Sunday, July 23, 2006

Björgunarleiðangur

Þvílík helgi! Vorum fullbókuð líka í gær, samt ekkert svo brjálað að gera á ressanum. Allt gekk mjög vel. Hópur sem gistir hérna fór í fjallgöngu, MacGregor til Greyton. Marius, maðurinn hennar Anne, keyrði þau um morguninn til MacGregor og svo gengu þau það yfir fjallið til Greyton. Þetta er einhver þekktasta fjallgönguleið í Suður Afríku og mjög vinsæl. Veðrið var ekki gott, rigning og suddi og þau voru vöruð við því að vera að fara þessa göngu í þessu veðri vegna þess að það var kallt og þoka þar að auki.

Rétt fyrir 4 hringdu þau og voru þá komin yfir fjallhrygginn, en einn af þeim var orðinn máttfarinn og mjög kaldur og báðu mig um að redda einhverjum sem gæti keyrt til móts við þau. Ég hringdi strax í Tourist info og spurði hvað ég ætti að gera. Það var fátt um svör. Ég gæti hringt í björgunarsveitina eða fengið einhvern á jeppa til að fara til móts við þau. Ég ákvað að fara sjálfur á Land Rovernum. Fór upp á vitlaust fjall, svona þekki ég nú staðhætti lítið. Hringdi í Marise, og Neil bauðst til að koma með mér, vegna þess að hann þekkti leiðina. Náði í hann og við tókum teppi og Brandy með okkur. Hittum hluta af hópnum niðri við fjallshlíðina og þau höfðu skilið 3 eftir upp á fjallinu. Við brunuðum upp torfærur þangað til við hittum þau ofarlega í fjallinu. Maðurinn var mjög kaldur, blautur og máttfarinn, en ekkert alvarlegt. Við þurftum að keyra næstum því upp á topp til að geta snúið við vegna þess hve slóðinn var þröngur og þverhnípt niður. Við komum tilbaka á hótelið stuttu seinna, maðurinn fór í heita sturtu og hvíldi sig aðeins. Hann var mjög hress þegar hann kom í kvöldmat og hafði alveg jafnað sig. Þetta var nú björgunarsveitin “Villi”.

Gott að hafa vini eins Neil, sem geta hjálpað svona. Og Bæþevei, hann var í tékki um daginn út af krabbameininu sem greindist með í þvagblöðrunni. Það stóð til að setja hann í aðgerð þegar hann greindist vegna þess að þetta leit ílla út og fjarlægja þvagblöðruna og setja Stoma á hann. Enivei, í tékkinu núna fannst ekkert. Merkilegt, hann er búinn að vera á allskonar, heilsufæði grasalyfjum, heilun og ég veit ekki hvað. Krabbinn virðist bara vera farinn.

Saturday, July 22, 2006

Endalaust hól.....

Hér er búið að vera brjálað að gera. Fullbókaðir og ressinn líka. Allt hefur gengið eins og í lygasögu. Ótrúlega vel og það var gaman að tékka gesti út í morgun. Það rigndi yfir mig hóli um matinn, herbergin, tónleikana og andrúmsloftið. Carmen hringdi í gær frá Cape Town og sagðist ekki komast. Þannig að ég var bara með 2 þjóna og fullan ressa. Noelle kom ekki heldur þannig að það var ekki mikið um hvíld hjá mér. Wydie kom og stóð sig bara ágætlega, þannig að þær voru þrjár með mér. Ég stóð vaktina mína og var barþjónn, hjálpaði þjónunum, tékkaði á eldhúsinu reglulega, sá til þess að arineldurinn var logandi allstaðar og spjallaði meira segja við gesti sem voru að borða. Hef ekki gert það áður, en það var fínt og allir voru í skýjunum. Rafmagnið var að fara annað slagið í allt gærkvöldi. Þetta gerist þegar það er mikið að gera í Greyton. Það er ekki nóg rafmagn og það slær út á veikasta örygginu, þannig að ég þurfti að vera við rafmagnstöfluna líka til að tryggja að það slægi ekki út. Það var Rugby í sjónvarpinu í gær þannig að það voru margir að horfa á það og ekki gaman þegar rafmagnið fer þegar spennandi leikur er í sjónvarpinu.

Bradley kom í gær og vann með Loana um morguninn við undirbúning fyrir helgina. Loana leist vel á hann og ég held hann hafi bara staðið sig vel. Hann var líka ánægður og fannst gott að vinna með okkur. Við erum ekki alveg fullbókuð í dag, en þó er slatti af gestum og verður trúlega mikið að gera í kvöld. Það er skítakuldi hérna, rigning og allir eiga von á því að það snjói í fjöllin. Skítakuldi hérna er 8 gráður og datt niður í 2 gráður í nótt. Er þetta ekki bara eins og sumarveðrið sem hefur verið á klakanum?

Thursday, July 20, 2006

Ég komst út af hótelinu - breytingar

Hér hefur verið rólegt í vikunni, en við erum næstum fullbókaðir um helgina þannig að það verður slatti að gera. Noelle hefur verið að hjálpa mér og það er mikill léttir að hafa einhvern sem maður getur treyst, auk þess sem hún er góður félagi.

Penny er búin að ákveða að hætta og seinasti dagurinn hennar er á sunnudaginn. Bradley byrjar sem kokkur á morgun, og ég vona bara að hann sé góður. Mirchel kom í dag með glóðarauga og sagðist vera búin að ákveða að hætta. Hún er búin að vera í einhverri óreglu og pabbi hennar barði hana. Hún kemur til með að flytja frá Greyton eitthvað annað og ætlar að reyna að hætta þessari vitleysu sem hún er búin að vera í. Það þýðir að ég hef einungis 3 þjóna eftir. Það er á mörkunum að það sleppur, en ég ætla að sjá til ein lengi og ég get vegna þess að þetta rólegur tími ársins og ekki mikið að gera fyrir utan einstaka helgi. Widie, dóttir hennar Charlene (aðstoðarkokkur) ætlar að koma á morgun. Hún hefur víst reynslu sem þjónn, þannig að ég ætla að prófa hana og ef hún reynist vel, þá hef ég hana sem Backup.

Það var lokað hjá okkur í gær, og ég fór í dinner til Noelle. Þar voru Jenny, Linda, Herman og Philipus. Þetta var mjög skemmtilegt og langt síðan ég hef farið eitthvað fyrir utan hótelið að hitta fólk. Man varla eftir því, það er svo langt síðan. Ég reyndar var ekki lengi. Þurfti nefnilega að opna og vera aleinn hérna til hádegis, vegna þess að það var ekki einn einasti starfsmaður á vakt. Þetta er ekki alltaf auðvelt þegar maður hefur svona takmarkaðan starfsmannafjölda og er svo að reyna að spara að auki.

Lillan Anne-Lise verður jarðsungin á morgun. Veit ekki í hvaða kirkju.... Þorvarður tengdapabbi er búinn að vera mjög lasinn og er á spítala. Þau reikna samt með því að hann verði nógu góður til að fara í jarðaförina. Síminn hjá Bóa er 568 2836 og GSM 894 2836. Bói hefur verið mjög upptekinn með fjölskyldunni og því ekki haft tíma til að vera í sambandi við neina

Sunday, July 16, 2006

Kokkavandamál og NFH

Hér hefur allt gengið vel, enda þegar það er búið að rasskella, þá eru allir til friðs og allt gengur yfirleitt vel. Merkilegt hvernig þetta virkar, þetta eru eins og börn stundum. Þegar það er búið að skamma, verða allir stilltir og þægir.

Mr & Ms Hoffman gistu hérna óg tékkuðu út í gær. Þau höfðu farið á Eikina og Vínið í hádegismat og hittu þar NFH. Fengu nokkra drykki með þeim og höfðu það notarlegt. NFH buðu þeim heim til sín í drykki sem þau þáðu. Djísus sögðu þau, hafa aldrei hitt verri fyllibittur. Var víst frekar óþægilegt, enda voru þau með 3 börn með sér. Þau mæltu sér mót á Barnards (nýja ressanum), en þegar þau komu tilbaka, ákváðu þau að hitta þau ekki aftur. Herra Hoffman sagði mér þetta og sagði jafnframt að NFH hefðu sagt þeim að þau mættu ekki stíga fæti inn fyrir lóðarmörkin okkar. Löggan myndi mæta strax. Ég sagði honum sem allra minnst, en greinilega hafa NFH sagt næstum allt vegna þess að þau höfðu svo mikla samúð með mér að þurfa að búa með NFH við hliðina á okkur.

Mirchel hefur ekki sést í dag. Noelle kom og var hérna í 3-4 tíma að leysa mig af, svo ég fengi einhverja pásu. Hefur ekki verið mikil hvíld þessa helgi. Penny (kokkur) sagði upp í seinustu viku og mun sjálfsagt hætta eftir rúma viku. Hún hefur verið með samviskubit að vera að hætta þegar hún veit hvernig aðstæður eru hérna. Ég sagði henni að vera bara ekkert að spá í það, fjölskylda (mamma hennar er ekki góð til heilsu og býr í Cape Town ein) kæmi fyrst. Ég hefði vara áætlun þar sem ég væri með umsókn frá kokki sem væri trúlega ágætur, þannig að hún skyldi bara gera það sem hún þyrfti. Ég myndi redda mér einhvern vegin. Þetta reddast alltaf einhvernvegin, ekki satt?

Saturday, July 15, 2006

Meri drama...................................................

Konsertinn gekk mjög vel hérna í gær og var vel sóttur. Ég átti nú von á því að Ferdi yrði einn að spila á píanóið. En svo kom Karen, sem er ópersöngkona og nokkuð vel þekkt í Suður Afríku og ég bað hana um að taka nokkur lög. Hún hefur komið nokkrum sinnum áður og alltaf tekið lagið við mikinn fögnuðu. Svo kom Michelle Halloway sem er þekkt hérna líka fyrir þjóðlagatónlist og hún tók nokkur númer og svo tróðu aðrir gestir upp og þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Soldið seint, þau voru framyfir miðnætti og ég var svo þreyttur þegar ég vaknaði í morgun. En jafnaði mig fljótt enda mikið að gera.

Hér er búið að vera allkonar drama í dag. Djísus, þessu linnir aldrei...... Byrjaði á því að Jacko svaf yfir sig og sagðist ætla að koma á hjólinu seinna. Hann mætti aldrei. Svo fékk ég SMS frá Penny sem hafði farið til Caledon og bauðst til að gera erindi fyrir mig ef ég þyrfti sem ég þáði. Enda þurfti að fara í bankann og sækja fengina fyrir þjórféð sem átti að vera greitt út í dag. SMS sagði að bíllinn sem hún fór með hefði bilað og hún komst aldrei til Caledon og hefði þurft að labba heim. Rúma 10 km alla vegna. Ég lét staffið vita að því miður gæti ég ekki greitt út þjórféð en allir gætu fengið fyrirfram sem þyrftu. Ekki málið. Svo verð ég var við að eitthvað er í uppsiglingu í eldhúsinu. Maður snabar þetta alltaf upp einhvern vegin. Karen var með fílusvip og leit út fyrir að vera mjög reið út í Penny út af þjórfénu. Ég ítrekaði við hana að hún gæti fengið fyrirfram og þessvegna allt þjórféð ef hún vildi. Nei það var ekki málið og hún ætlaði að ræða við mig einslega seinna. Nokkru seinna kom Penny út, grátandi og sagðist vera að fara heim. Hún gæti ekki tekið allan þennan skít sem staffið væri að hreita í hana út af þessu. Ég bað hana um að gjöra svo vel að gera mér þetta ekki. Þarf ekki á meiri uppákomum að halda. Sagði henni að rölta í burtu í 1-2 tíma og jafna sig og koma svo aftur. Rauk svo inn í eldhús og hellti mér yfir Karen, sem sagðist ekki hafa átt neinn þátt í þessu. Ég sagði, jú víst. Þekki fílusvipinn á þér langar leiðir. Hún sagði að maður ætti ekki að treysta fólki svona, eins og ég treysti Penny. Ég sagði henni að ég vissi fullvel hverjum ég gæti treyst hérna og það væri ekki henni að kenna að bíllinn hefði bilað. Við náðum að ræða í gegnum þetta og ég bað hana afsökunar.

Böndin beindust nú að Anne sem hafði sagt eitthvað ljótt og gefið í skin að Penny hefði verið í Caledon og þetta væri allt saman lygi hjá Penny. Ég náði að ræða við Anne og hún sagði mér að hún hefði keyrt framhjá þeim um hálf ellefu leitið um morgunn þar sem bíllinn bilaði miðja vegu til Caledon og sagði að Penny hefði hvort eð er ekki náð í bankann vegna þess að hann lokaði kl. 11 á laugardögum. Ég sagði við hana, hvað vitleysa, það tekur bara 20 mínútur að keyra til Caledon og hún hefði alveg náð. Stundum bara gerast svona hlutir og maður ræður ekkert við það. Never mind. Penny kom aftur og allir eru hamingjusamir.

Svo sagði Anne mér að Mirchel myndi ekki koma til vinnu vegna þess að það væru vandræði heima hjá henni. Hún spurði mig líka hvort ég hefði heyrt að hún ætlaði að hætta um mánaðarmótin. Nei það hafði ég ekki heyrt. Mirchel kom svo hérna um fjögurleitið og sagðist ekki geta unnið í dag. Ég var búinn að leggja tvo og tvo saman og fá 7, enda er ég ljóska. Hún fékk fyrirfram í gær og fór beint að kaupa sér dóp og var ekki í stuði til að vinna. Þegar hún kom sagði ég henni að ég væri búinn að fá nóg af þessu veseni. Hringja 5 mínútum áður en hún ætti að mæta til vinnu og boða forföll. Hún spurði hvort ég sæji ekkert skrítið í andlitinu á henni. Nei, sá ekkert. Hún bennti mér þá á skrámu á nefinu á sér og sagði að pabbi hennar hefði barið hana (Wonder why...) Ég sagði henni að ég væri bara búinn að fá nóg og ef hún hefði ekki áhuga á að vinna hérna þá vissi hún hvar dyrnar væru. Hún gæti ekki verið að demba sínum vandamálum á mig. Ég hefði nóg á minni könnu fyrir og þyrfti ekki meira. Vandamál skyldu skilin eftir heima. Svo spurði ég hana hvort það væri rétt að hún ætlaði að segja upp um mánaðarmótin. Já, hún ætlaði að leysa systir sína af sem væri að vinna á Barnards (nýja ressanum) vegna þess að hún væri ólétt og gæti ekki unnið lengur. Ég spurði hana hvort hún hefði virkilega svona mikinn áhuga á því að vinna með Megan og Wany (þjónunum okkar sem hættu og fóru yfir til Barnards). Nei, en hvað þá? Hún vildi bara hjálpa systir sinni meðan hún væri ólétt, svo hún myndi ekki missa vinnuna sína. Djísus. Ég sagðist ekki vera að reka hana, en hennar framkoma gerði það að verkum að hún gæti bara farið strax ef hún vildi. Ef hún hefði áhuga á að endurhugsa, þá væri ég tilbúinn til að ræða það , enda er hún góður þjónn, mikil liðsmanneskja og góð kona. Veit ekki hvað gerist.

Thursday, July 13, 2006

Erfiðir tímar - en skrifa aldrei aftur um dramalausa daga.....

Hæ essgunar

Aldrei ætla ég að skrifa aftur um dramalausa daga. Ef ekkert skeður hérna, þá skálda ég, og efa reyndar að að ég þurfi að gera það. Bói komst heim heill og allt gekk vel.

Í dag var kistulagning og ég veit ekki meir. Þarna fór mikil og góð kona sem ég elskaði og virti mikið. Enginn veit æifi sína fyrr en öll er, og Guð veit að hugur minn er með fjölskyldunni og sérstaklega Varða sem hefur það ekki mjög gott.. Takk fyrir allar síma hringingarnar, e-maila og commenta með samúðarkveðjum.

Noelle kom í fyrradag og sagðist vera að “Reporting to duty”. Hún er góð kona og finnst þetta bara gaman. Segir að það haldi henni gangandi að geta komið og hjálpað aðeins. Ég er búinn að sýna henni öll herbergin og Anna er búin að fara yfir allar rútínur með henni, þannig að ég held að það verði mikil hjálp í henni. Hún er klár og mjög fjölhæf. Óvænt tékkuðu inn gestir í gær þannig að við þurftum að gera morgunmat í morgun. Ekkert staff á vakt nema Jacko garðyrkumaður. Við rúlluðum þessu upp tvö með aðstoð frá Jacko. Ommilettan sem Noelle gerði var nú ekki sú flottasta sem ég hef séð þrátt fyrir að hún kæmi með sína eigin pönnu og eigin kryddjurtir. Held samt að hún hafi verið mjög bragðgóð. Alla vegna sögðu gestirnir að morgunmaturinn hefði verið æðislegur. Seinna spurðu þau hvað við hefðum verið lengi hérna. Ég sagði 2 ár. Oh, konan þín var mjög vingjarnleg og lífgaði upp á arineldinn hjá okkur. KONAN mín, nei þetta var vinkona mín. (Noelle er eitthvað um 60 ára, var ekki par ánægður). Jacko meira að segja er búinn að vera að hjálpa til með herbergin í dag. Gott alltaf að finna stuðning frá staffinu.

NFH eru mættir aftur og það er búinn að vera hávaði frá þeim í dag. Hurðaskellir og öskur. Ég hef haft GSM símann minn á borðinu og er tilbúinn til þess að hringja í lögguna á skammvali ef þarf.. hef samt ekkert of miklar áhyggjur af þeim.

Mirchel var mjög lasin hérna í fyrradag og við þurftum að koma henni fyrir upp í bókasafni svo hún gæri sofið og hvílt sig. Lítur út fyrir að hún sé á einhverju spítti sem heldur henni vakandi alla helgina og svo er hún svo þreytt eftir helgina að hún hefur enga orku. Veit ekki alveg hvað við gerum með þetta.

Anna er líka búin að vera í drama. Hana er búið að gruna lengi að maður hennar haldi framhjá henni og komst að því í gær að það var rétt og það með góðri vinkonu hennar. Maríus, maðurinn hennar fór að heiman og hún tók eftir því að hann fór í vitlausa átt. Fór því á eftir honum og hann fór beint til vinkonunnar. Hún strunsaði þar inn og barði vinkonuna og manninn sinn. Seinna um daginn náði hún að spjalla við manninn sinn og það lítur allt út fyrir að þau nái að vinna úr þessu. Hún gat ekki komið til vinnu sem var mjög óvanalegt og ólíkt Önnu. Carmen vann lengur þannig að það reddaðist hérna. Noelle var mjög óánægð með hana, en ég vissi að það var eitthvað mjög alvarleg fyrst hún gat ekki komið. Löggan er búin að koma tvisvar í dag til þess að reyna að ná í hana, en það var áður en hún kom á vakt. Anna er soldið eins og ég, mjög bráðlynd, sem getur verið gott stundum en ekki alltaf.

Volga kom í dga og sat með mér í rúma 2 tíma sem var mjög gott. Þráði félagskap. Marise og Neil hringdu líka í morgun og buðust til þess að ná í Bimmann úr viðgerð í Somerset West, en því miður var hann ekki tilbúinn. Kvíði fyrir því að heyra hvað það kosti að fá bilaðann bílinn aftur, vegna þess að þeim tekst aldrei að laga bílinn.

Fengum eftirfarindi kort frá starfsfólkinu okkar í gær:
“Dear Bói and Villi. We Greyton Lodge staff want you to know that we are thinking of you in your time of trouble. Always remember that the Lord always takes always those who he wants close to him, First, be strong & keep feath. Greyton Lodge - Staff

Tuesday, July 11, 2006

Slæmar Fréttir

Eftir mjög annasama helgi, þar sem við vorum fullbókaðir, fengum við mjög slæmar fréttir að heiman í gær. Mamma hans Bóa varð bráðkvödd seinnipartinn í gær. Fékk hjartaslag. Bói flýgur heim í kvöld. Ég verð eftir eina ferðina enn, vegna þess að það er ekki hægt að skilja hótelið eftir án okkar. Noelle kemur til með að hjálpa mér þannig að ég geti alla vegna fengið einhverjar pásur og svo verður Anne sett upp á fleiri vaktir. Líklega kem ég til með að fá Gabríel (manninn hennar Gleði) til að keyra eitthvað fyrir mig meðan ég er einn þannig að þetta á nú allt saman að geta gengið vel. Endilega hugsið vel um hann Bóa minn meðan hann er heima. Veit ekki hvort hann kemur til með að gista hjá Kristjáni (Rækjukofa) eða hjá pabba sínum.

Tuesday, July 04, 2006

Dramalausir dagar

Hér er búið að vera rólegt. Slatti að gera samt en ekkert drama. NFH eru mætt á svæðið og þau virðast læðast um og hvísla vegna þess að maður verður varla var við þau. Vonandi verða þau til friðs. Jacko missti dóttur sína í seinustu viku. 6 ára gamla, lenti í dráttarvélaslysi og dó. Það var mikið áfall fyrir hann, og við hjálpuðum honum með peninga fyrir útförinni. Útfarir eru mjög mikilvægar hérna og mikið lagt í þær.

Karen í eldhúsinu er búin að vera erfið. Bói pantaði hjá henni samloku með kjúklingasalati. Þær gleymdu því og blóðþrýstingurinn fór upp hjá Bóa þannig að hún var sjúkraskrifuð í einn dag. Þolir ekki stressið af eign mistökum. Það voru einhver fleiri mistök líka, en Djísus, maður er orðinn svo vanur því að maður næstum því afstýrir þeim án þess að hugsa um það.

Mirchel var að halda upp á 21 árs afmælið sitt í fyrradag. Átti að vera á vakt daginn eftir, en hringdi og sagðist vera veik. Ekki tekið gilt. Mamma hennar hringdi svo seinna um daginn og sagði mér að hún væri veik. Ég spurði hvað væri að henni, og hún sagði að hún væri veik. Já, en hvað, VEIK. Ég sagði henni að ég vissi að hún hefði verið með partý og þynka væri ekki það sama og að vera veik. Mirchel kom svo í símann og sagðist vera lasin. Illt í hálsinum, gat reyndar ekki heyrt það en OK. Þá spurði hún hvernær hún væri á vakt næst. Ég sagðist ekki vita það. Hún mætti ekki í morgun á morgunvakt einsog hún átti að gera. Bói heldur að hún sé hætt. Veit ekki. Þetta er mér einum lagið. Verða svo fúll að staffið hættir sjálft án þess að vera rekið, bara vegna þess að ég verð fúll.

Ég var að segja við Bóa í seinustu viku, Rosalega er allt rólegt. Það er ekkert drama lengur og það er eins og allt sé dautt. Djísus, maður er orðinn svo vanur miklu drama að manni finnst það næstum ekki raunverulegt þegar allt gengur bara, burtséð frá þessum uppákomum hér að ofan.

Mirchel kom í morgun með vottorð um að hún væri veik og hefði ekki verið með þynku. Bað hana afsökunar og óskaði henni góðs bata. Loana hringdi svo og tilkynnti veikindi. Penny í Cape Town, þannig að Karen vinnu tvöfalda vakt. Það er annars búið að vera mjög gott að gera. Miklu meira en í fyrra. Er með tilboð í gangi núna, sem virðist vera mjög vinsælt. Óvanalegt að hafa svona mörg herbergi hérna í miðri viku um miðjan vetur. Við höfum líka verið mjög heppnir með gesti. Allir verið þægilegir og ekki átt orð til að lýsa því hvað þeim finnst allt.