrir hópinn ásamt morgunmat. Hún átti engann ost og var desperat. Sem betur fer áttum við soldið auka ost sem hún fékk lánaðan. Vonandi reddaði það henni eitthvað.

Ég tók kast á Wany í gær. Tapaði mér gersamlega. Þegar seinustu gestir voru loksins farnir og allt staffið átti að mæta klukkan fimm um morguninn daginn eftir, sá ég hann starta bílnum og færa hann að eldhúsinu. Stuttu seinna heyrði ég hann flauta, eins og hann væri að reka á eftir staffinu sem var á fullu að ganga frá og undirbúa morgunmatinn. Hálftíma seinna kom hann og bað um vasaljós. Fann ekkert sem virkaði, þrátt fyrir að rafmagnið hafði farið nokkrum sinnum um kvöldið. Ami og Wany eiga að sjá um að þau virki, en það virðist aldrei neitt þeirra vera í lagi ef þau finnast á annað borð. Ég spurði hann hvað hann ætlaði að gera við það og hann sagðist þurfa að laga ljósið á bílnum. Ég spurði hann hvenær hann hefði tekið eftir því að það virkaði ekki og hann sagðist hafa tekið eftir því seinnipartinn þegar hann fór að ná í Ami og Jacko sem höfðu verið útí skóg að ná í greinar til að gera grindverk. Hvers vegna í ósköpunum gastu ekki lagað ljósið þeagr það var bjart? Og hvers vegna ertu búinn að vera í burtu í hálftíma og af hverju þurftirðu að flauta svona eins og þú værir að reka á eftir staffinu. Þau voru öll á hlaupum og meira að segja eldhússtaffið var að aðstoða til að flýta fyrir. Don´t mess with me this time of the night og drífðu þig að aðstoða staffið að loka. Þau eiga öll að mæta klukkan 5 og þú þarft að keyra þau. Viltu gjöra svo vel að drífa þig að aðstoða þau NÚNA, sagði ég og hækkað (því miður) röddina aðeins.

Hann er ótrúlegur. Átti fund með honum í dag þar sem ég fór yfir þetta og sagði honum að ég myndi ekki biðjast afsökunar, vegna þess að fyrir mér hefði þetta litið út eins og hann hefði ekki nennt að gera við bílinn fyrr um daginn þegar það var bjart og að hann hefði bara verið að taka sér langa pásu og að ekki að styðja liðsheildina hérna. Oh, ég er búinn að fá svo ynnilega nóg af honum og reyndar Megan líka.

Hér var haldið upp á 4 ára afmæli Gabríels í dag og flest staffið kom með börnin sín. Það var sungið fyrir hann og kökur borðaðar. Allir voru leystir út með gjöfum og þetta var mjög gaman fyrir hann. Það voru nokkrir gestir hérna og allir höfðu orð á hvað þau hefðu öll verið stillt. Heyrðist varla í þeim. Þetta var mikið ævintýri fyrir Gabríel sem naut hverrar stundar.

Cape Epic (hjólreiðarkeppnin) fór héðan klukkan 7 í morgun og við fórum aðeins að skoða þegar keppnin hófst. Enginn smá fjöldi af hjólum. 1500 keppendur og alger stífla. Klukkutíma seinna sáust engin ummerki eftir að allt þetta fólk hafði verið hérna. Það eru nokkur herbergi í kvöld, Rólegt á ressanum, en svo er fullbókað um helgina, Þannig að það verður AKSJÓN.

Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar. Hef átt svo mörg afmæli (48) að manni finnst það varla taka því að gera sér dagamun. Hef ekki ennþá fengið gjöfina sem ég hef þráð mest. Einn heilan frídag! En koma tímar og koma ráð. Kannski í næstu viku. Takk líka fyrir öll kommentin, vermir alltaf. Love and leave u!

Saturday, April 22, 2006

Róleg helgi

Hér er búið að vera rólegt sem er bara ágæt tilbreyting eftir þessar seinustu annasömu vikur. Þetta er rólegasta helgi í langan tíma. Eitt borð í mat í gær, tónleikarnir fámennir og enginn gestur. Eitt herbergi að koma inn í dag. Seinasta helgi var löng fríhelgi þannig að það var brjálað að gera og næsta helgi er líka löng fríhelgi, þannig að trúlega eru bara allir að safna orku núna fyrir næstu helgi. Bærinn er næstum hálfyfirgefinn og hefur ekki verið svona tómt lengi.

Bói er búinn að vera á fullu að ræða við alla og fara yfir málin, sem skilar sér vonandi. Þurfum að fara að stokka upp aðeins í þjónamálunum, getum ekki haft Knoll og Tott hérna eina á vakt. Liggur við að þau séu verri en engin. Þurfum að finna leiðir til þess, vegna þess að það er ekki auðvelt að losna við fólk hérna. Sbr. Gulltönn, sem við höfum ekkert heyrt frá ennþá. Sjáum til hvernig það fer. Vonandi ekki sem “Fried staff filled with stolen things” Fannst þetta brjálaðislega fyndið AK.

Það eru fluttir inn nýjir nágrannar í næsta hús og þau eru eiginlega nágrannar from Hell. Þau hafa gist hjá okkur oft áður og eru yfirleitt drukkin allan tímann. Það voru þau sem voru hérna þegar Gulltönn hringdi á lögguna vegna þess að það stefndi allt í slagsmál. Þau eru nú samt bestu skinn, en ofsalega krefjandi. Þau eru búin að sitja meira og minna hjá okkur alla helgina, og það er ekki auðvelt þegar maður fær ekki einu sinni mínútu frið. Svo var hann mættur eldsnemma í morgun þegar ég var að fá fyrsta kaffibollann minn og var að dásama hvað það væri nú gott að fá frið loksins og ekki einu sinni neinir gestir að gista hjá okkur. Oh Boy, vonandi er þetta bara nýjabrum og þau gefa okkur smá frið. Hann kom með 5 mini bar ísskápa með sér sem við sömdum um að var greiðsla fyrir gistingu þegar þau voru hérna seinast. Þau voru nefnilega að selja gistiheimilið sitt sem íbúðarhúsnæði og þurftu að losna við fullt af dóti. Ég er mjög ánægður með þennan díl. Lyftir upp standardinum á herbergjunum.

Það verður brjálað að gera hjá okkur frá og með fimmtudefinum í næstu viku, vegna þess að það eru að koma hingað u.þ.b. 3000 manns sem eru að taka þátt í Cape Epic, sem er víst lengsta hjólreiðarkeppni í heimi. Er frá George til Cape Town, sem er hátt í 500km. Það er fullbókað allt hjá okkur eins og öllum öðrum í Greyton. Restin gistir í tjöldum. Það má búast við því að það verði allt brjálað á ressanum. Þessa helgi ætlum við nú bara að reyna að taka það rólega og hlaða batteríin. Love and Leave

Wednesday, April 19, 2006

Gleðilegt sumar

Þjónaherferðin er yfirstaðin og greinilegt að hún var áríðandi. Ýmislegt komið í ljós og sumt af því ekki auðvelt að taka á. T.d. eru tveir þjónar bara verulega “heimskir”, ljótt að segja en svona er lífið bara hérna. Wany er lesblindur og þekkir ekki munin á brandy og wiský og er oft settur á barinn. Megan finnur ekki flöskur af víni nema þær séu fyrir framan nefið á henni og svo gleyma þau (eða kunna ekki) bæði að skrifa upp það sem gestirnir hafa fengið. Ohhhhh, stundum getur maður orðið svo pirraður á þessu. Hver gerði eiginlega vaktlistann? Bara spyr, vegna þess að það var ekki ég. Núna þarf að hafa einn stóran almenna fund til að taka á málum. Greinilegt að frú öfundsýki er mætt og talar illa um suma. Þarf að stoppa.

Ég er búinn að vera með bókhaldshlekkina á mér í seinusta daga og náði í dag að senda til endurskoðandans okkar bókhaldið fyrir febrúar og mars. Var mjög stoltur, þetta er farið að ganga hraðar og hraðar og betur og betur hjá mér. Eins og reyndar hótelið líka, þó það sé nú svosem ekki mikill gróði ennþá. Það er enn alllt á fullu að gera upp baðherbergin og gengur bara vel. Maður er að verða meira stoltur með hverjum deginum sem líður.

Tuesday, April 18, 2006

Össur á forsíðu

Hér er allt búið að vera á haus. Brjálað að gera og við tókum eftir því að það var ekki allt skrifað af mat og drykkjum sem gestir voru að fá. Ekki nóg með það, heldur tókum við eftir einkennilegri hegðu hjá Mirchel. Hún var að fara inn á móttöku lon og don og þegar maður kom inn á skrifstofuna þá flýtti hún sér alltaf að gera það sem hún var að gera. Lítur út fyrir að hún hafi verið að stela líka. Við erum búnir að vera á fullu að fara yfir pantanir og bera saman við reikninga og það er fátt að stemma. Virðist vera sem þjónarnir hreinlegi gleymi að skrifa upp hvað gestirnir eru að fá og það er happ og glapp hvort við fáum borgað fyrir allt sem þeir fá. Bói er búinn að vera með fundar herferð með þjónunum og það er komið nýtt kerfi sem vonandi virkar betur. Þetta er eilíft mál, peningar og starfsfólk, djísus kræst.

Hér komst Össur á forsíðu blaðanna á laugardaginn. Það var marathon hérna og það var einn á tveimur gervifótum sem vann það. Einhver breti, á tveim fótum frá Össuri og í bol merktum Össuri líka. Var soldið stoltur! Svo hringdi í mig maður sem er á gervifæti sem ég gaf honum þegar ég vann hjá Össuri, og hafði verið að hlaupa líka, en sagði að þessi breti hefði hreinlega slátrað honum og að hann væri hættur að hlaupa. Hann ætlaði að koma við hjá okkur en gat það því miður ekki. Alltaf gaman að heyra í þessu fólki sem maður var að styrkja og gera fætur fyrir þegar ég vann hjá Össuri. Sumir eru enn í sambandi við mig og mér finnst alltaf vænt um það.

Hér hefur annars allt gengið vel um helgina. Ég er búinn að vera meira og minna inn í eldhúsi alla helgina og Bói að sinna gestunum. Erum soldið lúnir en ekkert alvarlegt. Kokkarnir náðu að eyðileggja sósuhitarann um helgina. Ef það er hægt að skemma það, þá gera þau það...... Vatnið kláraðist í honum og hitarinn brann yfir. Ætli það hafi ekki verið svipað með djúpsteikingarpottinn. Þvottavélina og sjónvarpið sem hefur allt brunnið yfir...... æji, þetta er ekki alltaf gaman. Hér er Mörpís lögmálið í fullu gildi.

Saturday, April 15, 2006

Starfsmanna fréttir

Hér er búið að vera mjög mikið að gera. Erum fullbókaðirf og ressinn líka. Allt gengið mjög vel 7-9-13. Ég var í eldhúsinu í gærkvöldi til að tryggja að allt gengi vel, sem það og gerði. Enginn réttur tók meira en 20 mínútur sem er frábært og allt mjög gott. Ég yfirgaf elshúsið þegar það voru tvær pantanir eftir og seinasta pöntunin fór í steik. Diskarnir kaldir og maturinn ekki rétt eldaður. Týpískt, má ekki líta af þeim.

Erum fullbókaðir í dag líka bæði á hótelinu og ressanum. Gott fyrir budduna, en ekki eins gott fyrir heilsuna. Hér erum við búnir að vera að gera ýmislegt. Bói er búinn að vera á bakinu á öllu staffinu með pásur og aðhald. Þau voru farin að slaka all verulega á mörg þeirra og farin að taka langar pásur. Ami var farinn að hverfa og fannst bara alls ekki. Ami og Jacko eru búnir að vera að mála og mála og mála, skipta um gler og snikka pleisið upp. Þetta er farið að líta mun betur út, en það er langt í land ennþá, enda eru þetta 9 hús og það þarf að mála þau öll. Róm var ekki byggð á einum degi og þetta kemur til með að taka tíma.

Starfsmanna fréttir:
Hilka-Ann, sem var þjónn hjá okkur kom og hjálpaði okkur með brúðkaupið. Hún er í námi en kom heim í páskafrí. Svo er hún núna að passa börn hérna fyrir hótelgesti. Alltaf gott að hitta hana aftur, enda er hún traust eins og klettur, eins og mamma hennar, hún Loana. Loana er komin með kærasta og brosið er fast á henni og hún er nú ekki sú brosmildasta. Farin að fá það reglulega og allt stefnir í brúkaup held ég bara. Þetta er víst fyrsti kærastinn hennar sem hún átti eitthvað af börnunum sínum með. Þau eru tekin saman aftur og það er frábært.

Wany er alltaf við sama heygarðshornið, sleipur eins og áll. Það kom stefna á okkur um að draga af honum meðlag. Hann er búinn að vera að reyna að fela það fyrir öllum hérna að hann skuldi meðlag, en hann er svo vitlaus að það vita allir þetta. Hann fór með stelpunum til Caledon um daginn eftir vinnu á diskó. Hann laug að konunni sinni að hann væri að keyra okkur Bóa og Lovísu og þetta væri þess vegna vinnutengt. Hún tók eftir því þegar hann fékk launin sín að hann hafði ekki fengið greitt fyrir þessa ferð og var ekki ánægð. Tengdamamma hans, Roselin vinnur hérna annað slagið þegar mikið er að gera í eldhúsinu og hún hafði orð á þessu við staffið. Spurði þau hversvegna í ósköpunum hann hefði ekki fengið greitt fyrir þessa vinnu. Það var fátt um svör í eldhúsinu og enginn sagði henni neitt. Wany var kominn í algera flækju útaf þessu og átti erfitt með að svara neinu. Ég tók hann fyrir í eldhúsinu og sagði honum að tengdamamma hans hefði átt alvarlegt samtal við mig um þetta og vildi að hann fengi greitt fyrir þetta. Hann fór alveg í hnút og vildi ekki viðurkenna að hann hefði verið að ljúga. Ég sagði honum bara að svona lygar koma alltaf í bakið á manni. Hann er nú ekki einu sinni góður lygari.

Anna er hetjan okkar þessa dagana og eiginlega sú eina sem við treystum algerlega. Hún er nú mistæk samt og getur verið soldið skapstygg við hina þjónana, en hún sinnir alltaf sínu og krefst þess af hinum þjónunum líka og svo er hún 100% heiðarlega. Roslyn, sem var í uppvaskinu er byrjuð sem þjónn og virðist bara vera að standa sig mjög vel. Hún hefur enga reynslu, en virðist vera góð að læra og svo er hún bara svo falleg líka. Myrtle er skilinn við Harald (fyrrverandi garðyrkjumaður) og flutt inn í “Candel light city” (Rafmagnið kom svo seint þangað að allir notuðu kerti) með rastafari manni. Virðist bara ganga vel hjá henni. Margrét sem er herbergisþerna er enn hérna. Er soldið fyrir sopann og mætir stundum ekki eftir launadaga. Hún býr við heimilisofbeldi greyjið og seinast fór kallinn svo illa með hana að hún var frá í 3 mánuði. Hún hefur nú litið vel út upp á síðkastið þannig að þetta virðist nú ganga eitthvað betur. Lovísa og Gabríel fóru heim til hennar um daginn og Gabríel hafði orð á þvi að það væri nú ekkert sérlega fínt heima hjá henni. Það er mikil fátækt og þetta eru oft hrörleg hús sem starfsfólkið okkar býr í. Engin teppi, bara steypt bert gólf og engar myndir á veggjum og húsgögnin fá. Svona er þetta hjá flestum þeirra.

Karen kokkur er að standa sig ágætlega. Er mun betri skaplega eftir að hún kom aftur tilbaka eftir barnseignar fríið. Hún var skelfileg með sínar hormónasveiflur þegar hún var ólétt. Penny kokkur er kannski sú sem er helst að pirra okkar. Hún er góður kokkur en ansi mistæk og svo er hún kjaftfor. Mér finnst hún reyndar fín, en maturinn sem hún bíður okkur stundum fer óhreifður inn í eldhús aftur. Vantar alveg vilja hjá henni að gera eitthvað sérstakt fyrir okkur nema maður sleikji hana og því nenni ég bara ekki lengur.

Margrét í eldhúsinu er alltaf við það sama. Alltaf jafn hávær og hlæjandi. Ég þurfti að loka inn í eldhús í morgun, vegna þess að hlátrasköllinn í henni yfirgnæfðu tónlistina á ressanum. Svo er það hún Charlene, sem er ný í eldhúsinu sem aðstoðarkokkur. Virðist vera klettur og mjög vakandi yfir öllu og passar að allt gangi vel. Gabríel er þessa dagana hjá dóttur hennar í pössun og hefur það fínt þar, enda er hún með börn líka sem hann getur leikið við.

Svo er það Carmen, Megan og Mirchel sem eru þjónar. Mirchel er að standa sig ágætlega, en hinar eru frekar hægar og ekki mikið með heilann í sambandi í vinnunni. Þurfum oft að reka þær útúr eldhúsinu. Bönnuðum Megan að taka símann vegna þess að hún bara bullar og getur ekki svarað neinu. Hún er nú samt ágætur þjónn. Mirchel hefur verið dugleg að taka meiri ábyrgð og tékkar inn gesti og getur svarað síma. Hún er nú samt soldil gelgja og getur átt það til að vera fljótfær og að klára ekki alveg það sem hú er að gera. Þetta þýðir náttúrulega að við þurfum að vaka yfir þessu öllu og passa upp á að allt gangi vel. Eiginlega er þetta svolítið eins og að vera verkstjóri, þar sem maður þarf að biðja um að meira og minna allt sé gert og ef maður biður ekki um það þá er það bara ekki gert. Þetta er nú kannski svolítið ýkt, en maður fær stundum þessa tilfinningu.

Takk fyrir kommentin og borðið nú ekki fyrir ykkur af páskaeggjum
Til hamingu með afmælið í gær Maggi.

Thursday, April 13, 2006

Gleðilega páska

Hér hefur svosem ekki mikið verið að gerast, og þó. Lífið hefur gegnið sinn vanagang og við erum að hlaða batteríin efir þessa annasömu helgi. Jenný kom í dag í G&T og það var gott aðhitta hana. Við fengum hangikjöt í gærkvöldi í matinn og Volga borðaði með okkur. Hún hafði boðið okkur heim til sín í súpu, en því miður eins og svo oft var bara ekki séns fyrir okkur að fara, þannig að hún kom til okkar. Nammi, alltaf gott að fá ísenskan mat!

Við erum fullbókaðir um helgina núna. Þettae er greinilega ekki eins og á Íslandi þar sem allir fara í sumarbústað, hér fara allir útá land, á hótel, nema þeir sem fara til Jenný, það er fullbókað hjá henni líka, þó svo að hún sé nú svo sem ekki í þessum bransa. Það eru alltaf einhverjir að koma að gista hjá henni, helgi og helgi. Höfum oft sagt henni að hún sé að taka viðskipti frá henni, en hún er vinsæl og veit af því.

Hér eru komnir sérstakir réttir á páskamatseðil eins og t.d. “Pickeld fried Curry Salmon” með Hot Crossbuns, hvernig líst ykkur á það? Þetta er víst mjög hefbundinn páskamatur hérna. Smakkaði aðeins í dag og þetta er delísíússsss. Jæja essgunar, má ekki vera að þessu. Love and leave u.

Sunday, April 09, 2006

Soldið lúnir

Brúðkaupið gekk mjög vel. Borgar sig alltaf að vera vel skipulagðir. Maturinn góður´og mikið drukkið, eiginlega bara met í drykkju á barnum. Veit ekki hvað´það fóru margar flöskur af Jagermeister og Tekila ásamt öllu hinu. Gott fyrir budduna, en gvöð hvað þetta varð seint kvöld. DJ var erfiður og það var mjög erfitt að fá hann til að tóna niður bassann og stilla hávaðanum í hóf. Höfum séð þetta áður og erum farnir að verða sjóaðari í að takast á við þetta. Partíð endist til klukkan 3 og seinustu gestir fóru ekki fyrr en við vorum búnir að slökkva öll ljós.

Þetta var hávær "Africaaner" hópur, en þau skemmtu sér líka mjög vel. Höfum aldrei séð svona mikið af brotnum glösum og sígarettu stubbar útum allt. Ég var mættur hérna rúmlega 7 í morgun til að þrífa glerbrotin og sígarettu stubbana til að tryggja að hótelið liti normal út þegar gestirnir mæta í morgunmat.

Núna eru flestir búnir að tékka út og ég er búin að hóa í alla vinina að mæta hérna í leyfar úr brúðkaupinu og G&T. Svo verður bara hrunið í rúmið á eftir, enda ekki mikil orka eftir, eftir svona törn.

Anna Kristine: Mér finnst þetta frábært sem þú ert að gera með styrktartónleikana. Af hverju viltu hvorki GÓ eða PÓ? Gangi þér vel með þetta verkefni. Love and leave you!

Saturday, April 08, 2006

Gabríel og gæfur strútur

Gabríel og fílarnir

Fílar

Ljón

Strútar

Gírafi

nashirningar

Zebra

Safarí

Merkilegt hvað maður hefur verið eitthvað slappur að blogga. Hér hefur nú svosem ekki mikið verið í gangi. Höfum ekkert heyrt meira frá Gulltönn, en það þýðir nú ekki endilega að hún sé hætt við þetta. Þetta er bara “African time” Það tekur allt tíma hérna.

Vorum með tónleika inni í gær, enda var rigning og frekar kallt. Það var mjög notarlegt með arininn á fullu og óvænt tónlistar atriði. Ferdi kom með nokkra nema með sér sem tróðu upp með klarinett og söng. Gullfallegar raddir. Svo er brúðkaup hérna í dag. Það fjölmennasta sem við höfum haft inni, 83 gestir. Það er velpakkað inni í öllum veitingasölunum okkar og svo verður dansað í galleríinu. Athöfnin fer fram úti í garðinum okkar. Lítur út fyrir að við séum vel undirbúin núna og ekki miklar líkur á neinum óvæntum uppákomum, en sjáum til..........

Við Lovísa og Gabríel fórum í safarí í vikunni. Það er safari park í Worcester sem er rúmlega klukkutíma akstur héðan. Gistum þar yfir nóttina og grilluðum og héngum við sundlaugina. Þetta var æðislegt frí, engir gestir, ekkert staff og svo gat maður bara fylgst með því hvað þjónarnir stóðu sig illa og brosað útí annað yfir því hvað ressinn þeirra virtist vera illa skipulagður. Við sáum Fíla, Gíraffa, Zebra, margar tegundir af antilópum, Buffalóa, Ljón, Nashirninga og ég veit ekki hvað. Þetta var mikið ævintýri fyrir Gabríel sem hafði langað svo til að sjá ljónin.

Svo hefur maður bara verið upptekinn í skrifstofuvinnu og undirbúningi fyrir hinar ýmsu veislur sem eru í farvatninu.

Baldur Birgis átti afmæli 1 April, Lovísa Jóns 4 apríl og Þráinn 27 mars (28?). Til hamingju öll með daginn.

Saturday, April 01, 2006

Verklýðs vandræði

Hæ, essgunar. Hér gengur sápuóperan sinn vanagang. Froða, froða og tóm froða. Gulltönn mætti hérna á miðvikudaginn með verkalýðsfélagið með sér og við vorum ásakaðir um að hafa þvingað hana til að segja upp. Við voru spurðir líka um ásakanir vegna þjófnaðar hennar. Við sögðum ekkert kannast við þjófnaði og að hún hefði sagt sjálf upp. Þetta varð heljar rekistefna og við enduðum á að bjóðast til að ráða hana aftur. Hún samþykkti það en þá heimtaði hún að fá tvöföld laun vegna þess að hún væri búin að eyða launun sínum sem hún fékk. Hún fékk tveggja mánaðarlaun þegar hún hætt. Við neituðum þessu að sögðum að það væri nú bara prinsíp hjá okkur og ef hún samþykkti þetta ekki þá væri það hennar mál. Það var mikill æsingur í þessu og það endaði með því að hún stefnir okkur. Vitum ekki hversu sterkt mál hún hefur, en líklega þurfum við þá núna að opna allt og tala um þjófnaði og koma hreint fram. Við erum að fá staðfestan skriflegan vitnisburð frá staffinu okkar um þjófnaðina, þannig að það gæti gert málið sterkara fyrir okkur. Veit samt ekki, vinnu löggjöfin er svo sterk hérna að það er næstum útilokað að reka nokkurn mann. Svo er Gulltönn búin að vera að hræða staffið okkar. Hringdi í Loana, og Amie og sagði þeim að löggan myndi banka upp á hjá þeim til þess að fá þeirra vitnisburð af því sem gerðist. Þau vitnuðu bæði undirskriftina hennar að uppsögninni. Svo hringdi hún í Marius og Ellen frænku og er að reyna að fá þau í lið með sér í lögsókninni. Þau voru bæði látin fara með svipuðum hætti og við komust upp með það þá. Höfum heyrt að Maríus sé ekki til í að gera þetta, en vitum ekkert um Ellen frænku.

Reykingarbindindið hjá mér gengur bara ágætlega, merkilegt nokk. Ég er bara eins og belja að jórtra þetta sígarettu tyggjó daginn út og inn. Lovísa gafst upp á fyrsta degi, en ætlar að reyna aftur í næstu viku. Við erum að spá í að fara í safari á mánudag eða þriðjudag og skilja Bóa eftir einan hérna. Hann er búinn að vera á fullu á eftir þeim Amie og Jacko sem hafa allt í einu hrokkið í gír með viðhaldsvinnuna. Amie var búinn að vera ótrúlega latur og virtist hverfa oft á dag, meðan að ég var einn hérna og það voru bara takmörk fyrir því hvað ég gat gert mikið þannig að ég lét þá að mestu leiti í friði. Núna er verið að mála og laga ýmislegt sem hefur ekki verið gert. Alltaf gott að sjá þegar hlutirnir eru málaðir og lagaðir. Svo er David ennþá á fullu að endurnýja baðherbergin hjá okkur þannig að það er ýmislegt að gerast.

Tónleikarnir í gær gengu vel og kvöldið líka. Það er þokkalega bókað hjá okkur núna um helgina. Þurfum að fara á markaðinn að kaupa blóm og osta. Notum næstum einungis osta sem eru gerðir hérna í nágrenninu og eru æðislega góðir.